Ég hef alla tíð álitið sjálfa mig sem fordómalausa, blíðlynda konu sem er vinur vina sinna og bara svolítið góð við náungann.
En það er ein manneskja í heiminum sem ég hef farið virkilega illa með, andlega og líkamlega. Manneskja sem ég hef skammast mín fyrir og ég veit eiginlega ekki út af hverju.
Eins og þið hafið eflaust getið ykkur til um núna þá er manneskjan ég sjálf.
Þetta er í raun ótrúlega þversagnarkennt og þessar örfáu setningar hér fyrir ofan lýsa mjög afbakaðri sjálfsmynd.
Ég hef alltaf verið þunglynd kona, tekið nokkur ár í einu og verið ferlega góð inn á milli. En ég versnaði eftir því sem ég eltist og þau eru þó nokkur árin sem ég man eiginlega ekkert eftir. Mér var einnig sagt einhverjum árum seinna að á þessum óminnis árum hafi ég reynt að fyrirfara mér. Ég man ekkert eftir því.
Ég reyndi alls kyns lyf og ýmist virkuðu þau einungis í smátíma eða alls ekki. Aðrar stundir voru svolítið …. ja, skulum við segja …. skrítnari? Ég varð mjög úthverf og kynntist fólki, hægri, vinstri. Breytti húsinu á þriggja mánaða fresti og flutti fulla 400 lítra frystikistuna á milli herbergja alein eins og að drekka vatn….. nokkrum sinnum. Þreif húsgögnin með eyrnapinnum. Fór að leita að viðtölum og myndum af sjálfri mér í blöðunum, sem aldrei höfðu verið tekin. Allt hafði meiningu fyrir mig, fannst allt vera skilaboð til mín. Úr sjónvarpinu, útvarpinu og blöðum. Fór í langa bíltúra ein til þess að geta framkvæmt allskonar hljóð og talað með hinum og þessum röddum sem ég varð að koma út úr mér.
En einhverra hluta vegna var ég samt alltaf meðvituð um að þetta væru ekki eðlilegar hugsanir og sagði engum manni frá þessu.
Eftir að ég hafði verið eins og jójó í skapinu í einhver ár, fékk ég taugaáfall. Það læddist aftan að mér á mörgum mánuðum og mig grunaði ekki einu sinni hvað ég var illa á mig komin. Skildi við manninn minn mitt í öllu kjaftæðinu og dundaði mér við skandala um veturinn. Svaf ekki í nokkrar vikur né borðaði og missti t.d. 10 kg á 3 vikum.
Ég átti pantaða viku á heilsustofnuninni í Hveragerði þetta vor 2006, sem var kærkomin þar sem við fjölskyldan lentum í bílslysi uppi á heiði nokkrum vikum áður og ég var ein taugahrúga eftir það.
Þegar þangað var komið var ég virkilega illa farin og hamstraði lyf. Ég var farin að undirbúa brottför mína í annað skiptið á ævinni og gerði alls kyns áætlanir um fjármál fjölskyldunnar og þar fram eftir götunum. Þrátt fyrir að ég hafi náð að halda þessu leyndu þá sá læknirinn minn í Hveragerði í gegnum mig og sleppti mér ekki heim eftir þessa viku sem ég átti að vera þarna. Það fór svo að ég var þarna í 3 vikur eða þar til læknirinn komst að þessu öllu og ákvað að senda mig inn á geðdeild. Ég var nú ekkert alveg á þeim buxunum þannig að honum þótti það nú vissara að senda mig með öryggisverði.
Læknirinn á Lansa vildi endilega leggja mig inn en ég hélt nú síður. Það voru bara geðsjúklingar og skrítið fólk sem fór á geðdeild. Ég átti líka helling af börnum sem þurfti að hugsa um og þar fram eftir götunum. Enn ein þversögnin. Ég sem sá því fátt til fyrirstöðu að binda enda á líf mitt, notaði nú börnin sem afsökun til að þurfa ekki að leggjast inn.
Ég þverneitaði, fór heim og síðan aftur austur yfir heiði daginn eftir til að sækja allt dótið mitt sem ég hafði skilið eftir. Hitti lækninn sem varð alveg brjálaður að sjá mig þarna. Hann hafði verið að senda mig á spítala og þarna var ég bara komin enn á ný. Hann tók af mér loforð um að fara aftur upp á Lansa og var ég send í annað sinn yfir heiðina með öryggisverði sem í þetta skiptið fylgdi mér inn og sá til þess að ég færi í réttar hendur.
Núna stóð ég við loforð mitt við lækninn og fór inn á geðdeild. Var þar í heilan mánuð í allskonar prófum og reyndir voru ýmsir lyfjakokteilar. Það kom í ljós eftir einhvern tíma að ég er með geðhvörf og hafa þau mjög sennilega farið í gang á unglingsaldri.
Síðan þarna hefur mér heldur betur farið fram og ég hef lært að þekkja merkin. Bæði þegar ég fer upp og þegar niðursveifla er á leiðinni.
Mér líður nefnilega ekki vel á lyfjum og er því án þeirra mestan hluta af tímanum.
Ég þarf ekki aðstoð með lífið þegar ég fer í maníu því hún er mér ekki hættuleg, hins vegar geta niðursveiflurnar verið það og þá fæ ég aðstoð ef þurfa þykir. Þær eru samt grynnri en áður.
Ég hef aldrei skrifað um þennan part lífs míns áður, því ég er haldin fordómum gagnvart geðsjúkdómnum og sjálfri mér. Mér hefur hins vegar fundist alveg frábært að lesa annarra skrif þegar þeir opinbera sig svona.
Og hugsað:
Gott hjá henni!