Persónuleiki þinn er mikilvægasta hlutverkið í stefnumótaferlinu. Það er hann sem lætur aðra manneskju laðast að þér og það sem heldur hinum aðilanum við efnið. Ertu nægilega spennandi og sjarmerandi til að hann/hún vilji hitta þig aftur?
Það eru ákveðnir þættir í fari manneskju sem þú óskar eftir og aðrir sem þú krefst að hann hafi. Margir vilja meina að stjörnumerkin ráði heilmikilu í fari fólks.
Hver hefur ekki heyrt; „Oh, týpísk meyja.“ Eða, „ó vá spennandi, sporðdrekinn er svo sjarmerandi og góður í rúminu.“
Lestu áfram og athugaðu hvort þú kannist við þetta í eigin fari eða hjá þeim sem þú hefur „deitað.“
Hrúturinn (20. mars – 19. apríl)
Ef þú ert að fara á stefnumót með Hrút þá eru spennandi klukkutímar framundan. Það er ekki annað hægt en að dást af þessum sterku persónuleikum sem eru einbeittir og viljasterkir.
Hrúturinn á erfitt með að viðurkenna eigin galla og getur það skapað vandamál í samböndum. Hann á mjög erfitt með að biðjast fyrirgefningar. Hrúturinn er mjög svo sjálfum sér nægur og því þarf hann ekki á neinum öðrum að halda til að gera hann hamingjusaman. Þú heldur kannski að Hrúturinn geti ekki fundið neinn betri en þig. Hmmm, passaðu þig áður en hann skiptir þér út.
Nautið (20. apríl – 20. maí)
Nautið er frábær félagi á stefnumóti þar sem það er þekkt fyrir stöðuleikann, áreiðanleikann og traustið. Hvað fleira er hægt að biðja um í annarri manneskju? Þetta eru allt eiginleikar sem maður leitar að í einstakling sem maður ætlar að eyða lífinu með.
Einn af göllum nautsins er þó hversu gráðugt það getur verið og efnishyggjan ætlar stundum að keyra allt um þverbak. Og það sem er kannski verra þá er ekkert merki eins þrjóskt og stíft. Þú ættir að vera vel undirbúin ef þú ætlar á „deit“ með Nauti því það sem lítur vel út í byrjun getur breyst hratt ef kemur til rifrildis.
Tvíburinn (21. maí – 20. júní)
Ein mesta félagsveran af stjörnumerkjunum og því er alltaf tryggt að það verður gaman á stefnumóti með Tvíbura. Hann á auðvelt með að spjalla um daginn og veginn og það verður aldrei vandræðaleg þögn. Tvíburinn gengur líka ávallt í skugga um að allir skemmti sér vel í hans félagsskap.
En það varhugaverða við Tvíburann er að hann getur skipt um persónuleika á einni sekúndu og þú veist oft ekki hvernig á að höndla hann. Tvíburinn getur því verið erfiður á stefnumóti og margir höndla ekki að „deita“ Tvíbura.
Krabbinn (21. júní – 22. júlí)
Krabbinn er í eðli sínu rólegur og lætur fara lítið fyrir sér. Hann vill hafa allt í sátt og samlyndi og er því góður kostur í sambandi ef þú ert ekki mikið fyrir læti og rifrildi. Krabbinn heldur vandamálum í sambandinu fyrir sig og leggur sig fram við að finna lausnir. Hringir ekki í alla vinina og lætur vita að það séu vandamál. Eins vel og þetta hljómar þá er Krabbinn líka þekktur fyrir ótrúlega viðkvæmni og að taka hlutina of nærri sér. Hann getur verið mjög kæfandi í sambandi. Sambandið skiptir Krabbann öllu og hann getur því verið mjög krefjandi á þig.
Ljónið (23. júlí – 23. ágúst)
Athyglissýki Ljónsins getur verið sjúklega sjarmerandi á sama tíma og hún getur verið mjög pirrandi. Ljónið kemur fyrir sem mjög sjálfsöruggt og það getur verið mjög heillandi, allavega svona á fyrstu stefnumótunum. Það að þurfa samt stöðugt að vera miðdepill athyglinnar getur þó verið mjög þreytandi til lengdar og þú þarft að vera ansi sterkur aðili til að láta það ekki fara í pirrurnar á þér. Ljónið verður alltaf ráðandi aðilinn í sambandinu og það þarf stöðugt á athygli og hrósi að halda frá þér. Aldrei reyna vinna rifrildi á móti Ljóni. Það er einfaldlega ekki hægt.
Meyjan (24. ágúst – 22. september)
Á aðra höndina er Meyjan staðföst og fer þangað sem hana langar en á hina höndina þá er hún mjög háð maka sínum. Meyjan nálgast samband á mjög óeigingjarnan hátt og er ótrúlega gefandi á fyrstu stefnumótunum. Hún gefur allt sem hún á og heillar þig upp úr skónum. Meyjan er mjög mikill húmoristi og skemmtileg og því er mikið hlegið á stefnumótum með Meyju. En passaðu þig, hún gerir þig brjálaðan fljótt ef þú vilt ekki maka sem treystir ávallt á þig og er háður þér.
Vogin (23. september – 22. október)
Vogin er með sterka siðferðiskennd sem er mjög aðdáunarvert í fari fólks. Hún er mjög ströng á því hvað er rétt og hvað er rangt og leitar sífellt jafnvægis í öllum hlutum. Vogin er týpan sem heldur síst framhjá. Þegar þú rífst við Vog þá reynir hún að setja sig í þín spor líka og sýna fram á sjónarmið ykkar beggja. Sem getur verið mikill kostur. Vogin er mjög félagslynd og finnst gaman að vera úti á meðal fólks svo það er yfirleitt gaman í kringum Vogina.
Það versta við Vogina er að hún getur verið sinnulaus.
Sporðdrekinn (23. október – 21. nóvember)
Sporðdrekinn er sennilega ákafasta og flóknasta stjörnumerkið og því getur verið mjög mikil áskorun að byrja „deita“ Sporðdreka og hvað þá að hefja samband við hann. Sporðdrekinn á litla sem enga þolinmæði og getur oft verið ókurteis í samskiptum og snýst í vörn ef þú spyrð hann nærgöngulla spurninga. Það besta við Sporðdrekann er að hann tekur samband sitt mjög alvarlega og leggur sig fram og líður yfirleitt best með bara þér. Sporðdrekinn er einnig mjög hjálpsamur og sjálfum sér nægur.
Bogmaðurinn (22. nóvember – 21. desember)
Bogmaðurinn hefur eitt í huga og aðeins eitt; ást. Hann er þægilegasta og hreinskilnasta stjörnumerkið. Það eru frábærir eiginleikar sem nær allir þrá í sambandi. Bogmaðurinn lendir ávallt á fótunum, sama í hvaða neikvæðu aðstæðum hann lendir í án þess að það hafi áhrif á skapið í honum. Bogmaðurinn er ævintýragjarn og því er ekki vitlaust að bjóða honum á frumlegt og óvenjulegt stefnumót ef þú vilt heilla hann. Það versta við Bogmanninn er að hann getur verið ótrúlega þrjóskur ef hann grípur eitthvað í sig.
Steingeitin (22. desember – 19. janúar)
Sennilega er innri styrkur Steingeitarinnar hennar helsti kostur. Steingeitin er ótrúlega réttsýn og tekur réttar ákvarðanir þó svo að allt sé í upplausn í kringum hana. Þetta gerir hana að mjög spennandi kosti í makaleit. Passaðu þig á að ef þú ætlar að bjóða Steingeit út þá þarf hún að fá að vita það með smá fyrirvara, hvert þú ætlar að fara með hana, með hverjum, klukkan hvað og helst hvenær hún verður komin heim. Ekki bjóða þessari týpu í óvissuferð. Varaðu þig einnig á því að ef þú ert ekki sterk og sjálfsörugg týpa þá mun Steingeitin ekki þola þig lengi.
Vatnsberinn (20. janúar – 18. febrúar)
Vatnsberinn er þekktur fyrir að hugsa út fyrir kassann sem getur verið spennandi kostur í sambandi. Það besta við að vera í sambandi með Vatnsbera er að hann tekur þig eins og þú ert, með öllum þínum göllum og reynir ekki að breyta þér. Hversu meira er hægt að biðja um í sambandi. Þú þarft samt að vera meðvitaður um það að þú þarft að gera slíkt hið sama og taka Vatnsberanum eins og hann er og þá getur skipt í hvaða merki þú ert.
Fiskurinn (19. febrúar – 20. mars)
Fiskurinn er frábær elskhugi þar sem hann er mjög þolinmóður og næmur einstaklingur. Fiskurinn er mjög umhyggjusamur og fer „all in“ í samband. Fólk elskar að hafa Fisk í sínu lífi því hann leggur mikið á sig til að gera alla í kringum sig hamingjusama. Farðu vel að Fisknum á fyrsta stefnumóti og ekki gefa honum ranghugmyndir. Ef þú ert ekki heillaður, þá skaltu koma þér í burtu strax.