Kæra Deitbók –
Ég hef aldrei verið mikið fyrir dýr og þá sérstaklega ekki hunda. Dýr hafa bara aldrei höfðað til mín. Þessu litla leyndarmáli held ég yfirleitt fyrir sjálfa mig þar sem mér finnst þetta hljóma eins og ég sé bara ekkert mjög góð manneskja. Að hata dýr virðist vera eins og að hata smábörn, sumar og blóm.
En því miður finnst mér bara hundar illa lyktandi og ég þoli ekki þegar allt er í hárum. Mér finnst þeir oft illa uppaldir og ég veit ekkert verra en hund sem geltir á mig, bara vegna þess að ég er á sama stað og þeir og eigendur gera lítið til að ala þá upp.
Eitt sinn viðurkenndi ég þetta fyrir einum sem ég var að hitta svona smávegis. Hann átti engan hund þá. Ég sagði honum kannski ekki hversu mikið mér mislíkar dýr, en samt alveg þannig að það var ljóst að ég myndi sko aldrei fá mér hund.
Og hvað haldi þið að gerist stuttu eftir það?
Hann fær sér hund!
Og ekki hvaða hund sem er heldur svona litla, hárlausa rottu sem geltir út í eitt. Eftir það fer hann að senda mér myndir af hundinum. „Finnst þér hann ekki sætur?“ Ég horfi á myndirnar af þessu litla kvikindi með útstæðu eyrun og spyr hann síðan af hverju hann hafi fengið sér svona lítinn hund?
Ég veit að það er rangt af mér að finnast það, en mér finnst pínlítið skrýtið þegar karlmaður ákveður að fá sér Chiahuahua. Það er einhvern veginn ekki sexí. Að sjá mann með stóran Doberman eða Rottweiler með tattoo og í hlýralausum … mmmm … það virkar fyrir mig, þrátt fyrir hundinn! Chiuhuahua? Not so much.
Þarftu ekki veski í stíl við þennan hund?
Svo nú fer ég að efast um það hvort ég vilji hitta hann aftur. Ef ég held áfram að hitta hann þarf ég þá ekki að sætta mig við hundinn líka? Langar mig að vera með einhverjum sem á hund sem ég þyrfti svo mögulega að hugsa um líka? Ég sé sjálfa mig fyrir mér, á illa lyktandi heimili með svona límrúllu við útidyrahurðina sem ég þarf að rúlla fötin mín með áður en ég fer í vinnuna. Ég sé sjálfa mig fyrir mér vakna við hundinn uppi í rúmi, sleikjandi á mér andlitið eða hoppandi upp á mig þegar ég kem heim, bara til að gera gat á sokkabuxurnar mínar. Og mér þykir vænt um sokkabuxurnar mínar, enda ekki ódýrar!
Svo áhugi minn sígur hratt niður á við. Er það rangt af mér, eða bara raunsætt? Hann vissi að ég fílaði ekki hunda, en hér er ég byrjuð að fá símtöl frá honum þar sem hann setur tólið upp við eyrað á hundinum og ég á að tala við hann! Hvað á ég að segja við hundinn? Gelta eða spyrja hann hvernig hann hefur það?
Nei, þetta er ekki að gera neitt fyrir mig!
Svo ég hætti að svara honum eins mikið og ég gerði áður.
Hey, ný vinabeiðni á Facebook! Uuuhhhh … frá hundinum þínum? Bjóstu til sér síðu fyrir hundinn þinn? Og uppfærðir sambandsstöðu hans svo hann sé skráður í samband með hund fyrrverandi kærustu þinnar?
Nei núna er ég alveg búin að ákveða að hlaupa héðan og það hratt.
Stuttu síðar eru það ekki bara hundarnir sem eru í sambandi, heldur eigendurnir taka saman aftur og trúlofa sig. Greinilegt að allir geta fundið einhvern við sitt hæfi og ég bara get ekki annað en samglaðst þeim og séð fyrir mér tvöfalt brúðkaup þar sem hundarnir eru í eins brúðarfötum og eigendurnir sem ganga á eftir þeim að altarinu.
Voff voff!
– Vaka Nótt