Í takt við nýja tíma er hið alræmda klámblað Playboy að breyta um stefnu. Nýjasta tölublaðið sýnir Instagram fyrirsætuna Sarah McDaniel ekki alnakta þó vissulega sé myndin ögrandi. Það er í fyrsta sinn síðan 1972 að fatnaður af einhverju tagi hylur líkama fyrirsætu á þennan hátt. Sarah er í buxum og fráhnepptum topp og er myndin „snapchat-sjálfa“ sem eru svo algengar í dag.
Þrátt fyrir að margir myndu segja að forsíðan sé frekar „Lolitu“-leg má skilja það sem svo að Playboy sé að færa sig örlítið í átt að nútímanum – að verið sé að hugsa um framsetningu blaðisins á konum. Hálfnaktar, olíubornar fyrirsætur með ofurstór brjóst eru eitthvað svo…1990, ekki satt?
Getur verið að ritstjórn blaðsins sé að reyna að höfða til stærri lesendahóps með því að hlusta á „vinsældir“ femíniskra viðhorfa og stara hvössum augum á karlkyns áhorfandann í stað þess að vera viðfang?
Forsíðufyrirsætan sjálf segir í viðtali við vice.com að hún sé virkilega ánægð með að hafa fengið að taka þátt í þessu verkefni: „Mér finnst flott að Playboy sé að endurskilgreina stefnu sína. Ég held að fólk á mínum aldri sé frekar raunsætt og skilji að konur séu ekki eingöngu kynferðisleg viðföng. Það er töff að sýna frekar hvernig stelpur eru í raun og veru – að þær hafi persónuleika og séu klárar.“
Um 800 konur hafa prýtt forsíður Playboy tímaritsins í gegnum tíðina og segist Sarah vera upp með sér að vera í þeim hópi og hún sé vonandi að sjá upphafið að breyttum tímum. Aðspurð segir Sarah að henni finnist hún hafa valdið þegar hún sýnir sjálfa sig á kynferðislegan hátt sem þennan: „Konur eru öflugt afl! Þetta er bara jákvætt – allt sem hjálpar konu að koma sér á framfæri án þess að gefa afslátt af því hver hún er á að nýta sér.“
Hvað myndi Sarah segja við þá sem segja að forsíðan sé samt sem áður vanvirðing við konur og máli þær upp sem kynlífsleikföng?
„Ég myndi segja að slík staðhæfing sé í raun árás á kvenkynið yfir höfuð. Auðvitað eru ekki allir jafn frjálslegir og vilja skamma konur sem passa ekki inn í þeirra þröngsýna ramma. Kynferði er hluti af menningu okkar, stór hluti. Ég vildi óska þess að fólk myndi færa sig í átt til nútímans. Að vera stelpa árið 2016 þýðir að þú átt meiri möguleika að gera það sem þér sýnist – meiri en nokkru sinni fyrr. Það þýðir að þú ert frjáls að gera það sem þú vilt!“