Kamillu Einarsdóttur, rithöfundi brá í brún þegar henni var bent á að enginn annar en fyrrverandi Bandaríkjaforseti, Barack Obama væri að fylgja henni á Twitter: „Við erum því miður ekki vinir IRL, við Obama, en ég væri alltaf til í að kíkja í partý til hans, nú eða bjóða honum með mér á Catalinu við tækifæri!“
Kamilla tvítar á íslensku, en telur að hann hljóti að nota Google Translate: „Vonandi hefur hann gaman af tvítunum mínum um ódýra lagerbjóra, Kópavog og viðvarandi ástarsorg.“
Kamilla gaf út bókina Kópavogkróníku árið 2018, en bókin vakti mikla athygli. Í texta um bókina segir: „Kópavogskrónika er fyrsta skáldsaga Kamillu Einarsdóttur. Þetta er sannkölluð nútímasaga, skrifuð af algjöru hispursleysi. Textinn er ágengur, hrár og jafnvel grófur. Hér svífur kaldhæðni yfir vötnum en um leið miklar og djúpar tilfinningar.“
Aðspurð hvort Obama hafi ekki bara lesið bókina, segir Kamilla: „Jú, ég vona að hann hafi bara fílað hana svona mikið og þess vegna byrjað að followa mig…“