KVENNABLAÐIÐ

Satt og ósagt: Smásaga

Þarna stóð hann, á sólríkum degi í miðju hóps af hoppandi fólki, öskrandi það sem hljómsveitin var að spila tugi metrum frá. Hann hafði ekki komið á útihátíð í áraraðir, hvað þá innanbæjar eða upplifað svo mikið sem útitónleika á menningarnótt. Seinustu árin hjá honum voru búin að vera annrík og óskaplega ófélagslynd. Að eigin sögn var hann að jafna sig á léttum vinnu-alkohólisma og kaus að njóta betur litlu mómentanna í lífinu sem flugu framhjá honum á árunum sem brunnu.

Tímasetningin hans var góð. Þetta var á bjartasta tíma sumars og hafði í þokkabót ekki rignt stanslaust í bestu mánuðunum fram að þessu. Aðlögunin hans var eitthvað erfið. Á meðan 98% af fólkinu í kringum hann voru og skemmtu sér eins og fullir bavíanar stóð hann kyrr, sötrandi á bjór sem hann hélt fast utan um. Hann langaði að finna fyrir sama stuði en orkan var ekki alveg á sínum stað, að frátöldum bömmernum að vinir hans tvístruðust. Tilgangur þessarar var til að sameina betur þéttan vinahóp sem sjaldan náði að hittast, allt strákar – sem kaldhæðnislega hlupu hver í sína átt, allir á veiðum eftir stúlkum skömmu eftir að bjórdós númer tvö var kramin.
Hann nennti engu slíku, enda búinn að fá sinn skerf af rómantík, samböndum eða skyndikynnum á þeim liðnu árum þar sem raunverulega gafst lítill tími fyrir slíkt. Hann vissi fullvel um sína galla og taldi sig ekkert stoltan af fjarlægðinni sem hann hafði sýnt sínum fyrrverandi, en á móti var hann býsna kröfuharður á kemistríu milli síns og kvenkynsins.

Á móti var hann reglulega frústreraður yfir þeim hæfileika sem hann bjó yfir að velja stelpur sem gætu ekki verið ólíkari honum. Ein vildi opið samband á meðan sú á undan var komin á fast með öðrum gæja áður en hann frétti af því. Hann taldi sig ekki mjög stoltan af því heldur hversu „mónó“ týpa hann var. Ef einhver manneskja gjörsamlega dáleiddi hann, var ekki til önnur í heiminum fyrir honum. Vandinn, eins og hann taldi, við deitheiminn og samfélagslegar kröfur til pörunar er að það getur stundum tekið tíma að fyllilega kynnast manneskjunni og fatta hvort kemistrían eigi sér einhverja framtíð eða ekki. Stundum sjáum við það strax. Stundum er hægt að viðhalda sambandi þar sem umhyggjan þróast með reglulegu millibili og aðilarnir hrífast af
hvort öðru, upp á nýtt nánast, oft. En síðan eru auðvitað hin tilfellin þar sem fólk leyfir sér í áraraðir að hanga á dauðum samböndum. Hann hafði laðast að mörgum en aldrei átt kærustu sem fúnkeraði eins og alvöru vinur. Hans vandi. Lúxusvandi.

„Vonaðu það besta, búðu þig undir það versta,“ var hugarfarið hans þessa dagana, hvort sem það varðaði kvenfólk eða nýja sósíal-sumarið sem hann var að reyna að njóta. Veröldin hafði algjörlega opnast á ný fyrir honum þegar hann sagði upp vinnu sem hann var orðinn háður, en var farinn að mergsjúga allt líf úr honum. Nú var hann kominn í betra djobb, með heilmikinn frítíma sem hann var orðinn óvanur og leit því meira á þetta sem hálfgert tómarúm – ekki það að hann vissi hvað hann vildi. Útihátíðin var hins vegar einmitt það sem hann þurfti á að halda og neitaði hann því ekkert að það væri pínu gaman að labba gegnum stóran fjölda, rekast á
kunningja og dilla hausnum létt þegar hann rataði á lag eða hljómsveit sem hann dýrkaði. „Litlu hlutirnir, manstu!“ hugsaði hann með sjálfum sér, hugsandi um bæði bjórinn og tilhugsunina um að hann gat staðið úti á bolnum að kvöldi til. Litlu hlutirnir.

Hópurinn var farinn að þéttast að, þannig að hann tróð sig í gegnum hann, gegn straumi til að standa aftar áður en hann kýldi andlitið sitt með bjórdósinni. „Allt annað,“ hugsaði hann, með fínasta útsýni nú yfir allt og veltandi fyrir sér hvar væri styst í næsta bar. Hann byrjaði að leita í kringum sig eins og manísk öryggismyndavél. Rétt áður en augun stöldruðu við að næsta bjórtjaldi snarstoppaði hann – og hitti á sjón sem olli því að dósin datt samstundis í grasið. Meðalsíða hárið, nýju gleraugun og stinni rassinn var næstum búinn að villa fyrir honum en
niðurstaðan var ótvíræð: „Þetta er hún!“ hugsaði hann, þó hann gæti hafa sagt þetta upphátt líka, en enginn heyrði hvort sem er.

Hún leit næstum því, já, næstum því, alveg eins út og þegar hann sá hana síðast – sem var fyrir mörgum árum, þegar þau voru hér um bil óaðskiljanleg. Á lítilli eyju þar sem fólk rekst stöðugt á óvini, fyrrverandi, gamla kunningja, ættingja, þótti honum skrítið að leiðir þeirra leiddu ekki oftar saman áður, þó það væri ekki nema bara í röð í Bónus. Í retróspekti var þetta besta stúlka í heimi sem hann þekkti. Þau byrjuðu aldrei saman en voru samstarfsfélagar, nágrannar, félagar og mögulegir sálufélagar þegar kom að poppkúltúr og losta fyrir hefndarklámssögum.

Þegar þau kynntust hvort öðru voru þau bæði á föstu og mynduðu eins konar brómantík, ekki síður þegar það kom að trúnóspjalli um hnökra, hæðir og líkamlegar athafnir sambanda. Það sem kom honum óneitanlega mest á óvart í þessu augnabliki á útihátíðinni þegar tíminn stöðvaðist – og hún sást þarna dansandi – hún var ein! Eftir því sem hann best vissi var hún frátekin. Þegar manneskja stafar ekki allt einkalíf sitt út á Facebook er mjög erfitt að hafa svona hluti á hreinu, sérstaklega þegar hún notar ekki samfélagsmiðla mikið til að byrja með. Í þessar tíu sekúndur – sem liðu eins og allavega fjörtíu – sem hann var búinn að stara á hana milli fjöldans byrjaði heilinn að púsla saman minningarbroti frá seinasta hittingi þeirra.

Það var á nýársdegi… fimm og hálfu ári áður.Þau voru búin að djúsa vel í sitthvoru áramótapartíinu nóttina áður. Hann var nýhættur með þáverandi kærustu sinni en hafði átt óvenju fínan bata. Nýja árið fór ágætlega af stað hjá honum, en ekki bestu vinkonu hans, sem átti það til að hringja í hann þegar hlutir fóru í háaloft hjá hennar maka – og áður var það oft öfugt. Í bullandi þynnku á skítköldum nýársdegi er hann vakinn kl. 17:50 við símtal frá henni.
„Hversu mikið, á skalanum 1 til 10?“ heyrist í henni á hinni línunni.
„Hmm?“ galar hann.
– „Hversu þunnur?“
– „…Svona 6,5. Nú? Ætlaðirðu að splæsa á mig mat ef talan væri hærri?“
– „Ekki langt frá því. Þynnkumatshugmynd er klárlega á borðinu, og ég skal alveg borga gegn því að þú þolir
væga útrás frá mér.“
– „Var það slæmt partí eða vesen á karldýrinu?“
– „Bæði, plús glatað skaup sem þarf endilega að ræða. Til?“
– „Ég banka eftir tíu.“
Á innan við átta mínútum tókst honum að hlaupa í snögga sturtu og leita að vettlingum sínum áður en hann hóf rölt sitt yfir til hennar, sem var bara í næsta hverfi. Hvorugt þeirra átti bíl svo þau áttu það mikið til að rölta saman um nágrennið, sérstaklega á svona stundum. Að jafnaði fór svona 20% af tímanum í spjall um hitt kynið og restin í líðu, vinnu, markmið, pælingar og allt milli jarðar og himins – nema fótbolta.

Þessum göngutúrum fjölgaði mikið eftir að hann þurfti að létta af sér ýmsu með sitt sambandsslit. Eitthvað var svo hvetjandi og heillandi við það hvernig hún gat verið beinskeytt og hreinskiliin í þessum umræðum, fannst honum. Hún var svo góð í því að draga huga hans að framtíðinni, litlum viðhorfum og stoppa hann af þegar svartsýni hans var komin á vælustig. Hann var sömuleiðis sterkur í því að hjálpa henni kryfja ákveðin furðulegheit hjá hennar núverandi. Þeirra samband var búið að vera á hálum ís í nokkra mánuði og þau voru búin að vera saman í nokkur ár fram að þessu. Hún fór ekki alltaf út í mestu smáatriði með sínar tilfinningar því hún vissi að hann, sinn besti vinur, þoldi ekki kærasta sinn og hafði aldrei gert.
„Af hverju finnst þér hann svona leiðinlegur?“ spurði hún stuttu eftir að labbið hófst, áður en nokkur áfangastaður var ræddur. Hún sá að vinur sinn var eitthvað grettandi sig eftir spurninguna.

„Hversu oft ætlar hún að spyrja mig að þessu?“ hugsaði hann með sér, „Ég hata að dissa hann svona beint út þegar hún er svona brotin, en fokkit…“
Hann ræskir sig aðeins og svarar loksins:
„Þú meinar semsagt fyrir utan eyðsluna, iðjuleysið, lélega prumphúmorinn og tilætlunarsemina? Tja, hann hefur leiðinlegt skap og ég meika ekki týpur sem elska að fokka í öllum öðrum en taka ekki sjálfar grínið. Það mun vera fyrsta bindið á mínu svari.“
Augnaráð hennar sagði honum að þetta væri eitt af þeim skiptum þar sem neikvæðni hans gæti verið réttlætanleg, en hún reyndi að fela það. „Ég er að reyna að telja upp einhver skipti í huganum þar sem þú gafst honum sénsa,“ sagði hún.
– „Tólf!“ greip hann fram í. „Að minnsta kosti það. Fékk bara kalda öxl á móti. Gerðist oft í partíum þegar þú varst einhvers staðar annars staðar. Það er eins og hann sé með ofnæmi fyrir því að vera í kringum þig þegar annað fólk er.“
– „Ég veit. Þetta kom einmitt upp í gær, og virtist lítið bögga hann.“
„Dö,“ sagði hann. „Ég skil það svo sem að vilja blanda geði við annað fólk í teitum en þessi gæi lætur eins og hann sé einhleypur.“
„Stundum finnst mér eins og hann óski þess,“ bætti hún við. „… eða vilji opið samband.“
– „Hefur það komið upp?“
– „Nokkrum sinnum, já já, ég skýt það alltaf niður, enda ég eitthvað svo hlægilega gamaldags með svona.“
– „Kannski heldur hann bara að völlurinn sé grænni annars staðar en þorir ekki að sleppa þér ef hann skildi óvart bara vaða í einhverja skessu.“
„Mér finnst reyndar ótrúleg tilhugsun að hann hafi orkuna í slíkt miðað við letina hans í rúminu undanfarið.“
– „Bíddu, ekki segja mér að honum hafi ekki einu sinni tekist að hefja nýja árið með þér með propper hvelli?“
– „Ertu að djóka? Hann var löngu dauður í sófanum áður en gafst pláss í mannfjöldanum fyrir svoleiðis. Varla varst þú mikið heppnari?“
– „Ne,“ svaraði hann. „Hefði ég fengið mér annan Screwdriver hefði ég sjálfsagt bara óvart vælt í fyrrverandi og
betlað eftir því, en neibb.“
– „Grjóthart…“
– „Já, það var það. Það er gallinn.“
Eftir að hafa líkt saman kynlífi við flugelda í góða mínútu stakk hann upp á því að taka krók, bíða með matinn og labba meðfram tjörninni.
Hún sendir strax frá sér undarlegan svip áður en hann grípur inn: „…þú ert að fara að segja mér allt frá því hvernig þitt gamlárskvöld var, byrjum frá klukkan 6.“

Göngutúrinn var kominn í góðan klukkutíma af hringferðum þegar umræður um skaupið voru rétt að ljúka, eftir ítarlegar samræður um nótt þeirra beggja. Kuldinn var farinn að skella meira á. Hann var aðeins farinn að nötra enda verr klæddur en hún. Henni þótti það alltaf frekar skondið, verandi jákvæðari og bjartari manneskjan af þeim tveimur, hversu mikið hún elskaði kuldann og skammdegið á meðan hann þoldi ekki Ísland nema á sumrin í nokkrar vikur max. Þetta minnti hana á það sem henni finnst þurfa að einkenna öll virk og heilbrigð sambönd; tenging, dýnamík, málamiðlanir – hvort sem aðilarnir eru líkir eða ekki. Ef ólíkir munar allt um að báðir sýni lífi hvors annars skilning, stuðning og áhuga.
„Margir rugla saman og halda að það að geta hangið saman og finnast hvort annað sætt sé það sama og að eiga kemistríu,“ sagði hún. Þessu bjóst hann ekki við að heyra. Þetta stakk hann smá.

Með hverri tifandi mínútu síðan þau hittust fyrst þetta kvöld hafði hann smám saman byggt upp leyndarmál sem hann ætlaði ekki að kjafta frá. Hann var ekki alveg viss en þessi seinasta setning rammaði það inn fyrir honum formlega að hann langaði til að grípa utan um hana og gefa henni feitan bíómyndakoss. En tvennt var það sem stoppaði hann: A) hún er á föstu og má helst ekki við fleiri tilfinningaflækjum núna. B) hann var ekki viss um hvort þessi tilfinningasprengja væri bara ómeðvituð leit að „ríbándi“ og náttúruleg eftirköst þess að vera nýlega kominn á markað.

Hann var ekki almennilega viss um þessar tilfinningar fyrr en einhverjum vikum seinna, því meira og oftar sem hann hugsaði um akkúrat þetta kvöld. Eftir að hún hellti sér aðeins út um hvernig framtíð hennar mun spilast út; með námið sitt, atvinnumöguleika, umhverfismál, staða með núverandi, pólitíska pirringa. Eins mikið og hann var að glíma við eigin impúlsa náði hann samt að halda fókus af áhuga. Eftir að útrásin kólnaði niður snérust umræðurnar að vinnuári þeirra framundan saman.

Þarna tók hann eftir að hún var farinn að brosa meira en hún hafði gert fram að þessu. Hún djókaði meira að segja með það að hún hafi ekki verið svona hress „allt árið“ nýja. Mómentið var hins vegar brotið upp með símhringingu, hennar megin. Hún svarar og heyrir hann strax baulið frá kærasta hennar, sem hún gerði hingað til ráð fyrir að væri stífþunnur og hálfsofandi í sófanum heima, en nei – hann var kominn í bílinn og krafðist þess að pikka hana upp. Hún skellir á eftir hálfa mínútna samtal og dæsir sterkt en biðst fyrir því að þurfa að yfirgefa.
„Langar þig til að fara?“ spyr hann, nánast hrökkvandi í mútur eftir fyrsta atkvæði.
– „Ég eiginlega verð, en mig langar líka til þess að tala við hann.“
– „Eru það þá úrslitakostir eða single-lífið?“
– „Erfitt að segja. Ég vil bara fá suma hluti á hreint frá honum. Annaðhvort er hann ólmur í að biðjast fyrirgefningar eða vera með fleiri stæla.“

Í dimmunni sem þau tvö stóðu í við andartjörnina í Kópavoginum var mjög auðvelt að sjá bíl nálgast. Ljósin hjá bíl kæró fóru hægt og rólega að detta í augsýn. Hún grípur fast utan um besta vin sinn, þakkar fyrir hlustið og sorrýar innilega að hafa beilað á matnum. Rétt áður en þau slíta faðmlaginu stangast nef þeirra á í nokkur sekúndubrot, bæði augun lokast um sömu stund. Hann rykkir hausnum frá og reynir að koma orðum út úr sér.
„Það er enginn í heiminum svalari en þú,“ segir hann. „Ég hata það að hann sjái það ekki.“

Á móti gefur hún frá sér hálft bros sem hann nær ekki að lesa út úr. Smátt og smátt bakkar hún frá, veifar og hleypur að ljósum bílsins. Það sem hann hafði ekki hugmynd um á þessari stundu sem hann horfði á eftir henni, var að allt ætti eftir að breytast, ekki nema viku seinna. Henni er boðin önnur vinna, sem hún á vont með að hafna, samskipti dvínuðu nokkru eftir það. „Var þetta út af stöffinu sem ég sagði, hvernig ég sagði það?“ hugsaði hann oft með sér. „Sat þetta svona illa í henni?“

Mánuðir liðu, það kom einstaka sinnum fyrir að þau spjölluðu létt gegnum netið, en ekki eins og það var. Tilfinningar hans höfðu magnast á þessum tíma, aldrei þorði hann að segja þær upphátt – fyrst og fremst því hún var enn með skrattans gæjanum. Kannski var hún þegar búin að fatta þær og það var eiginlega verra. En öll samskipti voru endanlega sett á stopp í kringum næstu jól, þegar hún og „fíflið“ ákváðu að trúlofa sig. Hann sá það tilkynnt á Facebook, þegar hann henti í erfiðasta „like“ sem hann gat munað eftir. Hvernig svona náin, áralöng vinátta gat fjarað út sísvona var honum alger ráðgáta. Hann hélt einmitt að hann hefði lært á því, eftir tvö feiluð sambönd, að tengingaleysi og hræðslan við hreinskilni getur verið einn versti óvinur mannsins. „Hefði ég átt að vera opnari við hana eða bara grafa þennan fiðring og styðja vinkonu mína betur?“ íhugaði hann margsinnis.

Þetta var seinasta minningarbrotið sem flaug gegnum hausinn á honum þegar þessi umrædda vinkona hans birtist fyrir honum á útihátíðinni, öllum þessum árum síðar. Lagið sem hún dansaði við var komið langt á leið og ákvað hann loksins að stíga fram nær og nær henni. Ekki var það auðvelt, því fjöldinn virtist stækka og þrengjast að með hverju versi. Eitthvað annað, mun flottara númer var víst að fara að byrja. „Fokk, hvert fór hún?“ hugsaði hann, tapandi henni í sjónlínunni. „Bingó!“ þarna var hún. Eftir nokkra metra í viðbót fannst honum í lagi að kalla nafnið hennar út án þess að líta út fyrir að vera despó. Þá kom veggurinn; Davíð frændi – upp úr þurru, grípur í hann og gargar með munn fullan af baggi:
„Blessar, mar!“ Allt var stopp, vinkonan aftur komin úr augsýn og hann reyndi að forðast smátjattið með uppréttan vísifingur og gargandi „Ekki núna!“ af mikilli eigingirni, en Davíð frændi var hvort sem er hundleiðinlegur náungi.

En þessi átta sekúndna töf þýddi það að hann týndi henni aftur. Hann pikkar upp hraðann, treður sér nær sviðinu, leitar í allar áttir – og það er að minnsta kosti hálf mínúta eftir af laginu. Ekkert.
Klukkutími leið, hann gat ekki hætt að hugsa um annað, ásamt spurningunni „Hvers vegna þurfti hún í ósköpunum að sverja sig af samfélagsmiðlum öll þessi seinustu ár?“ Það var lítil virkni á Facebook-síðu hennar og hvorki nýjar myndir þar né á Instagramminu hennar. Honum leið eins og versta eltihrelli núna, sitjandi einsamall á bekk, skoðandi prófílinn hennar í símanum.
Rétt áður en hann nær að loka vafranum og íhugar að skoða stöðuna á Smára, félaga sínum, mætir honum skuggi og heyrast orðin: „Ég hata þig,“ áður en hann lítur upp og hrekkur smávegis við. Engin spurning, þetta var hennar rödd. Þarna stóð hún!

Hann sprettur á lappir og sér um leið kunnuglegan glampa í augum hennar. „Ég saknaði þín líka,“ segir hann. „Alveg frekar mikið“
Hann náði varla að íhuga að spyrja „Hvar er unnustinn?“ áður en hún stekkur með opna arma utan um hann og grípur þétt. Hann tekur á móti og telur sig eiga glugga til þess að spyrja eitt af tvennu:
A) Þú hefur ekki minnstu hugmynd um hvað mér hefur alltaf þótt vænt um þig. Ég vissi það varla sjálfur,“ eða:
B) „Sorrý hvað ég var fjarlægur. Þú ert mér algjörlega einstök manneskja.“
Á endanum hugsaði hann bara „…Eh…“ og smellir einum ástríðufullum kossi á munn hennar. Fór þá heilinn hans á milljón. „Úps!“ þangað til að hann sá að hún tók strax á móti.
Eftir að hafa læst og nuddað vörum saman í smátíma laumar hún inn, „Fyrirgefðu hvað ég var mikill auli, eða er.“
– „Erum við ekki öll smá aular í okkur?“ svarar hann. „Ég veit að ég get verið óvenjulega mikill auli, en ég reyni með hverjum degi að vera aðeins minna slíkur.“
– „Þér er velkomið að vera aulinn minn.“
– „Díll.“

Hann tekur um hönd hennar, gefur henni mjúkan koss og halda þau af stað á rölt innan um fjöldann og tónleikasvæðin. Út restina af kvöldinu átti hann eftir að kynnast ýmsu um það sem þróaðist í hennar lífi á þessum týndu árum; laumutilfinningarnar sem hún hafði til hans, lægðirnar með fyrrverandi, stuttlífa trúlofun þeirra, námið sem hún kláraði, borgirnar sem hún heimsótti, símtölin sem hún var næstum því búin að hringja.

„Hvað í helvítinu verður úr þessu?“ spyr hann sig, en þessi tilfinning og skítaglott sem hann hafði límt á sér þetta kvöld sýndi bara fram á eitt: að hann hafði lengi vonast eftir að geta sett sig í aðstöðu til þess að geta spurt sig þessa spurningu.

Seinna meir eignuðust þau tvær yndislegar stúlkur.

 

Höfundur:
Tómas Aquinas Rizzo

Hæ!

Takk fyrir heimsóknina á sykur.is. Okkur þætti það alls ekki leiðinlegt ef þú myndir fylgja okkur á Facebook. Við erum ekki óþolandi þar. Í alvöru!