KVENNABLAÐIÐ

Kynfræðsla nauðsynleg og valdeflandi tól gegn ofbeldi 

Texti: Silja Björk Björnsdóttir / Myndir: Alda Valentína Rós

Indíana Rós hefur undanfarin ár látið að sér kveða í fjölmiðlum og á samfélagsmiðlum sem kynfræðingur með húmor. Indíana útskrifaðist með M.Ed-gráðu í Human Sexuality frá Widener University í Bandaríkjunum árið 2020 en er auk þess með BSc í sálfræði frá Háskólanum í Reykjavík. Lokaverkefni hennar fjallar um sjálfsfróun kvenna og hefur Indíana allar götur síðan frætt konur, karla og kvár um kynlíf og kynhegðun. Indíana hefur ávallt lagt ríka áherslu á að öllum finnist þau velkomin í fræðsluna og að þeim líði vel á meðan á henni stendur en eins og við vitum getur kynlíf og kynferði verið viðkvæmt málefni fyrir mörg. Áhugi Indíönu á kynfræðinni kviknaði í sálfræðiáfanga við Fjölbrautaskólann í Garðarbæ þegar hún var nýnemi. 

Ég hafði, bara held ég eins og flest, mikinn áhuga á kynlífi og öllu sem því viðkemur en það var ekki fyrr en ég var í þessum áfanga að áhuginn kviknaði fyrir alvöru. Við vorum að gera verkefni og máttum velja umræðuefni og við vinkona mín ákváðum að velja kynlíf og kynraskanir, sem sagt að fjalla um það sem kallast „ósamfélagslega samþykkt kynferðisleg hegðun” eins og að flassa eða önnur hömlulaus hegðun,” segir Indíana. Hún hafi svo verið að ræða verkefnið við mömmu sína þegar peran kviknaði. „Mamma sagði við mig að það væri hægt að fara í skóla og læra akkúrat þetta, benti mér á Siggu Dögg og sagði mér aðeins frá henni og ég fattaði strax bara, já – þessu hef ég mikinn áhuga á!” heldur Indíana áfram. Hún hafi þá sent Siggu Dögg skilaboð og spurt hana spjörunum úr en í dag eru þær nánar vinkonur og samstarfskonur.

Eftir framhaldsskólann fór Indíana í sálfræði við Háskólann í Reykjavík og segist þar hafa náð að tengja áhuga sinn á kynfræði við sálfræðina, enda séu þessar greinar mjög skyldar. Úr varð BS-verkefni Indíönu „The Association of Female Masturbation with Self-Esteem, Body Image and Sexual Satisfaction” eða „Samband sjálfsfróunar kvenna við sjálfstraust, líkamsímynd og kynferðislega ánægju”. Hún segir verkefnið hafa verið mjög áhugavert, enda málefnið henni hugleikið. Hún segir ánægju píkuhafa í kynlífi oft lúta í lægra haldi fyrir ánægju karlanna og fræðslu um sjálfsfróun kvenna sé verulega ábótavant í feðraveldisheimi. Það komi í hennar hlut sem kynfræðings með húmor að hjálpa fólki að finna gleðina, ánægjuna og húmorinn í kynlífi.

This image has an empty alt attribute; its file name is Vidtal-3-929x1024.jpg

Námið opnaði augu hennar fyrri alls konar kynlífi

Að BS-náminu loknu lagði Indíana land undir fót og nam við háskóla í Pennsylvaníu. Þar fór hún í meistaranám í „Human Sexuality” og segir hún það nám hafa verið miðað að kennslufræði varðandi kynfræði. Í upphafi náms hafi nemendur val um það hvort þau vilji heldur einbeita sér að kynfræðslu, kynlífsráðgjöf eða rannsóknum tengdum kynfræði en Indíana hafi ávallt verið mest heilluð af forvarnargildi kynfræðslunnar.

„Þetta nám er í rauninni kennslufræði að kenna kynfræðslu, við vorum að læra að gera námskrá og lexíuplön tengd kynfræðslu en auðvitað var líka farið í almenna kynfræðslu, líffræði, kennslu um kynlíf og unnið að því að opna huga okkar varðandi króka og kima mennskrar kynupplifunnar,” segir Indíana. Hún segir upprætingu fordóma einnig hafa verið stóran hluta af náminu en nemendur hafi þurft að læra að taka á eigin fordómum og læra visst hlutleysi þegar kemur að kynfræðslu.

„Okkur voru sýndir alls konar hlutir, athafnir og myndbönd tengd kynlífi til þess að fá okkur til að endurmeta skoðanir okkar á þeim. Sem dæmi; segjum sem svo að ég hefði komið inn í þetta nám bara algjörlega á móti endaþarmsmökum og finnast þau persónulega ógeðsleg. Þetta er eitthvað sem ég hefði þá þurft að skoða í náminu og reyna að aðgreina hvað það er sem mér persónulega finnst sem manneskju og hvað ég get gert eða leiðbeint með sem kynfræðingur. Það er mjög mikilvægt að skilja sína eigin fordóma eftir við hurðina,” segir Indíana.

Aðspurð um mýtur og fordóma í garð námsins segir hún það oft koma upp að fólk haldi að verklegi parturinn sé kyn ferðislegs eðlis, ekki kennslufræðilegs. „Fólk spyr oft eitthvað á þá leið, „já, er eitthvað verklegt?“ og hlær…heldur að ég sé að stunda kynlíf með eða fyrir framan samnemendur mína en það er að sjálfsögðu ekki þannig. Verklega námið mitt fólst í því að ég kenndi kynfræðslu í Verzló, það var nú ekki meira sexy en það!” segir Indíana og hlær. Þá er önnur spurning sem Indíana fær enn oftar; hvort hún sem kynfræðingur sé þá ekki æðislega góð í rúminu.  „En hvað þýðir það samt? Ég meina, er það ekki bara persónubundið? Ég er kannski ógeðslega góð í rúminu með einhverjum einum eða ömurleg með einhverjum öðrum. Fyrir utan það að þú getur lært bókmenntafræði en það gerir þig ekki sjálfkrafa að æðislegum rithöfundi,” segir Indíana og slær á létta strengi. Það er nefnilega alltaf stutt í hláturinn og gamanið hjá Indíönu þó umræðuefnið sé stundum viðkvæmt.

Umfram allt segir Indíana námið hafa verið fjölbreytt, skemmtilegt og fræðandi. Það hafi hjálpað henni að finna með sjálfri sér hvað henni þótti óþægilegt og stíga inn í með því að skoða forréttindi sín og hvaða áhrif þau hafa á vinnuna hennar. Mest hafi komið henni á óvart hversu mikið hún lærði af samnemendum sínum, enda hafi þau verið mjög ólíkur hópur og komið úr öllum áttum. „Það kom mér á óvart var að við vorum ekki með sama bakgrunn; þetta fólk var ekkert allt að koma úr sömu búbblu og ég. Við komum auðvitað öll inn með ólíka reynslu, bæði hvað varðar menntun okkar og persónulegar upplifanir, og við lærðum svo mikið af því að bara spjalla saman og ræða fordóma okkar, forréttindi, uppeldi og annað og var það í raun- inni alveg ómetanlegur partur af náminu,” segir Indíana og viðurkennir að hún hafi klárlega haft ákveðnar hugmyndir um það hvernig fólk myndi sækjast í þetta nám en það hafi á endanum verið upprætt. Erfiðleikarnir sem staðið hafi frammi fyrir þeim hafi verið mest persónulegs eðlis.

„Þú kemur auðvitað með áföllin þín inn í þetta nám eins og annað. Það gat oft verið erfitt fyrir fólk. Ég man eftir einu atviki þar sem við vorum að læra um píkur og horfðum á myndband þar sem mikið var um píkur og líffræði þeirra og það var mjög „triggerandi” fyrir einn nemandann sem hafði sjálft orðið fyrir kynferðisofbeldi þar sem píkur komu við sögu. Svona gat oft verið flókið að vinna með en þá gerðum við það bara í sameiningu,” segir Indíana en áréttir að ofbeldi sé því miður stór hluti af kynfræðslu og forvörnum eins og við komum inn á seinna í samtalinu.

Hreinskilni, gleði og jákvæðni leiða kynfræðsluna

This image has an empty alt attribute; its file name is Vidtal-1-716x1024.jpg

Að námi loknu ákvað Indíana að snúa aftur heim og einbeita sér enn og aftur að kynfræðslu. Hún hefur mest verið að sinna kynfræðslu fyrir unglinga í skólum og félagsmiðstöðvum en tekur einnig að sér kynfræðslu fyrir fullorðna, kennara, foreldra, gæsa- og steggjahópa eða bara hvern sem er sem langar að fræðast um kynlíf og forvarnir. Þá hefur hún einnig verið stundakennari við háskólana og í framhaldsskólum. Indíana segir kynfræðslu vera sérstaklega mikilvæga því hún sé eina forvörnin sem við eigum gagnvart kynferðislegu ofbeldi. „Í fullkomnum heimi þar sem ofbeldi er ekki til er samt þörf á kynfræðslu. Hún yrði þá bara annars eðlis en við viljum auðvitað að fólk þekki líkama sína og geti talað um kynlíf, fái frelsi til þess að upplifa alls konar og skilja sjálft sig betur,” segir Indíana. „Jú, forvarnarvinkillinn er kannski stærstur og við verðum að geta gripið fólk sem verður fyrir ofbeldi á sama tíma og við verðum að kenna fólki að setja mörk og beita ekki ofbeldi,” leggur hún áherslu á.

Umræðan um ofbeldi er því miður stór hluti af starfi Indíönu, sérstaklega undanfarin ár eftir margar #MeToo-bylgjur og vitundavakningu varðandi mörk, sjúka ást og kynferðislegt ofbeldi. Þó svo hún einbeiti sér að gleði og jákvæðni í sinni fræðslu, því það eitt og sér hefur ríkt forvarnargildi, þá verði því miður alltaf til einstkalingar sem beita ofbeldi eða fara yfir mörk. Það sé starf hennar og annarra forvarnarfulltrúa að fræða alla aldurshópa um mikilvægi hreinskilinna samkipta, samþykkis og virðingar.

Indíana leggur mikla áherslu á kynlífsánægju í sinni fræðslu og gerir það með því að kenna fólki að þekkja líkama sína, þekkja hvað þeim finnist gott og hvetur fólk til að stunda sjálfsfróun til að prófa sig áfram, saman eða í einrúmi. Við stundum kynlíf til að líða vel og hafa gaman og það er mikilvægt að kenna fólki það að það megi fá fullnægingar í kynlífi. „Það er gott að þekkja kynfæri sín og þekkja hvernig þau líta út, hvaða svæði eru næm og hvar við finnum góða snertingu og hvar ekki. Því þegar við lærum að segja hvað okkur finnst gott þá lærum við líka að segja hvað okkur finnst ekki gott og þannig lærum við að setja mörk eiginlega bara ósjálfrátt,” segir Indíana. Þessi vinkill um vellíðan og ánægju í kynlífi eigi það til að gleymast í fyrirferðarmikilli umræðunni um kynferðisofbeldi, klám og neikvæðar hliðar kynlífs.

Indíana segir að kynfræðsla snúist alls ekki bara um að kenna og sýna fólki hvernig eigi að stunda kynlíf í hinum og þessum stellingum. Hún sé enginn tækniþjálfari, heldur frekar komin til þess að normalísera alla líkama, allar kynhneigðir, langanir og þrár. Samskipti, samþykki og virðing fyrir sjálfu sér og öðrum sé í forgrunni fræðslunnar og hún sé alltaf miðuð að hverjum aldurshóp fyrir sig. „Forvarnir eru okkar sterkasta tæki þegar kemur að því og kynfræðsla er fyrst og fremst það, forvarnir og skaðaminnkun. Í umræðunni í kringum börn og unglinga er til dæmis alltaf ofar lega á baugi hvað klám sé hættulegt, hvað það sé hættu legt fyrir börn að sjá eða vita af klámi. Sannleikurinn er samt sá að börn munu sjá klám, stundum löngu áður en það í raun er viðeigandi fyrir þau. Þau eru mjög ung komin með síma, komin með aðgang að netinu og ef ég og þú ákveðum að gúggla „boobs and ass” þá vitum við hvað kemur upp. Sömu niðurstöður koma upp þegar forvitið átta ára barn gúgglar „boobs and ass,” segir Indíana og leggur enn og aftur áherslu á gildi forvarna. „Við komum ekki í veg fyrir það að þau sjái klám en við getum hjálpað þeim að takast á við þá upplifun og tilfinningarnar sem því fylgja,” segir hún. „Alveg eins og við getum kennt þeim að ofurhetjur eru ekki raunverulegar og við eigum ekki að vera að slást við hvert annað eins og í teiknimyndunum. Það er bara plat, þá getum við kennt þeim að það sem við sjáum í klámi er bara plat. Það er „skemmtiefni”, ekki raunveruleikasjónvarp,” segir Indíana. „Það er fullt af fólki sem nýtur þess að horfa á klám og getur greint þarna á milli alveg eins og það er fullt af fólki sem býr til klám sem hefur ánægju af því,” segir Indíana.

Það er hennar skoðun að ekkert vit sé í því að rembast eins og rjúpan við staurinn að banna klám því sú nálgun sé röng. Hún segir forvarnarfulltrúa, kennara og foreldra vel geta tekið umræðuna um klám á heilbrigðan og uppbyggilegan hátt sem miðist að hverjum aldurshóp fyrir sig. Hreinskilni, jákvæðni og gleði eigi að leiða kynfræðsluna fremur en annað.

Samþykki er ekki sjálfgefið en gleðin á að vera það

Indíana hefur séð um kynfræðslu fyrir unglinga síðan árið 2016. Hún segir að þó mikið hafi breyst í samfélaginu þessi sjö ár séu unglingar yfirleitt móttækileg og opin fyrir kynfræðslunni. Mestan mun finni hún á mismunandi skólum og skólastjórnendum en ekki endilega mælanlegan mun á unglingum þá og nú. „Mér finnst oft vera meiri munur eftir því hvar ég er með fræðsluna, ekki endilega hvaða ár er,” segir Indíana. „Það er oft til dæmis þannig að í skólum hérna miðsvæðis eru krakkarnir rosalega opin og líbó en í úthverfunum eða úti á landi geta þau verið lokaðari og kannski ekki jafnupplýst sem er kannski alveg eðlilegt. En svo fer þetta líka mjög eftir kennurum og skólastjórnendum hverju sinni, hverju þau hafa áhuga á og hvort þau séu að taka þessa fræðslu eitthvað áfram og það er auðvitað alltaf breytilegt eftir árum,” bætir hún við.

Aðspurð um nýjustu #MeToo-herferðina sem bar hæst hér á landi fyrir tveimur árum segir Indíana það hafa vissulega borið meira á því meðal unglinga að þau væru hrædd um að vera ranglega sökuð um ofbeldi. Samfélagsumræðan sem skapaðist í kringum fræga, meinta ofbeldismenn sem var „slaufað” í kjölfar ítrekaða ásakana hafi ekki verið til þess fallin að skapa sanngjarnan grundvöll fyrir heilbrigða umræðu um rótgróna ofbeldis- og nauðgunarmenningu. Þessi öfugsnúna nálgun, að þolendur væru öll að ljúga og að „góðir strákar” eins og þessir gætu ekki verið ofbeldismenn, hafi að sjálfsögðu smitast í krakkana. Foreldrar séu einnig meðvitaðari um það að synirnir gætu ranglega verið sakaðir og hræðist það nú frekar en að dæturnar verði fyrir ofbeldi. Þetta segir Indíana vera miður því þetta hvetji baráttuna ekki áfram. „Sannleikurinn er bara sá að ef við ætlum að minnka líkurnar á brotum verðum við að kenna börnum og unglingum, og líka fullorðnu fólki, að nálgast kynlíf á heilbrigðan, jákvæðan hátt og læra hvað er samþykki, hvað ekki og hvar mörkin liggja og auðvitað getur það verið flókið,” segir Indíana, enda séu mannleg samskipti í eðli sínu flókin.

„Það er auðvitað erfitt að setja mörk, læra á sín eigin mörk og það er eitthvað sem er alltaf í flæði,” bendir Indíana á. „Þess vegna verðum við að kenna börnunum réttan orðaforða, hvernig á að nálgast þessa umræðu og gefa þeim verkfærin til þess að vera í eins heilbrigðum samskiptum við hvert annað og mögulegt er því samþykki er ekki sjálfgefið. Samþykki er ekki endilega stöðugt; ég má segja: „Já, ég vil prófa að fá putta í rassinn.“ Og svo má ég segja: „Nei, veistu, mér finnst þetta ekki gott, ég vil þetta ekki.“ Þetta er mergurinn málsins, við verðum að hjálpa þeim að átta sig á að samþykki er ekki bara „já“ eða „nei“,” segir Indíana.

„Bara ef okkur tekst að kenna þeim að þú getur aldrei áætlað samþykki, samtalið þarf að vera stöðugt, og kenna þeim hvernig samþykki lítur út í mismunandi aðstæðum – bara þannig getum við minnkað ofbeldið til muna,” segir Indíana og bendir á að mikilvægt sé að muna að kynferðislegt ofbeldi, og í raun ofbeldi af hvers kyns tagi, sé oftast af hendi þeirra sem við þekkjum hvað best. „Það er í raun frekar skaðleg mýta og staðalímynd að ofbeldisfólk og nauðgarar séu bara einhverjir siðblindir, svartklæddir menn sem bíða í ofvæni í húsasundum eftir fullum stelpum til að ráðast á þegar sannleikurinn er sá að það eru oftast makar, fjölskyldumeðlimir og vinir okkar sem beita okkur ofbeldi. Og ef við viðurkennum það ekki þá getur verið erfitt fyrir okkur að vinna úr ofbeldinu, sem einstaklingar og sem samfélag,” segir Indíana.

Lítið forvarnagildi í slaufunarmenningu og skrímslavæðingu

Enn fremur segir hún „slaufunarmenninguna” og skrímslavæðinguna sem henni fylgir ekki baráttunni endilega til framdráttar. Hún segir að það vanti úrræði fyrir ákveðna hópa eins og fólk í kynlífsvinnu og gerendur svo eitthvað sé nefnt. „Vissulega er ég sammála því að ef þú ert einstaklingur með völd eða ert í fjölmiðlum þá eru það ekki sjálfsögð mannréttindi þín að fá að halda því áfram ef þú hefur verið
sakaður um ofbeldi. Slaufun og útskúfun er samt engin meðferð, það mun ekki endilega koma í veg fyrir það að einhver brjóti aftur af sér. Þó svo Siggi sé ekki lengur á skjánum og farinn að vinna í matvöruverslun þá er ekki þar með sagt að hann muni ekki aftur beita ofbeldi. Við verðum að grípa þessa gerendur eins og við grípum þolendur og vinna markvisst að því að uppræta nauðgunar- og ofbeldismenninguna sem er raunverulega vandamálið hér,” segir Indíana ábúðarfull. „Það er nú bara þannig að fæstir eru ranglega sakaðir. Það er oftast einhver fótur fyrir slíkum ásökunum, sama hvað okkur kann að finnast persónulega um gerandann. Góðir strákar og góðar stelpur geta líka beitt ofbeldi. Einhver sem er sjarmerandi og sætur í fjölmiðlum getur beitt ofbeldi. Einhver sem hefur alltaf verið almennilegur við þig getur verið vondur við einhvern annan – það er bara staðreynd. En þessi slaufun og skrímslavæðing leiðir því miður af sér meiri reiði, meiri útskúfun og eingangrun og það er mjög hættulegt, bæði fyrir gerandann og fyrir samfélagið því þá er ekki verið að ráðast á rót vandans, það er ekki verið að aðstoða gerandann að hætta ofbeldinu heldur bara halda vítahringnum gangandi,” segir Indíana. Hún segir það vissulega skiljanlegar áhyggjur unglinga og fólks að vera ranglega sakað eða að einhver gömul atvik dúkki upp eftir mörg ár en ef þessari mýtu sé haldið á lífi um að þolendur séu margir en gerendur engir séum við í vondum málum. „Það þarf ekki að hafa neinar áhyggjur af því að vera ranglega sakaður um ofbeldi ef við vitum hvernig samþykki lítur út,” eru orðin sem slá botninn í þessa tunnu.

Samfélagsmiðlar eru stór hluti af því hvernig við sjáum heiminn í kringum okkur og segir Indíana það tengjast sinni vinnu þegar kemur að forvörnum. Unglingar séu enn meira á samfélagsmiðlum en áður og þá sé innkoma TikTok sérstaklega varhugaverð. Nú sé kominn enn einn nýr miðillinn sem foreldrar kannast kannski ekki við, ólust ekki sjálf upp við, nota ekki og skilja kannski ekki hvernig virkar. Samfélagsmiðillinn hefur verið fyrirferðarmikill í deiglunni undan-farin misseri, sérstaklega eftir Covid, þegar notkun á TikTok rauk upp úr öllu valdi. Í dag sé algengara að unglingar leiti sér upplýsinga á TikTok frekar en að nota Google, og verði kennarar og foreldrar að vera meðvitaðir um hvað því fylgir. Algrímið, eða „algóritminn” á TikTok, er ólíkt því sem við kunnum að venjast og er mjög einstaklingsmiðað.„Það er þessi blessaði algóritmi sem flækir aðkomu TikTok ótrúlega mikið. Það sem ég sé á TikTok er algjörlega frábrugðið því sem þú sérð því TikTok sýnir þér bara meira og meira af því sem þú vilt sjá. Það er svo auðvelt fyrir þig sem notanda að festast inni í einhverjum bergmálshelli. Eins og fyrir mitt leyti sé ég auðvitað mikið af kynfræðingum, fræðsluefni og forvörnum af því að það er efnið sem ég sæki mest í að skoða og þá er mjög auðvelt fyrir mig að hugsa bara: „Vá, TikTok er æðislegt það er svo mikið af góðri fræðslu þar.“ En ef notandi er mikið að skoða hinseginhatur, kvenfyrirlitningu og annað – þá birtist bara meira af því og það er það sem er skaðlegast við þennan tiltekna miðil,” segir Indíana. Hún segir þetta verulega hættulegt og það þurfi að fylgjast grannt með samfélagsmiðlanotkun barna sinna, alveg frá fyrstu tíð.

„Það verður auðvitað að kenna þeim miðlalæsi, fjölmiðlalæsi og gagnrýna hugsun. Kenna þeim að lesa á milli línanna og vita hvað er satt og hvað er logið,” segir Indíana. Að því leytinu til sé erfitt fyrir fræðara að tala um TikTok því efnið er svo bundið algríminu. Það sé annað ef unglingarnir séu forvitnir um klám og klámsíður því það sé hægt að opna PornHub og þau sjá öll það sama. „En það er í raun engin leið fyrir mig að vita hvað er vinsælt á TikTok og hvað ekki því það er svo mismunandi eftir hverjum og einum notanda, hvaða efni birtist, og það flækir forvarnirnar,” segir hún. Þetta sé verðugt verkefni sem verði að ráðast í strax með hjálp skólastjórnenda, forvarnarfulltrúa og félagsmiðstöðva.

Kynfræðsla á að vera skemmtileg, ekki hræðsluáróður

Gagnrýnin á störf hennar sem kynfræðings er sem betur fer ekki mikil að sögn Indíönu og liggi einhver gagnrýni fyrir þá berist hún ekki beint á borð til hennar. Umfram allt segir Indíana unglingana, kennara og foreldra vera ánægða með fræðsluna og að hún sé að skila sér. Foreldrar séu kannski fyrst og fremst hikandi þegar kemur að kynfræðslu vegna þess að þau séu óviss um hvað sé verið að kenna, óviss hvaða spurningar gætu fylgt með heim og hvernig þau geti tekið boltann heima við. Þá sé það skoðun sumra foreldra að kynfræðsla eigi ekki að vera á vegum skólans heldur heimilisins en Indíana segir það í besta falli óábyrgt. Hér á landi ríki skólaskylda og með henni sé hægt að tryggja markvissa fræðslu, eitthvað sem ekki er hægt að tryggja heima fyrir. „Það eru ekkert allir foreldrar í stakk búin að taka þessa umræðu heima, skiljanlega. Svo er auðvitað fullt sem krakkarnir vilja bara alls ekkert ræða við foreldra sína, sem þau vilja kannski ræða við mig eða í vernduðu umhverfi í skólanum. Það er auðvitað bara eðlilegt,” segir Indíana.

„Sum okkar eru í þeirri stöðu að geta rætt svona við foreldra okkar, nema að mamma þín sé kynfræðingur og þá myndi ég alltaf segja að það væri best að fagmanneskja myndi svara spurningunum frá krökkunum fræðslunnar vegna,” segir hún. Indíana segir það mikil for réttindi að fá að sjá og heyra að fræðslan sé að skila sér út í samfélagið.  „Mér líður þannig að ef ég veit að ég hef hjálpað einum unglingi þá hef ég gert eitthvað gott. Þá er þessi vinna að skila sér,” segir Indíana auðmjúk. „Ég fékk einu sinni að heyra það frá foreldri sem ég kannast við að unglingurinn þeirra hafi náð að setja mörk og standa við þau þegar kom að fyrstu kynlífsreynslunni og foreldrið sagði við mig: „Veistu Indíana, ég bara heyrði röddina þína í gengum barnið og mér þótti það svo sterkt og flott. Ég var svo ánægt að sjá og heyra unglinginn setja þesis mörk og standa við það.” Og auðvitað gleður það mig að heyra að fræðslan sé að skila sér út í samfélagið,” bætir hún við brosandi.

Sjálf segir Indíana mikið hafa breyst síðan hún var sjálf í skóla. Þúsaldarbörnin geti flest verið sammála um það að kynfræðslu hafi verið ábótavant á þeirra grunnskólagöngu og hún hafi í besta falli verið mjög klínísk og einhæf. Þetta sé ekki raunin í dag og því beri að fagna. Hún bendir þó á að þó að kynfræðsla sé partur af aðalnámskrá vanti sannarlega að skilgreina hana betur, hvernig henni sé háttað og hver eigi að sjá um hana. „Ég man bara hvað við lærðum mikið um kynsjúkdóma sérstaklega, um einhverjar bakteríur og veirur, en ekki hvað við ættum að gera, hvert við ættum að leita ef við myndum smitast af kynsjúkdómum. Það var svo mikill hræðsluáróður sem er engum til framdráttar. Það er nú bara þannig að við erum flest að fara að stunda kynlíf af einhverju tagi, ég meina framtíð mannkyns veltur á því að við fjölgum okkur með kynlífi, svo auðvitað verður að kenna okkur eitthvað um það!” segir Indíana hlæjandi. Hún minnist þess að hafa lært um kynþroskaskeiðið, holdris og blæðingar í líffræði en ekkert um hinseginleika, samþykki, mörk eða samskipti. „Sem er svo galið því í fyrsta lagi var örugglega einhver af okkur í grunnskólanum á Grundarfirði hinsegin. En þetta fólk fékk ekki fræðslu, fékk ekki tækifæri til að spegla sig í öðrum eða skilja tilfinningar sínar sem gerir það að verkum að það segir ekki frá sinni kynhneigð fyrr en seint og síðar meir eða kannski aldrei,” segir Indíana. Sjálf leggur hún áherslu á að vera með aðgengilega og hinseginvæna fræðslu því fjölbreytileikanum beri að fagna.

„Fyrir mér er það bara það eina skynsama í stöðunni því fólk er alls konar og það er hlutverk okkar sem fullorðinna einstaklinga að kenna unglingum að við erum alls konar. Heimurinn er alls konar og það er svo mikilvægt að finna sinn hóp og upplifa sig samþykkt,” segir Indíana og bætir við að það sé mikill misskilningur að kynlíf sé bara typpi að fara inn í píku og oft komi hinseginleikinn sér vel þegar fræða á um fjölbreytt kynlíf, hvort sem fólk skilgreini sig hinsegin eða ekki.„Hinsegin kynlíf er auðvitað allt öðruvísi og aðrir hlutir sem þarf að pæla í, til dæmis hverning kynsjúkdómavarnir líta út fyrir hinsegin fólk eða transfólk og gefur líka öllum sem sjá fræðsluna hugmynd um það hvernig kynlíf getur verið án þess að þurfa endilega að setja typpi inn í píku. Það getur skipt sköpum fyrir börn og unglinga að læra um hinseginleika, fjölbreytileika, því þannig lærum við umburðarlyndi og virðingu og vera ekki hrædd við það sem við þekkjum ekki. Þannig geta þau líka lært að prófa sig áfram, strákur getur verið gagnkynheigður en lærir um endaþarmsörvun í fræðslunni og fattar þá kannski að það er eitthvað sem hann gæti fílað,” segir Indíana og bætir svo við að kynhegðun sé auðvitað ekki það sama og kynhneigð og það sé mikilvægt fyrir fólk að skilja þar á milli.

Lærdómurinn um kynlíf heldur áfram út í lífið

En kynfræðslunni lýkur ekki eftir grunnskóla. Indíana segir að svo lengi sem við lifum og séum að stunda kynlíf sé alltaf hægt að fræðast meira. Kynfræðsla geti og eigi að byrja á leikskólum og halda áfram út lífið.  „Við getum byrjað á því að kenna börnum um líkaman sína og við getum meira að segja mjög snemma farið að kenna þeim samþykki. Kenna þeim að þau megi ráða hver kyssir þau og hvort þau vilji knúsa okkur eða ekki, að þau ráði yfir sér og líkömum sínum sjálf. Við getum líka kennt þeim réttan orðaforða og bara notað orð eins og „typpi” og „píka” í stað þess að búa til einhver önnur orð og þar af leiðandi normalísera þessa orðanotkun í stað þess að gera líkama þeirra bannhelga,” segir Indíana en sjálf segir hún foreldrahlutverkið kenna sér mikið á hverjum degi. Drengirnir hennar séu duglegir að spyrja og hún verði því að vera dugleg að svara. „Svo kemur snemmkynþroskinn og síðar kynþroskaskeiðið, allar þessar breytingar, sjálfsfróun, kynlíf í fyrsta skiptið og allt það en þetta heldur endalaust áfram! Við erum alltaf að læra inn á mörkin okkar og kynhegðun okkar, hvernig hún breytist með tímanum og aldrinum. Við getum frætt fólk um þunganir, þungunarrof, meðgöngu og kynlíf á viðeigandi stigum lífsins. Kynlíf eftir fæðingu, kynlíf eftir veikindi, kynlíf eftir makamissi og svo mætti lengi telja. Breytingarskeiðið, leggangaþurrk og hvernig er að stunda kynlíf sem eldri borgari, kynsjúkdómavarnir á efri árum – allt þetta er partur af lífinu og kynfræðslunni,” segir Indíana.

Umfram allt segir Indíana kynfræðslu vera valdeflandi. Kynfræðsla sé mikilvægt tól til forvarna, fræðslu og upprætingu fordóma og ofbeldis og hún sé hvergi hætt að láta gott af sér leiða. „Það er mjög valdeflandi að þekkja líkama sinn, þekkja hvað er að gerast og hvað er eðlilegt. Það er valdeflandi fyrir hinseginfólk að þekkja sjálft sig og alls konar hugtök til að geta fundið sinn hóp og það er mjög valdeflandi að vita að þú megir og eigir að stunda sjálfsfróun, elska sjálft þig og líkama þinn, fá fullnægingar og lifa góðu og innihaldsríku kynlífi sem veitir okkur svo mikla gleði út lífið,” segir Indíana að lokum.

 

Á vef Birtíngs er hægt að finna fjölbreytta og áhugaverða pistla og viðtöl. Skoðið úrvalið á www.birtingur.is

Hæ!

Takk fyrir heimsóknina á sykur.is. Okkur þætti það alls ekki leiðinlegt ef þú myndir fylgja okkur á Facebook. Við erum ekki óþolandi þar. Í alvöru!