Gleymdu fögrum listigörðum og litríkum páfuglum. Taktu upp trélitina og skreyttu reiðina í öllum regnbogans litum! Út er komin – ekki litabók – heldur blaðsíður með stökum blótsyrðum, sem henta pirruðum, útþvældum og öskureiðum afar vel í baráttunni við eigin skapsmuni og það í besta skilningi þeirra orða.
Ekki þarf að taka fram að litablöðin eru hönnuð með rígfullorðið fólk í huga, en samkenndin svellur fram í hverri línu, þar sem orðin FUCK og BULLSHIT koma meðal annars fyrir, blómum skrýdd og flúruð.
Höfundurinn er Sarah Bigwood, sem heldur úti lítilli verslun á ETSY og stendur nú yfir skemmtileg söfnun á Kickstarter, þar sem hægt er að leggja því metnaðarfulla verkefni lið að fjármagna prentun á heilli litabók fyrir fullorðna, sem inniheldur einungis flúruð og einkar falleg blótsyrði til að lita að vild.
Hægt er að kaupa rafræn skjöl til að hlaða niður gegnum ETSY verslun Söruh og kostar stakt blótsyrði u.þ.b. 260 íslenskar krónur en 20 blótsyrði, eða öll runan, kostar u.þ.b. 2.500 íslenskar krónur. Eins og höfundur bendir þó réttilega á, skiptir máli að prentarinn sé í ágætum gæðum og ráði við flúrið sem blótsyrðin eru skreytt með.
Bölvið má svo kaupa HÉR en að neðan má sjá sýnishorn af sóðatali Söruh, sem eflaust gagnast ófáum í baráttunni við hin eilífu blótsyrði: