Silfurrefurinn og stórleikarinn Richard Gere, sem hvað þekktastur er fyrir leik sinn í rómantísku gamanmyndinni Pretty Woman, fagnar 66 ára afmæli sínu í dag, 31 ágúst.
Samleikur þeirra Juliu Roberts þeytti þeim báðum, sem þá voru kunnir leikarar, upp á stjörnum skrýddan himinn kvikmyndasögunnar þegar myndin kom út árið 1990 og er frammistaða þeirra enn almenningi svo minnisstæð að Today Show fékk aðalleikara myndarinnar til að koma saman fyrr á þessu ári til að rifja upp eftirminnilegustu atriðin.
Umfjöllun Today Show má sjá hér að neðan í fullri lengd, en færri vita þó að Richard hefur löngum helgað sig mannréttindabaráttu af ýmsum toga. Leikarinn kynþokkafulli með silfurgráa makkann hefur þannig verið ötull talsmaður HIV smitaðra um langt skeið og beitt sér fyrir friðarumleitunum víða um heim auk þess sem Gere er búddatrúar. Hann er enn virkur í kvikmyndaheiminum. Nýjasta verkefni Gere mun vera kvikmynd sem fjallar um fólk sem býr á götunni og ber nafnið Time Out of Mind, en Gere bæði framleiðir og fer með hlutverk í myndinni, sem frumsýnd verður 11 september nk.
Hér má hins vegar sjá endurfundi aðalleikara rómantísku gamanmyndarinnar Pretty Woman, sem komu saman í sjónvarpssal þegar 25 ár voru liðin frá frumsýningu myndarinnar, þar sem má sjá að Julia Roberts, mótleikkona Gere – hefur engu gleymt: