KVENNABLAÐIÐ

PORNHUB: Stærsta klámveita heims LOKAR fyrir dreifingu hefndarkláms

Hefndarklám; ekki bara ljósmyndir af stúlkum undir lögaldri sem berað hafa brjóstin og sent sínum heittelskuðu. Hefndarklám getur tekið á sig óteljandi myndir og innihaldið upptökur af ástarleikjum hjóna, samkynhneigðri reynslu eða jafnvel nektarmyndum sem ætlað er að niðurlægja einstaklinginn og sýna þann sama í vandræðalegu eða afkáralegu ljósi.

Google reið á vaðið fyrir skömmu og setti upp tilkynningaveitu sem ætlað er að taka á móti ábendingum um vefsíður sem innihalda skaðlegt hefndarklám. Þannig getur leitarrisinn, þó ekki sé hægt að taka síðuna niður, afmáð leitarniðurstöður með öllu og gert þannig erfiðara um vik en ella að finna síðuna eftir hefðbundnum leiðum.

Nú hefur Pornhub, eitt stærsta klámsafn á netinu í dag, sömuleiðis sett fótinn í gólfið. Klámrisinn hefur þannig gert notendum sínum auðveldara fyrir að tilkynna hefndarklám og er kominn upp sérstakur valmöguleiki sem gerir hverjum sem er kleift að tilkynna niðurlægjandi myndbönd af þeim sömu undir þeim formerkjum að efnið verði tafarlaust fjarlægt af vefnum.

Svona lítur valmöguleikinn út á vef Pornhub: 

Screen_Shot_2015-10-13_at_10.25.10_AM.0

Í stuttu máli sagt; birtist myndband af þér á Pornhub, sem deilt hefur verið án þinnar vitundar (og án samþykkis) getur þú (eða sá sem um ræðir) smellt HÉR og óskað þess að myndbandið verði fjarlægt eins og skot. Þú þarft að gefa upp fullt nafn, netfang og deila vefslóðinni sjálfri en þú þarft ekki að taka ljósmynd af skilríkjum, því eins og Corey Price, framkvæmdarstjóri klámveitunnar sagði í viðtali við vefmiðilinn The Verge, er nægilega sársaukafullt og niðurlægjandi að lenda í netníði af þessu tagi, þó ekki bætist sú skömm ofan á annað að þurfa að taka ljósmynd af ökuskírteini og senda tæknideild.

Þetta kann að hljóma hjákátlega og hlægilega við fyrstu sýn, en fórnarlömb hefndarkláms eru á öðru máli. Að taka upp og deila myndbandsupptöku af einstakling án hans eða hennar vitundar í þeim eina tilgangi að niðurlægja, er alvarlegt athæfi og því er brugðist hratt og örugglega við, fari slíkt efni í umferð á netinu.

Þá er ekki nægilegt að netrisar bjóði upp á þann möguleika að fjarlægja umrætt efni, heldur þurfa upplýsingar sem lúta að Fyrstu Hjálp ef svo má að orði komast, vera aðgengilegar sem flestum á netinu og það á öllum tungumálum heims.

Því fyrr sem brugðist er við, því meiri líkur eru á því að efnið hverfi úr umferð.