KVENNABLAÐIÐ

Hvað er sogæðabólga?

Umhverfis allar frumur í líkamanum er vökvi sem er kallaður millifrumuvökvi og er hann nálægt því að vera 15% af líkamsþyngdinni. Þessi vökvi endurnýjast stöðugt vegna leka út úr háræðunum og hann tæmist út í sogæðakerfið eða öðru nafni vessaæðakerfið. Sogæðarnar liggja í gegnum eitla, sem gegna m.a. því hlutverki að hreinsa sogæðavökvann af sýklum, og opnast að lokum inn í bláæðakerfið í brjóstholinu. Ef sogæðarnar skemmast eða eitlarnir eru fjarlægðir, truflast frárennsli millifrumuvökvans og þá myndast það sem er kallað sogæðabólga, sogæðabjúgur eða vessabjúgur.

Auglýsing

Sogæðabólga getur átt sér margar orsakir, meðfæddar og áunnar. Meðfædd sogæðabólga er til staðar hjá einum af hverjum 10 þúsund einstaklingum, hún getur byrjað skömmu eftir fæðingu eða ekki fyrr en eftir 35 ára aldur. Áunnin sogæðabólga er vegna skemmda eða stíflu í áður eðlilegum sogæðum. Síendurteknar sogæðasýkingar (vegna baktería) leiða oft til langvarandi sogæðabólgu en algengasta orsökin á heimsvísu er þráðormasýking (filariasis). Í hitabeltinu berast þráðormar með moskitóflugum og geta náð bólfestu í mönnum. Þráðormarnir geta stíflað sogæðar, valdið langvarandi sogæðabólgu og stöku sinnum því sem kallað er fílsfótur (elephantiasis). Aðrar orsakir sogæðabólgu eru skurðaðgerðir og geislameðferð við brjóstakrabbameini sem geta valdið sogæðabólgu í handlegg og af sjaldgæfari orsökum má nefna berkla, snertiofnæmi og iktsýki. Sogæðabólga er oftast sársaukalaus en útlimurinn er þrútinn og þungur og ef ástandið stendur mjög lengi versnar útlit útlimsins smám saman.

Auglýsing

Þegar ástandið stendur lengi eykst hætta á verkjum og öðrum óþægindum. Það er rétt hjá bréfritara að meðferðarúrræði eru ekki upp á marga fiska. Þetta stafar þó ekki af áhugaleysi einu saman því að á hverju ári birtast niðurstöður fjölmargra rannsókna á meðferð við þessum sjúkdómi. Vandamálið er bara það að alls kyns úrræði eru prófuð en árangurinn er oftast lélegur. Flestir eru þó sammála um að engin lyf dugi en hvetja eigi sjúklingana að hreyfa sig og stunda hæfilega líkamsrækt; sprautugjafir og blóðþrýstingsmælingar er hægt að framkvæma á hinum handleggnum. Það hjálpar oft að nota teygjuumbúðir sem veita hæfilegan þrýsting og koma þannig í veg fyrir að bjúgur safnist á útliminn og getur þetta m.a. skipt miklu máli ef farið er í flugvél.

Gerðar hafa verið tilraunir með tvær tegundir skurðaðgerða sem lofa nokkuð góðu. Stundum er hægt að tengja skemmdu sogæðarnar við bláæðar og veita vökvanum þangað; þetta eru vandasamar aðgerðir sem heppnast stundum vel og stundum ekki. Einnig hefur verið reynt að beita fitusogi á útliminn og fjarlægja þannig fitu undirhúðarinnar og hefur stundum náðst góður árangur á þennan hátt. Um öll þessi úrræði getur viðkomandi skurðlæknir veitt upplýsingar. Áfram verður haldið að leita meðferðarúrræða við sogæðabólgu. Í lokin má nefna að sums staðar erlendis eru sérstakar meðferðarstofnanir fyrir sogæðabólgu og félög eða stuðningshópar fyrir sjúklinga með sjúkdóminn.

Hæ!

Takk fyrir heimsóknina á sykur.is. Okkur þætti það alls ekki leiðinlegt ef þú myndir fylgja okkur á Facebook. Við erum ekki óþolandi þar. Í alvöru!