Texti: Svava Jónsdóttir – Myndir: Gunnar Bjarki og Thelma Arngrímsdóttir – Förðun: Björg Alfreðsdóttir með vörum frá Terma Snyrtivörum
Greta Salóme Stefánsdóttir er gift kona. Nýgift kona. Segist aldrei hafa verið hamingjusamari enda líka nýbökuð móðir. Hún segir að fyrir rúmu ári síðan hefði hún ekki getað trúað þessu: Brúðkaup og barn. Alvarleg veikindi í fjölskyldunni urðu þess valdandi að hún sá hlutina í öðru ljósi. „Ég hefði ekki trúað því ef einhver hefði sagt fyrir rúmu ári síðan að pabbi ætti eftir að veikjast og að við Elli værum komin með barn og gift. En svo er lífið þannig að það kemur svolítið aftan að manni og ég er hamingjusamari í dag en ég hef nokkurn tímann verið.“ Hvert er uppáhaldstónskáld fiðuleikarans, söngkonunnar og tónkáldsins? Shostakovítsj. Dmítríj Dmítríjevítsj Shostakovítsj. „Tónlistin hans er svo á undan sínum samtíma. Hún er svo algjörlega yfirdrifin en á sama tíma svo mínímalísk að mörgu leyti; einföld en svo kraftmikil. Það er engin tónlist sem nær mér jafnvel og tónlist Shostakovítsj.“
Greta Salóme Stefánsdótir gekk í það heilaga 29. apríl. Eiginmaðurinn er Elvar Þór Karlsson. Hún er enn á rósrauðu skýi örfáum dögum eftir brúðkaupsdaginn. Varla komin niður á jörðina.
„Við Elli ákváðum í febrúar að gifta okkur og vorum fyrst að pæla í að fara bara til prests og hafa bara nánustu fjölskyldu en svo vatt þetta upp á sig og okkur langaði að gera meira úr þessu. Við vorum svo með frekar lítið brúðkaup; gestirnir voru um 55 og voru það nánustu ættingjar og vinir.“
Þau ákváðu að gifta sig í Mosfellskirkju en þar giftu foreldrar Gretu Salóme sig fyrir áratugum síðan og var móðir hennar í gullfallegum brúðarkjól. „Ég hafði pælt í í hverju ég ætti að vera á brúðkaupsdaginn og þegar ég sagði mömmu, pabba og systur minni frá væntanlegu brúðkaupi þá spurði systir mín, Sunna, hvort mamma væri ekki með gamla brúðarkjólinn sinn heima. Mamma sagði að hann væri orðinn 50 ára gamall og gulur og að ég myndi áreiðanlega ekki vilja vera í honum. Ég nennti heldur ekki að máta hann. Systir mín var alveg föst í því að ég myndi máta hann þannig að mamma náði í kjólinn og við urðum öll orðlaus þegar ég var komin í hann. Hann er í fyrsta lagi eins og klæðskerasaumaður á mig og í öðru lagi er hann gullfallegur. Það var eins og þetta væri skrifað í skýin. Maðurinn minn sagði strax að þetta væri kjóllinn. Það væri engin spurning. Við vorum öll jafnhissa á þessu. Ég lét síðan gera kjólinn svolítið að mínum; ég lét bæta við slóðann, það voru settir steinar á hann og hann fór í hreinsun og varð hvítur. Þessi kjóll eignaðist annað líf. Þetta var allt ótrúlegt. Það var eins og það væri búið að skrifa þetta fyrir fram.“
Greta Salóme, sonur hennar, Bjartur Elí, og móðir hennar fóru að morgni brúðkaupsdagsins til Sunnu, sem býr í nágrenninu, þar sem Dagný Ósk, hárgreiðslumeistari og vinkona Gretu Salóme, sá um brúðargreiðsluna og Margrét Magnúsdóttir sá um förðunina. „Elli tók sig til heima hjá okkur með pabba sínum og vinum.“
Greta Salóme segir að afhöfnin í Mosfellskirkju hafi verið sérstök og falleg. Brúðhjónin fóru með heit til hvors annars. Séra Helgi Guðnason gaf brúðhjónin saman og Ragnheiður Gröndal og félagar í Kór Lindakirkju sáu um sönginn. Á meðal laga sem voru sungin við athöfnina voru Ástarþula, A Million Dreams og Lean on Me.
Tíminn dýrmætur
Greta Salóme segir að brúðkaupsdagurinn sé einn besti dagur lífs síns.
„Pabbi minn fékk heilablóðfall í mars í fyrra í flugi til Danmerkur frá Grænlandi þar sem hann hafði verið að vinna, en hann er byggingameistari, og þegar við fjölskyldan flugum út til þess að vera hjá honum þá vissum við ekki hvernig þetta myndi enda. Þegar pabbi lá á gjörgæslunni þá lofaði hann mér að hann myndi ganga með mér inn kirkjugólfið þegar ég myndi gifta mig. Og hann náði því. Það var ekkert fyrirséð að það myndi geta gerst eða að hann gæti yfirleitt gengið aftur. Þetta gerði þetta ennþá dýrmætara og svo líka þessi tenging að gifta okkur í kirkjunni sem mamma og pabbi giftu sig í og í kjólnum hennar mömmu. Þetta var allt svo fallegt og „meant to be“. Athöfin var bara svo dásamleg og veðrið var svo fallegt.“
…
Hægt er að lesa viðtalið í heild sinni inn á síðu Birtíngs www.birtingur.is
Birtíngur er með stútfullt safn af íslensku efni, viðtölum og greinum.
Öll blöð Birtíngs eru á einum stað. Með áskrift að vefnum færðu aðgang að fjölbreyttum og áhugaverðum greinum og viðtölum.
Frá aðeins 1.890 kr á mánuði og engin skuldbinding.
www.birtingur.is