Flugbeitt ræða stórleikkonunnar Salma Hayek um kynjamisrétti í henni gömlu Hollywood hefur vakið talsverða athygli, en leikkonan var beinorð og hvöss í orðræðu sinni og sagði jafnrétti aldrei ávinnast með lyðruhætti kvenna:
Það þýðir ekkert fyrir okkur konur að leika fórnarlömb og væla í körlum um að við verðskuldum okkar sess í kvikmyndageiranum. Því vitið þið hvað? Þeim er alveg sama!
Sjálf segist Salma hafa mætt ótrúlegum hroka í Hollywood og að konur séu sniðgengnar að mestu; að hún hafi mætt skammarlegu kynjamisrétti í sínu starfi sem leikona. Salma er ein af þekktari leikkonum í kvikmyndaborginni og því eru yfirlýsingar hennar sem löðrungur í andlit þeirra sem stýra kvikmyndabransanum að mestu.
Salma segir að stærstu karlstjörnurnar í bransanum slái allar helstu leikkonurnar út þegar að launasamningum kemur. Karlarnir fái mun feitari samninga til undirskriftar og að leikkonur þurfi að standa í langri röð til að hreppa bitastæð hlutverk – sem sé öfugt þegar karlmenn eiga í hlut. Þetta hafi margsinnis orðið henni til sárra vonbrigða.
Þessi orð lét Salma falla á í orðræðu á pallborðsumræðu Variety og Sameinuðu þjóðanna sem haldin var á kvikmyndahátíðinni í Cannes fyrir fáeinum dögum og var helguð var hlutskipti kvenna í kvikmyndageiranum. Auk Sölmu tóku leikkonurnar og kvikmyndaleikstjórnarnir Parer Posey, Aishawarya Rai Backhchan og framleiðendur nýjustu kvikmyndar Cate Blanhett, Carol, til máls.
Peningar eru hreyfiaflið sem knýr fólk áfram. Fjármunir eru undirstaða allrar ákvarðanatöku í kvikmyndabransanum. Það er á valdi okkar kvenna að leiða bransanum fyrir sjónir hversu mikil fjárhagsleg verðmæti við getum skapað. Við einar getum sýnt og sannað að við búum yfir nægilegri getu og hæfileikum til þess að bjarga kvikmyndabransanum.
Aðspurð því hún teldi að kynjamisrétti viðgengist í svo miklum mæli í kvikmyndageiranum og svo lítið hefði áunnist í jafnréttismálum innan bransans svaraði Salma:
Því er einfalt að svara. Þar er fáfræði um að kenna og engu öðru. Karlarnir sem sitja á toppinum telja að það eina sem konur hafi fram að færa í kvikmyndum sé hlutgerving kynþokka.
Og Salma skóf ekki af hlutunum:
Klámmyndaleikkonur eru einu konurnar í kvikmyndabransanum sem afla meiri tekna en karlmenn sem taka að sér sambærileg hlutverk. Þetta er ekki einu sinni fyndið.
Um núverandi stöðu kvenna sagði hún:
Við getum ekki ætlast til þess að fá launahækkun meðan við fáum ekki tækifæri á að sýna hversu háum fjárhæðum okkar framlag getur skilað í kassann.
Jafnvel þegar stórleikkonur eiga í hlut hirða karlleikararnir heiðurinn að sögn Sölmu, sem segist hafa misst af bitastæðum hlutverkum því aðalleikarinn vildi fá aðra leikkonu – jafnvel þvert á val leikstjórans:
Gaurinn hirðir alltaf heiðurinn. Ég hef verið rekin úr hlutverki sem leikstjórinn valdi mig til að leika, bara vegna þess að aðalleikaranum líkaði ekki við mig. Jafnvel vel skrifuð handrit eru oft þynnt út til að láta karlleikarann líta betur út og konuna orka undirgefnari. Ef maður reynir að betrumbæta hlutverkið og lagfæra línurnar, kemur samstundis upp óánægja á settinu. Undantekningarlaust.
Af þeim karlleikurum sem taldir voru til sögunnar og þykja undantekning reglunnar, fer Alec Baldwin fremstur í flokki, en hann er þekktur fyrir að taka að sér hlutverk í kvikmyndum þar sem hlutur kvenna er stærri og aðalleikkonan skín hvað skærast.
Kvikmyndabransinn gerir lítið úr gáfnafari kvenna. Það er ekkert nýtt og hefur viðgengist í áraraðir. Karlmenn í bransanum átta sig ekki á því hversu öflugar við konur erum og verðmætar í fjárhagslegum skilningi og það eitt og sér, er ótrúleg fáviska.
Pallborðsumræðurnar voru settar á laggirnar af glansritinu Variety og UN Women, sem einnig hefur umsjón með jafnréttisherferðinni He For She sem breska leikkonan Emma Watson leiðir.
Telegraph sagði frá