KVENNABLAÐIÐ

„Við höfum fengið hótanir“

Júlía Rachenko og Ásgeir Magnús Ólafsson hafa staðið í ströngu við að aðstoða flóttafólk frá Úkraínu. Þau segja fólkið þakklátt og vilji gera gagn, en ætli að snúa aftur og taka þátt í uppbyggingu í landinu. Þegar neyðarástand skapist af mannavöldum sjáist hvað má betur fara og hvað sé gert vel, Íslendingar hafi staðið sig um flest vel. Fyrirtæki séu að snúa aftur til Úkraínu sem lofi góðu en að Rússar hafi sýnt mikla grimmd m.a. í garð barna, það séu sannanir fyrir því.

Þetta er brot úr lengra forsíðuviðtali Vikunnar.

Júlía Rachenko er viðskiptafræðingur að mennt og kom til Íslands 2008 til að bæta við sig ensku. Vinkona hennar ráðlagði henni það, hér töluðu allir góða ensku og að boðið væri upp á gott enskuprógramm. Hún ákvað að skella sér hingað þó að hún vissi ekki einu sinni hvar landið væri. Hún hitti síðan barnsföður sinn og sá að hún myndi ílengjast hér. Júlía skildi við  hann og kynntist síðar núverandi sambýlismanni sínum, Ásgeiri Magnúsi Ólafssyni.

„Við höfum fengið hótanir, ekki bara frá Rússum, líka fleirum og í einhverjum tilvikum veit ég um hverja ræðir.“

Þau Júlía og Ásgeir hafa verið að aðstoða flóttafólk frá Úkraínu frá því að stríðið skall á. „Ég er með Facebook-síðu sem heitir Úkraínumenn á Íslandi sem ég stofnaði fyrir um 4 árum en ákvað svo að opna hópinn meira þannig að allt fólk frá Úkraínu gæti komið í hann. Við hjálpum fólkinu með því að veita upplýsingar, það getur skrifað á síðuna það sem það vantar og ef það eru einhver vandamál, við reynum að svara fyrirspurnum og gerum það sem við getum,“ segir Júlía.

Ásgeir segir að þegar stríðið skall á hafi orðið eins konar sprenging. „Það var náttúrlega algjör tilfinningarússíbani hjá fólkinu. Ég var erlendis en samtölin við Júlíu voru mjög erfið, hún var gjörsamlega niðurbrotin, ætlaði að rjúka beint út og ná í mömmu sína. Það voru alls konar tilfinningaleg viðbrögð, eðlilega, og það hefur verið vinna hjá okkur að ná tökum á hlutunum tilfinningalega séð svo hægt sé vera í stakk búin að sinna flóttafólkinu og öðrum verkefnum.“

„Þetta var mikið áfall og ég átti erfitt með að meðtaka þetta stríð, ég grét mikið og gat ekki hætt, þetta var svo mikið áfall,“ segir Júlía.

Hún segir að móðir sín og systir hafi komið til Íslands í nokkrar vikur en snúið aftur heim. Þær hafi talið að þær væru öruggar í Kiev og þörf fyrir þær þar. Hingað hafi margir komið og í byrjun, fólk sem þekkti einhverja sem voru hér fyrir.

Hvernig er ástandið á fólkinu sem er hingað komið, tilfinningalega og líkamlega? „Fólkið á rosalega erfitt, það veit ekkert hvert það er að fara, þegar það kemur. Ég hef fengið skilaboð frá eiginmönnum og verið beðin um að hjálpa konum þeirra og börnum að koma. Þetta fyrsta skref er mjög erfitt.

Oftast er þetta fólk sem hafði allt heima hjá sér. Það á líka stundum erfitt með að þiggja að það sé greitt fyrir hjálpina.“

Júlía bendir á að margir hafi reynst mjög hjálpsamir t.d. hjá Útlendingastofnun og bent fólkinu á rétt sinn. „Fólk er mjög þakklátt fyrir hótelherbergin og matinn og vill reyna að komast sem fyrst í vinnu. Þetta er eitthvað í menningunni. Það er hámenntað fólk þarna innan um, eins og læknar, verkfræðingar og kennarar en fólkið er til í hvaða vinnu sem er.“

 

Þessa grein ásamt öllu öðru efni sem birtist í tímaritum Birtíngs getur þú lesið með því að gerast áskrifandi – Prófaðu frítt í 7 daga

 

 

Hæ!

Takk fyrir heimsóknina á sykur.is. Okkur þætti það alls ekki leiðinlegt ef þú myndir fylgja okkur á Facebook. Við erum ekki óþolandi þar. Í alvöru!