Íþróttafréttakonan Kristjana Arnarsdóttir eignaðist sitt fyrsta barn 30. júní síðastliðinn. Hún átti „ævintýralega meðgöngu“ eins og hún orðar það sjálf og fæðingin var líka dálítið skrautleg, að minnsta kosti í aðdragandanum, en allt fór vel að lokum og heilbrigð stúlka kom í heiminn. Sambýlismaður og unnusti Kristjönu, Haraldur Franklín Magnús, er atvinnumaður í golfi og litlu mátti muna að hann næði ekki heim í tæka tíð fyrir fæðingu dótturinnar þar sem hann var að keppa í úrtökumóti fyrir Opna breska meistaramótið. Dóttirin, Rósa Björk, hefur aðeins látið foreldra sína hafa fyrir sér og öll gömlu, góðu húsráðin á borð við að vera með ryksuguna í gangi og rennandi vatn úr krana, verið notuð. Blaðamaður settist niður með Kristjönu á kaffihúsi á Kársnesinu í Kópavogi dag einn í ágúst en sú stutta var í pössun hjá ömmum sínum á meðan.
„Það er dásamlegt að vera orðin mamma,“ svarar Kristjana brosandi þegar blaðamaður spyr hvernig tilfinningin sé, „og Rósa er alveg yndisleg. Þetta er samt búið að vera pínu bíó fyrstu vikurnar þar sem hún hefur verið mikið kveisubarn. Ég held samt að hún verði ofboðslega gott barn þegar kveisutímabilið verður liðið hjá, ég sé það bara að í karakter er hún róleg og hún er ótrúlega vær þegar hún er ekki í þessum fasa.“
Það gekk á ýmsu á meðgöngunni og Kristjana segist til dæmis hafa fengið mikla grindargliðnun og þurft að fara í sjúkraþjálfun vegna þess. Athygli vakti þegar hún fékk aðsvif í beinni útsendingu Gettu betur í febrúar síðastliðnum svo gera þurfti hlé á útsendingunni. „Já, auðvitað þurfti þetta að gerast í beinni, þetta gat að sjálfsögðu ekki gerst þegar ég var bara í sminki. Ég var að lesa hraðaspurningarnar og fann að ég byrjaði að riða en hugsaði að ég yrði að halda áfram með spurningarnar. Svo sortnaði mér bara fyrir augum og ég missti líka heyrnina, ég fann að ég var að fara að detta en náði sem betur fer að setjast niður. Annars hefði þetta líklega orðið enn þá dramatískara en það var. Þá hefði ég sennilega bara sagt upp vinnunni og farið á sjóinn,“ segir Kristjana og hlær létt.
„Eftir á fann ég líka að það höfðu bara allir verið að horfa á keppnina, meðal annars læknirinn og hjúkrunarfræðingurinn sem tóku á móti mér á bráðamóttökunni og ég man hvað mér fannst vandræðalegt að hafa lent í þessu, en auðvitað var fyrir öllu að það var í lagi með barnið. Haraldur var að keppa í Suður-Afríku á þessum tíma og fyrir einhverja tilviljun var hann að horfa á útsendinguna þannig að honum brá auðvitað og hélt strax að eitthvað hefði komið upp á með barnið, það voru reyndar mjög margir sem héldu að ég væri kannski bara að missa barnið þarna í beinni útsendingu, þetta var kannski ekki þægilegasti staðurinn til að lenda í þessari uppákomu. Haraldur reyndi að hringja í mig en ég svaraði auðvitað ekki, enda ekki með símann á mér, svo hann sendi skilaboð á Sævar Helga (Bragason, dómara í Gettu betur, innsk. blm.) og Sævar gat látið hann vita í auglýsingahléinu að það væri allt í lagi með mig, að ég ætlaði að fara upp á bráðamóttöku til að láta kíkja á mig til öryggis.“
En hvað olli yfirliðinu?
„Þetta var svona sambland af alls konar þáttum. Ég fékk rosalega morgunógleði og gubbaði mjög mikið fyrstu vikurnar á meðgöngunni, alveg fram á sextándu eða sautjándu viku. Ég var líka með mjög lágan blóðþrýsting og hef þar að auki alltaf verið svolítið lág í járni og þurft að passa upp á járninntökuna. Sama dag og þessi uppákoma varð í beinni útsendingu hafði ég verið á þönum, í viðtölum út af Gettu betur, að gera tilboð í íbúð og var ekki búin að borða og drekka nóg. Eftir á kom í ljós að ég var með rosalega lágan blóðþrýsting og mjög mikinn vökvaskort. Eftir þetta passaði ég vel upp á blóðþrýstinginn og vökvainntöku og allt þetta. Það er mjög auðvelt að gleyma sér í þessari vinnu og allt í einu er heill vinnudagur liðinn, alveg að koma að miðnætti þegar maður áttar sig á því að maður er varla búinn að nærast neitt allan daginn. Við tölum oft um þetta stelpurnar í íþróttafréttunum og ég held að það gleymist líka oft hjá þeim sem eru að vinna í þessu umhverfi að við stelpurnar þurfum á einhverjum tímapunkti að fara í smink sem tekur um það bil klukkutíma af okkar vinnslutíma yfir daginn en við þurfum samt að skila af okkur jafnmikilli vinnu og strákarnir sem þurfa kannski að sjá bara af nokkrum mínútum í smink. Margir vita líklega ekki að við íþróttafréttamenn sjáum um að afla fréttanna, skrifa þær, taka viðtöl, sækja myndefni og klippa allt niður fyrir útsendingu. Ég held að fólk haldi að ég mæti bara puntuð í settið og lesi fréttir en stundum er maður feginn að hafa náð að setja á sig pínu púður og maskara. Svo er maður bara með úfið hár og býður fólki gott kvöld á skjánum. Maður hefur oft farið inn í settið, sveittur, úfinn og á hlaupum. Þetta er ekki bara glans og glamúr sko,“ segir Kristjana kímin.
Þetta var brot úr lengra viðtali Vikunnar sem finna má inn á vef Birtings.
Texti: Guðrún Óla Jónsdóttir
Myndir: Hallur Karlsson
Förðun: Sara Eiríksdóttir
Föt: Andrá Reykjavík