Sheila er tík, Golden Retriever blanda, og býr í höfuðborg Argentínu, Buenos Aires. Hún hefur brætt hjörtu milljóna í Suður-Ameríku eftir að fréttir bárust af því að hún hefur beðið þolinmóð fyrir utan lögreglustöð eftir að eigandi hennar var handtekinn, fyrir meira en ári síðan.
Sheila bíður alltaf fyrir utan lögreglustöðina í hverfinu 25 de Mayo, sem er rétt fyrir utan höfuðborgina.
Eigandinn var handtekinn og þarf að sitja inni fyrir árás. Það tók ekki langan tíma fyrir lögregluþjónana að taka eftir henni og sumir fóru að færa henni mat. Hún var varkár í fyrstu en nú þarf hún á þeim að halda til að lifa. Hún fær að sofa inni á stöðinni á næturnar og fer stundum í ferðir með lögregluþjónunum. En alltaf bíður hún eftir húsbónda sínum.
„Sannleikurinn er sá að þann dag sem við handtókum manninn kom Sheila á staðinn og hefur ekki farið síðan,” sagði lögreglustjórinn Juan Jose Martini við Tucumanalas7 News. „Við teljum að hún hafi elt lögreglubílinn. Sheila er fjögurra eða fimm ára. Hún hefur staðið og legið fyrir utan stöðina og allir elska hana. Í dag er hún hluti af „fjölskyldunni okkar” og er í raun eins og hluti af lögregluliðinu, hvort sem við erum í bíl eða á fæti.”
Þar sem Sheila er mjög þrautseig og elskuleg, fær hún stundum að eyða tíma með eigandanum og sefur stundum fyrir utan fangaklefann: „Hún fær að hitta hann, já, og sefur meira að segja á stöðinni. Þetta er bara mjög fallegt.”
Fyrir nokkrum mánuðum varð Sheila fyrir árás af völdum annars hunds og þurfi á læknishjálp að halda. Starfsmenn lögreglustöðvarinnar sáu um það og fóru með hana. Hún þurfti að vera þar í 15 daga og allir reikningar voru borgaðir. Hún náði fullum bata og fór aftur á „vaktina” fyrir utan stöðina.
„Ég býst við að þegar eigandinn losnar fer hún með honum. Hennar verður saknað þegar það gerist,” segir Martini.
Það eru samt tvö og hálft ár í að hann losni, því hann fékk þriggja og hálfs árs dóm. Að minnsta kosti veit hún hvar hann er og fær að sjá hann af og til!