Fólk í ofbeldissamböndum dvelur stundum lengur á heimili en ætla mætti því það hefur ekki að neinu að hverfa. Þetta vita þeir sem stofnuðu flutningafyrirtækið Meathead Movers í Kaliforníuríki.
Og það sem meira er: Þjónustan er frí!
Nokkrir starfsmenn MM
Einn stofnandanna, Aaron Steed, minnist eins atviks þar sem hann komst í hann krappan. Hann hafði oft hjálpað konum í sömu aðstæðum en nú kom ofbeldismaðurinn heim meðan Aaron var að flytja búslóðina. Maðurinn ásakaði hann um þjófnað og fleygði brauðrist í átt að honum sem brotnaði á vegg fyrir aftan hann. Aaroni varð ekki meint af en segir að hans starfs sé svo sannarlega þess virði.
Segir Aaron að hann taki oftast við tilfinningaþrungnum samtölum fólks, langoftast kvenna, á öllum tímum sólarhingsins: „Oft er mikill grátur. Maður tekur inn á sig að heyra fólk í svona mikilli geðshræringu – örvænting og sorg veldur því að fólkið hringir. Í þannig aðstæðum sér maður alvöru vandans mjög fljótlega. Eftir því sem verkefnunum fjölgaði sjáum við að við vorum hreinlega að bjarga mannslífum.“
Vildi ekki taka við greiðslum
Aaron og bróðir hans stofnuðu fyrirtækið meðan þeir voru enn í skóla og eru nú til fjórar skrifstofur í Kaliforníu. Stuttu eftir að þeir hófu rekstur varð þeim ljóst að þeim leið afar illa að láta fólk borga fyrir að láta bjarga sér úr ömurlegum aðstæðum. Þannig það varð stefna fyrirtækisins: Að láta fólk ekki borga fyrir þjónustuna.
Starfsmenn fyrirtækisins eru mestmegnis háskólanemar og hafa þeir orð á sér fyrir að vera nærgætnir og almennilegir: „Þetta snýst ekki svo mikið um hvernig við flytjum húsgögnin heldur hvernig við komum fram við fólkið og hvernig því líður í kringum okkur. Það skiptir okkur öllu máli.“
Meathead Movers eru í nánu samstarfi við skýli fyrir þolendur ofbeldis og fá starfsmenn m.a. þjálfun á þeirra vegum: „Fólk hefur samband við athvarfið sem vísar þeim á okkur,“ en þeir hvetja önnur fyrirtæki til hins sama – að hafa samband við skýlin til að veita þolendum fría þjónustu.
Aaron man eftir öðru atviki sem hafði mikil áhrif á hann: „Í eitt skipti sem við komum heim til konu með börnin sín var hún búin að pakka öllu. Við hjálpuðum henni og börnunum að flytja í annað húsnæði hinu megin í sýslunni. Að því loknu þakkaði hún okkur innilega með tárin í augunum. Hún hefði aldrei haft efni á að flytja. Við komum henni og börnunum í öruggt skjól.“
Aaron segir að eftir því sem hann eldist og þroskast sjái hann hversu mótandi áhrif þessi atvinna hefur á nemendurna sem vinna hjá honum: „Ég vona að þetta breyti skynjun þeirra á þá sjálfa og að sjá hversu mikil áhrif þeir geta haft til góðs og hjálpa fólki í neyð.“
Fyrirtækið hefur komið víða við á þessum árum en ofbeldi fer ekki í manngreinarálit: „Við höfum flutt í öllum hverfum, frá þeim ríkustu til þeirra fátækustu. Skiptir engu. Ofbeldið er alls staðar.“
Heimild: LaTimes.com