Eldur varð laus í einbýlishúsi við Kirkjuveg á Selfossi í dag um fjögurleytið. Um mikinn eld var að ræða og voru nágrannar beðnir um að loka gluggum hjá sér til að koma í veg fyrir eitraðar gufur. Lögreglan á Suðurlandi bað fólk að leita á spítala ef það fyndi fyrir öndunaróþægindum. Einnig benti hún á að ef nærliggjandi hús yrðu fyrir reykskemmdum ætti að leita til tryggingafélaga.
Slökkvistarf stendur enn yfir og stendur í yfirlýsingu lögreglunnar:
[…] ekki [var] unnt fyrir slökkvilið að komast inn vegna gríðarlegs hita. Húsráðandi og gestkomandi kona eru í haldi lögreglu vegna rannsóknar á eldsupptökum. Grunur er um að karl og kona hafi verið á efri hæð hússins þegar eldurinn kom upp. Þeirra er nú leitað.
Sérfræðingar tæknideildar lögreglunnar á Höfuðborgarsvæðinu hafa verið kallaðir til aðstoðar við rannsókn málsins.
Slökkvistarf stendur enn yfir. Vettvangur verður lokaður óviðkomandi eftir að því lýkur vegna vettvangsrannsóknar.
Frekari upplýsingar er ekki unnt að veita að sinni.