KVENNABLAÐIÐ

F R A M H J Á H A L D: FIMM ástæður þess að KONUR iðka FRAMHJÁHALD

Af hverju halda konur framhjá? Og hvað er það sem tilfinningasambandið skortir þegar kona tekur hliðarspor framhjá ástmanni sínum? Eru konur á eftir kynlífi sem þær ekki geta orðið sér út um heima, eða er um tilfinningalegan skort að ræða? Er hægt að halda framhjá eiginmanni sínum án þess að afklæðast? Hvað er tilfinningalegt framhjáhald?

Þessar spurningar kviknuðu meðal lesenda eftir nýlega umfjöllun SYKUR sem bar heitið 9 staðreyndir um framhjáhöld: „Flestir halda framhjá til að bjarga hjónabandinu” – einhverjir sögðu umfjöllunina karllæga og aðrir vörpuðu fram spurningunni: „En hvað með konur?”

Staðreyndin er sú að bæði kynin halda framhjá til jafns. Ástæður framhjáhalds eru í grundvallaratriðum ólíkar þegar kynin tvö eiga í hlut, meðan karlar leita oft kynferðislegrar svölunar utan veggja heimilisins – einmitt í þeim tilgangi að „bjarga hjónabandinu” eru konur í allflestum tilfellum í leit að tilfinningalegri fullnægju sem þær ekki geta orðið sér úti um heima fyrir.

Með öðrum orðum; hversdagslífið getur tekið sinn toll af hjónabandinu.

Undirrituð er kona. Og þekkir framhjáhald af eigin raun. Hefur setið beggja megin, upplifað tryggðarsvik maka og afklæðst fyrir annan karlmann. Aðstæður og orsakir voru gerólíkar í bæði skipti – afleiðingarnar voru algert niðurbrot og sektarkenndin sem fylgir því að taka hliðarspor er ólýsanleg, þegar atburðarásin er yfirstaðin.

Mig langaði að vera elskuð. Ég vildi sanna að ég væri eftirsóknarverð, vildi heyra fallegu orðin. Langaði að endurupplifa lostann sem var löngu dáinn í sambandinu. Mig langaði að sýna kærastanum mínum að ég væri þráð af öðrum karlmönnum, mig langaði að öðlast yfirhöndina í sambandinu – ég vildi vera númer eitt.

Konur halda framhjá af ýmsum ástæðum. Stundum stýrir kvenlegur hefndarþorsti ferðinni. Að svara í sömu mynt. Jafnvel hefur karlmaðurinn haldið framhjá og konan ákveður – í hita augnabliksins – að jafna metin.

Ég gerði það til að sýna honum að ég væri jafn falleg og HÚN: Að ég gæti líka farið á stefnumót, upplifað villt kynlif með karlmanni – ég gerði það til að gera hann afbrýðisaman. Ég þoldi ekki þá tilhugsun að hann væri með annarri konu – meðan ég sat ein og grét heima. Kynlífið var ömurlegt, en ég beit á jaxlinn og kláraði pakkann. Bara til að geta sagt við sjálfa mig: ÉG GERÐI ÞAÐ LÍKA. ALVEG EINS OG HANN.

Þetta eru einhverjar ástæður þess að konur halda framhjá. Auðvitað er hægt að ofeinfalda mál og segja að konur séu nöðrur og að karlar séu svín. Að fólk sem heldur framhjá sé klikkað og að slíkt ætti að banna. Sannleikurinn er þó aldrei svo einfaldur og enginn fer út í ástarsamband með þau markmið í huga að halda síðar meir framhjá maka sínum í þeim tilgangi að særa. Framhjáhald er eitthvað sem bara gerist, í flestum tilfellum – hefur alvarlegar afleiðingar og skelfilega líðan í för með sér í kjölfar atburðarásarinnar. Stundum merkir framhjáhald dauða hjónabandsins – en þó ekki alltaf.

Og konur halda ekki bara framhjá með körlum. Konur halda líka framhjá með öðrum konum. Ég á kæra vinkonu sem sængaði hjá annarri konu meðan maðurinn hennar vann utan heimilis. Þegar upp komst fór allt í háaloft og þar fór sú mýta að karlmenn þrái oog njóti þess að sjá tvær konur sofa saman.

Lesbíudraumurinn er oftast bundinn við klámkenndar fantasíur og hefur ekkert með hjónabandið að gera. Fæstir giftir karlmenn geta fremur fyrirgefið framhjáhald eiginkonu sinnar – ef aðeins er um vinkonu, en ekki ókunnan mann, að ræða.

Svo eru það þeir sem njóta þess að horfa á eiginkonur sínar í samförum við aðra menn, – sjálfskipaðir kokkálar – en það efni í aðra grein.

Engu að síður, geta eftirfarandi ástæður legið að baki framhjáhaldi kvenna:

#1 – Hún óttast að þú yfirgefir hana:

Nándarfælni. Orðið eitt! Það er ekki erfitt að áætla að kona sem á í ástarsambandi við karlmann sem gefur sig ekki allan í sambandið (ber fyrir sig erfiðri fortíð, jafnvel sárum sambandsslitum og Guð einn má vita hvaða ástæður aðrar) velti því fyrir sér hversu traust framtíð beggja saman er. Í raun er eðlilegt – ef samskiptin eru stopul, að konan skuli halda öðrum fæti úti á markaðinum og tvístíga sjálf inni í sambandinu. Sannleikurinn er sá að það ríkir enginn samhljómur á milli ykkar – hún vill og þráir traust tilfinningasamband. Þú, sem sækir í nándina og æskir tryggðar, gefur þig hins vegar aldrei til fulls. Að lokum kynnist hún öðrum og …

#2 – Þú ert hættur að veita henni athygli heima fyrir:

Þegar sambandið var nýtt og ferskt, flögruðu falleg orð á milli ykkar – stefnumótaleikurinn var skemmtilegur og gneistarnir flugu í svefnherberginu. Það heyrir hins vegar sögunni til, innileg samtöl eiga sér ekki stað lengur við eldhúsborðið og þið ræktið sitt hvor áhugamálin. Með aðskildum vinahópum. Það ríkir tómleiki í sambandinu. Og konan upplifir einmanakennd …

#3 – Einhver annar lætur öll réttu orðin falla:

Stundum er ástæðan einfaldlega sú að annar karlmaður lætur öll réttu orðin falla. Vegna þess að freistingin verður á vegi konunnar. Skyndilega, óumbeðið og óvart. Stundum er enga flókna ástæðu að finna að baki framhjáhalds. Stundum og einfaldlega, tekur lostinn bara völdin. Konur eru gæddar kynhvöt líka.

#4 – Þú hélst sjálfur framhjá henni fyrst:

Særð kona er reið kona. Og reið kona er hættuleg kona. Aldrei vanmeta hæfni konu til að standa í sálrænum hernaði og bera sigur úr býtum. Kona sem verður fyrir barðinu á framhjáhaldi er allt eins líkleg til að halda framhjá sjálf. Bara til að jafna metin. Tilgangurinn er ekki sá að öðlast frelsi til að lifa óbeisluðu kynlífi með ókunnum karlmanni, rétt eins og þú gerðir með annarri konu fyrst – heldur er ástæðan sú að konan vill varpa þeim sársauka sem þú ollir henni áður yfir á þig, svo þú megir upplifa þá sálarkvöl sem þú ollir henni fyrst. Staðan er dauðadæmd og þessi leikur endar aldrei vel.

#5 – Hún er einfaldlega fjöllynd í eðli sínu:

Einmitt. Ekki allar konur eru einkvænisverur í eðli sínu. Ekki allar konur þrá þrjú börn og hvíta rimlagirðingu. Rósótta svuntu og brúskaðan eiginmann sem aflar tekna. Sumar konur eru einfaldlega fjölkvænisverur í eðli sínu, eiga erfitt með að höndla nánd og þá skuldbindingu sem hjónabandið hefur í för með sér. Við því er ekkert að gera, mennirnir (og konurnar) eru jafn misjafnir og þeir eru margir. Hjónabandið er einfaldlega ekki gert fyrir alla.

Hæ!

Takk fyrir heimsóknina á sykur.is. Okkur þætti það alls ekki leiðinlegt ef þú myndir fylgja okkur á Facebook. Við erum ekki óþolandi þar. Í alvöru!