KVENNABLAÐIÐ

Afleiðingar kynferðisbrota eru alvarlegri en margir halda

Hvernig er hægt að styrkja tengsl frelsis, siðferðis og ábyrgðar hjá ungmennum þegar sífellt áreiti og þrýstingur er frá umhverfinu um að vera eins, gera það sem maður vill, að taka áhættur er það sem er skemmtilegast? Að vera ábyrgur er ekki spennandi.

Síðan segja unglingarnir að foreldrar hinna séu svo góð, þau leyfi hitt og þetta og það eykur enn á ráðleysi og vanmátt foreldranna. Foreldrum og börnum til stuðnings eru barnaverndarlög sem segja að unglingar séu ekki lögráða fyrr en 18 ára og því hafi þau ekki frjálst val um það hvað má og ekki má gera. Oft er erfitt að grípa inn í og stjórna unglingnum sem vill fara sinna ferða, taka eigin áhættur og á erfitt með að þola forræðishyggju foreldranna. Nöturlegar staðreyndir og vitneskja þeirra sem vinna að meðferðarstörfum og forvörnum vegna afleiðinga áhættuhegðunar, ofbeldis, nauðgana og fíkniefna tala sínu máli um það, að taka ber á þessum málum af mikilli ábyrgð.

Afleiðingar kynferðisbrota
Árlega leitar fjöldi stúlkna og kvenna sér aðstoðar eftir nauðganir og önnur kynferðisbrot sem framin voru gagnvart þeim. Að meðaltali koma tvær til þrjár stúlkur eða konur í viku á Neyðarmóttöku vegna nauðgunar. Karlmenn verða líka fórnarlömb og af 877 einstaklingum sem hafa komið á NM frá opnun 1993 þá eru 38 karlmenn.

Um nánast hverja helgi er einhver sem lendir í þessu ofbeldi og er það oftast tengt einhverju skemmtanahaldi.

Það sem hefur sett ljótan blett á skemmtihald á útihátíðum um verslunarmannahelgar eru kynferðisbrot gagnvart stúlkum sem hefur verið nauðgað þar af einhverjum karlmönnum sem þær þekkja oftast ekki og hverfa þeir í fjöldann eftir að hafa framið þetta ofbeldi. Síðasta ár voru það 20 stúlkur og 1 piltur sem leituðu sér aðstoðar eftir þetta ofbeldi, 10-12 innan 18 ára aldurs. Aðeins bárust 5 kærur til lögreglu og allar voru þær felldar niður vegna sönnunarskorts. Því má segja að allir gerendur í þessum málum hafi sloppið við að bera ábyrgð á gerðum sínum.

Þolendurnir og þeirra foreldrar eða nánustu aðilar þurfa að glíma við afleiðingar kynferðisbrota sem oft á tíðum geta verið mjög alvarlegar. Það er vitað að þeir sem lenda í áföllum af mannavöldum þar sem ásetningur er líka til staðar og upplifun þolenda um að lífi þeirra sé ógnað, eru í mikilli hættu að fá áfallröskun.

Áfallröskun er einkenni um andlegar, líkamlegar og félagslegar afleiðingar áfalls og skaða. Endurupplifun, vantraust á öðrum, hræðsla við umhverfi, skömm, sektarkennd,sjálfsásakanir og lágt sjálfsmat er oftast það sem þolendur þjást af og það sem brýtur manneskjuna niður.

Samkvæmt ársskýrslu Stígamóta 2001 kemur fram að um 60,3% kvenna hafði sjálfsvígshugleiðingar eftir kynferðislegt ofbeldi en um 20,6% höfðu reynt sjálfsköðun. Þá er vitað og hefur verið kynnt nú ítarlega í nýútkominni skýrslu sem var falið að gera úrbætur vegna kláms og vændis, að um 55-80% vændiskvenna hafa sætt kynferðislegu ofbeldi í æsku.
Hér á Íslandi kemur fram skv. samnorrænni rannsókn um ofbeldi gegn konum(NORVOLD) að um 33% aðspurðra kvenna hafi verið beittar kynferðislegu ofbeldi og af því þjáist enn um 17% og er Ísland með hæstu tíðni. Einnig kemur í ljós í sömu rannsókn að hlutfallslega lang flestar ungar stúlkur innan 18 ára leita sér aðstoðar hér á landi eftir nauðgun. Um 40% þeirra sem leita sér aðstoðar á Neyðarmóttöku eru 18 ára og yngri.
Því er mjög líklegt að í hverri fjölskyldu sé einhver sem hefur verið beitt kynferðislegu ofbeldi. Það getur því verið erfið lífsreynsla fyrir alla aðila þegar nýtt áfall dynur yfir, stúlku- eða dreng, í fjölskyldunni.

Klám og kynferðisbrot
Enginn getur mælt móti því að vaxandi klámvæðing og kynferðisofbeldi gagnvart bæði börunum og konum hefur aukist ár frá ári og orðið sýnilegra öllum, hvort heldur þeir vilja það eða ekki. Samkvæmt skýrslu nefndar sem var falið að gera úrbætur vegna kláms og vændis þá er vaxandi framboð af klámefni sem gerist sífellt grófara og aðgengilegra fyrir fólk hvar sem er, í sjónvarpi, kvikmyndum, dagblöðum og á hinum ýmsu tölvuvefsíðum og hefur það flætt yfir síðustu ár. Umburðarlyndi og siðferðisvitund fólks slævist við þetta sífellda áreiti. Umdeilt er hvort bein áhrif séu á milli kláms og kynferðisbrota.
Á Neyðarmóttöku sjáum við sífellda aukningu á grófara ofbeldi og fleiri hópnauðganir frá ári til árs. Einnig hafa konur komið sem tjá sig um það að gerendur séu neytendur á klámi og beiti þær mjög niðurlægjandi kynlífsathöfnum sem í þeirra huga er bein tilvísun til grófs kláms. Er þetta vaxandi áhyggjuefni og einnig það hversu margir ungir einstaklingar lenda í þessu ofbeldi. Gróft og niðrandi tal og andlegt niðurbrot er líka það sem þolendur ræða um.
Aukning hefur orðið á því að teknar eru myndir af þolendum og þær jafnvel notaðar í kúgunarskyni. Hótanir gerenda gegnum GSM síma og skilaboð viðhalda hræðslu og vanlíðan og hindra líka þolendur í því að kæra mál þar sem þær óttast hefndir.

Áfengisneysla og nauðganir
Á Neyðarmóttöku sjáum við að áfengisneysla er mjög tengd nauðgunarbrotum. Íslenskir unglingar hefja drykkju fyrr og neyta að jafnaði oftar víns en í samanburðarlöndum. Það virðist ekki orðið ámælisvert að drekka frá sér ráð og rænu, hvort heldur það er á útihátíðum eða á skemmtunum. Það er í raun alveg ótrúlegt að á hverri stórri skemmtun eða á útihátíðum skuli þurfa að gera ráð fyrir aðstöðu fyrir útúrdrukkna einstaklinga sem sofna áfengissvefni. “Dauðaherbergi” er ekkert til að skammast sín fyrir. Áfengið slævir dómgreind bæði þolenda og geranda og losar um hömlur og því eru stundum teknar áhættur sem annars væru ekki.
Því miður þá eru um þriðjungur brota tengdur því að þolandi var sofandi áfengissvefni og gat ekki varið sig sökum þess.
Þar er kynferðislegt sjálfræðisvald þolandans algjörlega virt að vettugi og þögn er túlkað sem samþykki af hálfu geranda.
Ekki hefur verið hægt að sýna fram á lyfjabyrlun með mælingum en saga og lýsing þolenda á atburði bendir eindregið til þess, að þessu er beitt í nauðgunarmálum.

Gerendur í kynferðisbrotamálum
En hvers vegna eru svona mörg fórnarlömb nauðgana og kynferðisofbeldis til? Eiga ekki allir karlmenn mæður, systur, eiginkonur, frænkur og vinkonur? Af hverju beita þeir þá þessu ofbeldi sem er eitt það alvarlegasta sem einstaklingur getur lent í?
Lítið er um svör við þessu og ekki hafa dæmdir nauðgarar verið að útskýra opinberlega hvers vegna þeir beittu þessu ofbeldi og niðurlægingu. Ekki heyrist heldur mikið frá foreldrum eða aðstandendum geranda um þeirra líðan eftir að þeirra sonur, bróðir, eiginmaður, kærasti, frændi eða vinur hefur framið glæpinn. Þessir einstaklingar þjást líka en eiga sennilega erfitt með að skilja hvaða hvatir liggja að baki. Það sem oftast hefur verið vitnað til er að sumir þessara brotamanna hefi sjálfir verið beittir ofbeldi og eru þeir í raun að hefna sín á þeim sem geta ekki varið sig.

Þá kemur fram í könnun RKÍ og dómsmálaráðuneytisins (2000) að eftir því sem vinahópurinn er hlynntari ofbeldi, því líklegri er að svarendur beiti aðra ofbeldi.

Þeir geta falið sig á bak við það að þegar einstaklingur tekur þátt í hópaðgerð, þá finnur hann minna til ábyrgðar á atburði heldur en sá sem framkvæmir einn. Eftir því sem hópurinn er stærri því minna finnst hverjum sinn hlutur vera og hægt er að dyljast innan hópsins. Virðing fyrir öðrum er minni og ásættanlegra að misnota og beita ofbeldi.
Áfengisneyslan, hópþrýstingur og fyrri neikvæð reynsla er stundum notuð til að afsaka og réttlæta ofbeldishegðunina, en það er ekkert sem getur réttlætt ofbeldi, hvorki ástand, aðstæður eða þrýstingur annarra. Allir verða að taka ábyrgð.
Valfrelsi þýðir það að standa á eigin fótum, finna sína leið og hafa hugrekki og styrk til að ánetjast ekki eigin lögunum og fíknum.

Hvað er til ráða?
Aðhald foreldra snýst því um það að verja börn sín gagnvart aðstæðum sem þau hafa ekki þroska til að skilja eða takast á við ein.
Mikilvægt er að foreldrar hafi samráð og styðji við hvert annað að takast á við uppeldishlutverk sitt og þau fái fræðslu frá skólum og heilsugæslu um hvernig fræða á ungmenni um samskipti kynjanna og kynlíf. Þau fái hvatningu til að leita sér aðstoðar áður en illa fer og þiggja ráð ef þau eru ráðþrota gagnvart vandamálinu.
Það að geta þegið aðstoð og viðurkennt eigin vanlíðan vegna ef til vill fyrri neikvæðrar reynslu, getur haft áhrif á hvernig fólk tekur á erfiðri lífsreynslu eða áföllum þegar fram líða stundir, bæði eigin og annarra.
Því er mikilvægt að hvetja þann sem lendir í eins alvarlegum atburði og nauðganir eru, að leita sér fljótlega aðstoðar.
Stuðningur og hvatning frá foreldrum til þess að takast á við áfallið og síðan fullvissan um að þau eru og verða sá bakhjarl sem unglingarnir þurfa mest á að halda er hverjum einstaklingi mikilvægast þegar lífið er erfitt.

Hægt er að leita aðstoðar hjá:

  • Neyðarmóttöku vegna nauðgunar Landspítala Fossvogi og á Neyðarmóttöku á Fjórðungssjúkrahúsinu á Akureyri
  • Læknisaðstoð og ráðleggingar á öllum minni sjúkrahúsum og heilsugæslustöðvum úti á landsbyggðinni.
  • Lögreglu um allt land.
  • Fulltrúum á félagsmálastofnunum víða um land.
  • Stígamótum.
  • Rauðakrosshúsinu og Hinu húsinu.
  • Ýmsum félagasamtökum sem vinna að velferð barna.

Á skipulögðum útihátíðum er hægt að leita til aðila sem sinna sjúkraþjónustu á svæðinu, lögreglu, björgunarsveitaraðila, á næstu heilsugæslustöð eða sjúkrahúsi.

Greinin er fengin af doktor.is og er samin af Eyrúnu B. Jónsdóttir, hjúkrunarfræðingi

Hæ!

Takk fyrir heimsóknina á sykur.is. Okkur þætti það alls ekki leiðinlegt ef þú myndir fylgja okkur á Facebook. Við erum ekki óþolandi þar. Í alvöru!