KVENNABLAÐIÐ

Linda Pé losaði sig við skömmina og hjálpar konum að byggja sig upp

Linda Pétursdóttir rak Baðhúsið, heilsulind fyrir konur, í tuttugu ár, en sá sig tilneydda til að loka því árið 2014. Eftir áfallið í kringum lokunina fór Linda að læra heilsuþjálfun og í dag hjálpar hún konum að byggja upp sjálfstraust og láta af sjálfsniðurrifi. Hún segir að konurnar sem eru í þjálfun hjá henni tengi oft við hana því hún sé sjálf búin að fara í gegnum allan andskotann. Það hafi þó komið henni á þann góða stað í lífinu sem hún er á í dag. Allt snúist þetta um hvað við kjósum að hugsa og hvernig við ætlum að vinna okkur úr erfiðleikunum. Eitthvað betra bíði handan hornsins, svo framarlega sem við gefumst ekki upp á leiðinni.

„Ég hef farið í gegnum alls kyns sársauka með því að þurfa að takast á við hin ýmsu verkefni í lífinu en það eru þau sem hafa komið mér á þann stað sem ég er á í dag,“ segir Linda þar sem við sitjum á kaffihúsi í Garðabænum einn góðviðrisdag í júlí.

Linda rak Baðhúsið, heilsulind fyrir konur, í tuttugu ár en í desember 2014 sá hún sig tilneydda til að hætta rekstrinum. Í yfirlýsingu sem hún skrifaði á Facebook við þau tímamót sagði Linda meðal annars að ástæðan fyrir lokuninni væri sú að rekstur Baðhússins eftir flutning á nýjan stað í Smáralind hefði einfaldlega ekki gengið upp í ófullnægjandi húsnæði sem afhent var of seint og það hefði verið mikið ónæði vegna iðnaðarmanna með hamra, borvélar og stórvirkar vinnuvélar sem sköpuðu alls ekki afslappað andrúmsloft sem ætti að einkenna stað eins og Baðhúsið. Hún segir það hafa verið afskaplega erfiða ákvörðun að binda endi á reksturinn. „Hjarta mitt var í molum. Það var auðvitað erfitt að kveðja það sem hafði verið ævistarfið mitt til tuttugu ára og ég fann til mikils samviskubits gagnvart viðskiptavinum mínum og starfsfólkinu mínu. Ég hafði lagt allt mitt undir og það var í raun bara hrifsað frá mér. Það var líka erfitt fyrir einstæða móður að standa allt í einu uppi atvinnulaus og vita ekki hvað framtíðin bæri í skauti sér eða hvernig ég hreinlega ætti að geta komist í gegnum þetta. Hvernig ætlaði ég að skapa dóttur minni öryggi þegar búið var að taka allt í burtu?“

Þurfti að ákveða hvernig hún kæmist í gegnum daginn

Linda segir að til að byrja með hafi hún helst viljað sofa allan daginn, hún hafi verið algjörlega búin á því. Það hafi verið erfitt að horfa fram á veginn og reyna að ímynda sér að eitthvað gott gæti komið út úr þessu. „Ég þurfti að vinna mikið í hugsunum mínum og hreinlega ákveða með sjálfri mér hvernig ég ætlaði að fara á fætur á morgnana og komast í gegnum daginn. Ég byrjaði á að setja mér það pínulitla markmið að fara út í göngutúr með hundinn minn á hverjum einasta degi. Alveg sama þótt ég nennti því ekki eða upplifði þreytu og bugun. Eftir því sem á leið og ég fann að ég var að standa með sjálfri mér og fara eftir eigin ákvörðunum fór ég smám saman að byggja upp sjálfstraustið á ný, hætta sjálfsniðurrifinu og losa mig við skömmina sem fylgdi þessu skipbroti.“

Hún hristir höfuðið þegar blaðamaður segir að þetta hafi varla verið auðveldur tími. „Nei, þetta tók verulega á en í dag er ég þakklát fyrir þessa reynslu því ég er komin á svo góðan stað og mér líður svo vel,“ segir hún brosandi. „Það er alltaf hægt að draga einhvern lærdóm af erfiðleikunum. Þegar maður er búinn að ganga í gegnum sársaukann áttar maður sig á því af hverju þetta gerðist. Ég veit að þetta var alltaf inni á planinu hjá mínum æðri mætti; þetta átti að gerast. Af hverju veit ég það? Af því að þetta gerðist. Síðan er bara að nýta reynsluna og þekkinguna sem maður fær í gegnum erfiðleikana til að koma sér sífellt á betri stað. Þetta snýst allt um það hvað við kjósum að hugsa og hvernig við ætlum að vinna okkur út úr þessum aðstæðum og erfiðleikunum. Eitthvað betra bíður nefnilega handan hornsins, svo framarlega sem við gefumst ekki upp á leiðinni.“

„Hvernig ætlaði ég að skapa dóttur minni öryggi þegar búið var að taka allt í burtu?“

 

 

This image has an empty alt attribute; its file name is Linda-Petursdottir-4-728x1024.jpg

Að verða fyrir ofbeldi hafði mikil áhrif

Linda segist sjálf hafa farið til hinna ýmsu þerapista, sálfræðinga og geðlækna hérna í denn en það sem hafi hjálpað henni langmest í sjálfsvinnunni hafi verið svokölluð lífsþjálfun. „Ég tengdi strax vel við það. Í gegnum árin hef ég lesið alls konar sjálfshjálparbækur og síðustu ár hef ég mikið hlustað á hljóðbækur og hlaðvörp. Ég geng tíu þúsund skref á hverjum degi og í göngutúrunum hlusta ég mest á uppbyggjandi efni. Ég er sólgin í alla þekkingu sem snýr að því að byggja okkur upp sem manneskjur, hvort sem það varðar lífsstíl, vellíðan, viðskipti, fjármál og svo auðvitað dýravernd. Lífsþjálfunin er svo mögnuð og kennir okkur að verða betri í dag en í gær en hún kennir okkur líka að gera svo magnaðar breytingar á lífi okkar í gegnum hugsanastjórnun. Ég hef í rauninni verið að læra lífsþjálfun alveg stanslaust frá því að Baðhúsið sigldi í þrot. Líklega byrjaði þó sjálfsvinnan mín þegar ég fór fyrst í gegnum stóru erfiðleikana, heimilisofbeldi, af hálfu fyrrverandi kærasta míns fyrir áratugum síðan.“ Linda þagnar um stund.

„Að verða fyrir ofbeldi, bæði líkamlegu og andlegu, hafði mikil áhrif á mig,“ heldur hún áfram, „og því fylgdi skömm. Maður fer að rífa sjálfan sig niður: „Ég hefði nú átt að vita betur.“ Það felst mikið frelsi í því að ná að vinna sig frá skömminni. Viðbrögð margra voru að skilja ekki hvernig ég, svona sjálfstæð og sterk kona, gæti látið þetta yfir mig ganga. En það fólk skilur þá ekki hvernig ofbeldið virkar og hvaða áhrif það hefur á þann sem fyrir því verður. Ég held að konurnar sem eru í þjálfun hjá mér tengi oft við mig því ég er búin að fara í gegnum allan andskotann. Ég er ekkert öðruvísi en annað fólk og sjálfsmyndin mín hefur líka verið brotin. En í dag … ég er að verða 52 ára á árinu og ég held að mér hafi bara sjaldan liðið betur. Við konur erum sko ekkert búnar þegar við komumst á miðjan aldur. Við erum bara rétt að byrja! Við eigum allar fullt af möguleikum á að gera svo stórkostlega hluti í lífi okkar en þá verður sjálfsmyndin okkar að vera í lagi og ég vil hjálpa konum við að byggja hana upp því öll umgjörð lífs okkar skapast út frá okkar eigin sjálfsmynd.“

„Ef ekki nú, þá hvenær?“

This image has an empty alt attribute; its file name is Linda-Petursdottir-1-683x1024.jpg

Eftir áfallið í kringum lokun Baðhússins fór Linda að læra heilsuþjálfun. Hún segist fyrst hafa ákveðið að skella sér í það nám til að halda sér gangandi og hafa eitthvað fyrir stafni. Þegar því námi lauk hafi hún farið í BA-nám í heimspeki, hagfræði og stjórnmálafræði. „Margir áttu von á því að ég færi að læra viðskiptafræði en ég ákvað að læra eitthvað sem var alveg nýtt fyrir mér. Mig langaði líka að sanna fyrir sjálfri mér að ég gæti þetta. Ég hef alltaf verið mjög fylgin mér og fer alltaf á eftir draumunum mínum. Ég trúi því staðfastlega að allt sé hægt, sé nægur vilji fyrir hendi og svo framarlega sem maður leggur á sig vinnu til að ná markmiðum sínum. Við erum allar gæddar sérstökum hæfileikum sem aðeins við höfum og það er okkar að nýta þá okkur í hag og hafa þor til að elta drauma okkar og þrár. Ef ekki nú, þá hvenær?“Að BA-náminu loknu segist Linda ekki hafa séð fyrir sér að læra meira en ekki liðu nema sex mánuðir þar til hún var farin að læra lífsþjálfun, með þyngdartap sem sérgrein. Hún útskrifaðist úr því námi í fyrravor og byrjaði strax að vinna við það að hjálpa konum að breyta lífi sínu til hins betra. „Ég hef gríðarlega ástríðu fyrir starfinu mínu og mér finnst dásamlegt að geta veitt konunum von og gefa þeim ráð til að bæta líf sitt. Við konur erum svo oft í sjálfsniðurrifi; oft er þetta bara einhver endurtekning á hugsunum sem við spilum kannski ómeðvitað í kollinum á okkur: „Ég er svo ómöguleg, ég get þetta aldrei, hvað er ég að reyna enn eina ferðina, þetta hefur ekki gengið svo vel hjá mér hingað til“. Þar kemur mín vinna og sérfræðikunnátta inn. Ég hjálpa þeim að byggja upp sjálfstraustið og láta af þessu sjálfsniðurrifi. Þegar við byrjum að byggja undir okkar eigin stoðir, hverjar við erum, fyrir hvað við stöndum og hvað okkur langar að gera í lífinu, þá fylgir allt annað í kjölfarið.“

„Líklega byrjaði þó sjálfsvinnan mín þegar ég fór fyrst í gegnum stóru erfiðleikana, heimilisofbeldi, af hálfu fyrrverandi kærasta míns fyrir áratugum síðan.“

Var grönn en aldrei nógu grönn

Linda segist sjálf hafa glímt við aukakílóin. „Það byrjaði þegar ég fór sem skiptinemi til Bandaríkjanna í kringum sautján ára aldurinn. Ég ólst upp við að borða fisk fjórum, fimm sinnum í viku og drekka mikið vatn en þarna úti var það oft McDonalds og ís í eftirrétt þannig að ég kom heim eftir skiptinemaárið tíu kílóum þyngri. Ég var nú reyndar bara alsæl með mig en var þá beðin um að taka þátt í Fegurðarsamkeppni Íslands og sagt að grenna mig og það skyldi gerast hratt. Mér var ráðlagt að fara á hinn svokallaðan kálsúpukúr.“ Linda hlær og hryllir sig.

„Ugh, ég fékk svo mikið ógeð að ég gat ekki fundið lyktina af soðnu káli í örugglega fimmtán ár á eftir. Seinna starfaði ég sem alþjóðleg fyrirsæta erlendis og þrátt fyrir að vera alveg tággrönn var ég samt aldrei nógu grönn. Ég er með brjóst og mjaðmir og það þótti yfirleitt of mikið. Svo er ég með liðagigt og bólgna stundum upp og verð þrútin þannig að ég hef oft verið að burðast með fimm til tíu aukakíló, þótt ég sé það ekki í dag því ég nýti mér eigin verkfæri með hugsanastjórnun. Ég hef líka verið að fasta með hléum sem ég er mjög hrifin af. Að fasta með hléum gefur líkamanum tíma til að lækka insúlínið svo hann getur farið að nýta eigin fituforða sem orku. Þetta kenni ég líka konunum á námskeiðunum mínum og kenni þeim að nota verkfæri sem kallast hungurkvarðinn til að ákvarða hvort hungrið sé tilfinningalegt eða líkamlegt. Hungurkvarðinn er magnaður og lesendur geta hlustað á hlaðvarpsþátt hjá mér, Hlaðvarpið Lífið með Lindu Pé, þar sem ég útskýri nánar allt um hungurkvarðann.“

Námskeiðin kennir Linda á netinu og hún segir að sig hafi alltaf dreymt um að geta unnið svona, hvar sem er í heiminum í rauninni, og verið sinn eigin herra. „Ég er mjög oft spurð að því hvort ég ætli ekki að opna Baðhúsið aftur en nei, þeim kafla í lífi mínu er lokið. Ég skil hins vegar konurnar mjög vel sem sakna þess og ég sakna þess að vissu leyti líka. En nú er annar kafli í lífi mínu. Lífið með Lindu Pé, eins og prógrammið heitir, er dásamlegt samfélag kvenna á aldrinum 30 upp í 78 ára. Þessar konur eru svo æðislegar og jákvæðar og svo innilega tilbúnar að gera breytingu á lífi sínu. Margar eru búnar að losa sig við 20 til 25 kíló sem er vissulega bónus en dásamlegast er að sjá þær jákvæðu breytingar sem hafa orðið á lífi þessara kvenna. Þyngdartapið er bara skemmtilegur aukavinningur. Í haust ætla ég að bæta við efni inn í prógrammið er viðkemur stíl og umhverfi því það hefur líka mikil áhrif á sjálfsmyndina okkar. Bara það til dæmis hvernig við klæðum okkur og berum okkur skiptir máli. Gengurðu í götóttum nærfötum af því að þér finnst þú ekki eiga betra skilið? Hvað með að henda þeim bara og eiga falleg undirföt sem þér líður vel í? Þú ert að þessu fyrir sjálfa þig. Hafðu þig til og auktu glæsileikann í lífinu þínu. Losaðu þig við drasl og fatnað heima hjá þér, sem þú notar ekki eða er úr sér gengið og mundu að sitja bein í baki. Klæddu þig upp á fyrir sjálfa þig og hafðu huggulegt og snyrtilegt heima hjá þér. Auktu glæsileikann í lífi þínu því þannig byggirðu líka upp sjálfsmyndina þína.“

„Sigur var svo fjarri mér“

Við vendum okkar kvæði í kross og víkjum aftur að árinu þegar líf Lindu gjörbreyttist. Árið 1988 var hún kjörin ungfrú Ísland og síðar sama ár var hún kjörin ungfrú heimur, og ungfrú Evrópa í sömu keppni. Blaðamaður kemur upp um einlæga aðdáun sína á Lindu og rifjar upp augnablikið sem Linda, tæplega átján ára, vann ungfrú heim. Í minningunni sér blaðamaður enn fyrir sér svipinn á ungfrú Venezúela þegar úrslitin voru kunngjörð; þau komu ungfrúnni greinilega mjög á óvart og af svipnum á henni að dæma var hún líklega ekkert allt of glöð fyrir hönd stúlkunnar frá Íslandi. Linda hlær að upprifjuninni. „Nei, hún var ekki mjög hress með þetta. Hún var komin til að sjá og sigra, og það var auðvitað bara gott, á meðan ég tók þessu ekki jafnalvarlega. Veðbankarnir voru búnir að spá okkur tveimur efstu sætunum og mér sigri en ég var ekkert að pæla í því, sigur var svo fjarri mér. Eftir á sá ég samt hvað hún hafði í rauninni verið að leika mikið hlutverk og með mikinn front allan tímann, því daginn eftir úrslitin, þegar ég er að setjast inn í Rolls-Royce með einkabílstjóra og blaðamenn og ljósmyndarar allt í kring, sé ég ungfrú Venezúela standa fyrir utan hótelið, ótilhafða og ómálaða með stóran bangsa í fanginu. Ég man að ég hugsaði: Vá þetta er allt önnur ímynd en hún er búin að vera með allan tímann í keppninni.“

Hafið þið stelpurnar úr keppninni haldið sambandi?

„Já, samfélagsmiðlarnir hafa auðvitað gert okkur það aðeins auðveldara. Ég hef þó ekki verið í miklu sambandi við þær nema ungfrú Kóreu, sem varð í öðru sæti, og ungfrú Holland. Hún komst ekki í úrslit en árið eftir ungfrú heim vann hún ungfrú alheim. Hún býr í Bandaríkjunum, er gift og á eina dóttur sem er árinu eldri en Ísabella mín. Það er skemmtilegt hvað við eigum margt sameiginlegt, eigum báðar hunda og lifum fyrir dætur okkar. En ég er í miklum samskiptum við stelpurnar sem hafa verið kjörnar ungfrú heimur því við hittumst til dæmis þegar við erum dómarar í keppnunum. Það er ákveðinn hópur sem samanstendur af sigurvegurum, starfsfólki og dómurum og við köllum okkur Miss World Family. Við hittumst gjarnan einu sinni á ári þegar keppnin er haldin og þá er bara eins og maður sé að hitta aðra fjölskylduna sína. Enda hefur margt af þessu fólki verið í lífi mínu í yfir þrjá áratugi.“

„Það var nefnilega ekkert endilega að vinna með mér að hafa verið ungfrú heimur, það gat vel spillt fyrir.“

Górillu-samtökin reyndu að ræna henni

Þegar blaðamaður spyr hvað standi mest upp úr við þennan tíma sem Linda bar titilinn ungfrú heimur segir hún að tvennt komi strax upp í hugann, án nokkurrar umhugsunar: „Í fyrsta lagi að hafa verið treyst fyrir því svona ung að vera andlit Íslands og kynna íslenskar afurðir á erlendri grundu. Ég fékk að ferðast með forsetanum, ráðherrum og sendiherrum og það stendur upp úr að hafa fengið þetta mikla tækifæri. Hitt er svo að hafa kynnst fólkinu sem á Miss World-keppnina, Eric og Juliu Morley. Hann er fallinn frá en hún er enn á lífi, orðin rúmlega áttræð, og er mjög náin vinkona mín og guðmóðir Ísabellu minnar. Julia er einstök manneskja og alveg ótrúleg, ferðast enn allt árið um kring, þótt það hafi auðvitað verið aðeins öðruvísi í þessum heimsfaraldri. Ég veit ekki úr hverju hún er gerð; hún ferðast yfir hálfan hnöttinn, stoppar í nokkra daga og fer svo til baka án þess að blása úr nös. Ég væri öll þrútin og bólgin og búin á því,“ segir Linda og hlær létt. „Julia kom með með góðgerðarstarfsemina inn í keppnina og síðustu ár hefur þetta snúist meira og meira um það starf. Góðgerðarstarfsemin er það sem Julia brennur fyrir og hún hefur hjálpað ótrúlega mörgum um allan heim með starfi sínu. Hún er mér mikil fyrirmynd í lífinu.“

Linda segir að þegar hún líti til baka sé vinnan að góðgerðarmálum einmitt það sem standi upp úr. „Þetta var samt líka erfitt. Það var átakanlegt að koma á munaðarleysingjahælin og horfa upp á litlu börnin þar í oft hræðilegum aðstæðum. Það var til dæmis mjög eftirminnilegt að koma til San Salvador, höfuðborgar El Salvador, þar sem þá ríkti borgarastyrjöld. Við fengum að koma með lyf inn í landið til að fara með á munaðarleysingjahæli og spítala, annars var lokað fyrir allt svoleiðis. Ég var svo vakin eitt sinn um miðja nótt af öryggisvörðum en þá ætluðu Górillu-samtökin að ræna mér. Ég náði ekki vel utan um hvað var að gerast á því augnabliki, kannski sem betur fer, því þetta gerðist allt svo hratt og Julia fór með mig úr landinu strax næsta dag. Vissulega var þetta ógnvekjandi og ég er þakklát fyrir að þetta skyldi fara vel. Annars sæti ég örugglega ekki hér í dag.“

Tók kærastann fram yfir Audrey Hepburn

This image has an empty alt attribute; its file name is Linda-Petursdottir-3-683x1024.jpg

Upprifjun frá þessum eftirminnilega tíma heldur áfram og Linda segir blaðamanni sögu sem hún segir að Ísabellu dóttur sinni hafi þótt merkileg. „Ísabella er mikill aðdáandi hljómsveitarinnar Pink Floyd og ég sagði henni að ég hefði einu sinni unnið á bílasýningu í Essen í Þýskalandi í heilan dag með trommara sveitarinnar, Roger Waters. Hann bauð mér að heimsækja hljómsveitina í hljóðverið þar sem þeir voru að taka upp plötu næst þegar ég kæmi til London. En ég nennti því nú ómögulega,“ segir Linda hlæjandi. „Dóttir mín átti ekki til orð því hún er mikill aðdáandi Pink Floyd og hlustar mikið á tónlistina þeirra. Svo reyndar átti ég nú líka að borða kvöldverð einu sinni með Audrey Hepburn ásamt fleira fólki á Waldorf Astoria-hótelinu í New York en var svo spennt að hitta þáverandi kærasta minn sem bjó í London og ég hafði ekki séð lengi, að ég mátti nú ekkert vera að því að bíða eftir fröken Hepburn. Ég fór frekar að hitta kærastann.“

Linda segir að tíminn sem hún bar titilinn ungfrú heimur hafi verið stórkostlegur og hún hefði ekki viljað missa af honum. „Ég myndi gera þetta allt aftur. Eftir því sem ég eldist, og nú er ég auðvitað komin með dóttur sem verður eftir þrjú ár jafngömul og ég var þegar ég fór út í keppnina, sé ég að þetta var mjög merkileg upplifun. Þetta var svo stórkostlegur og magnaður tími fyrir mig sem ég kann afskaplega vel að meta í dag. Ég er þakklát fyrir að hafa fengið þetta tækifæri sem breytti lífi minni á svipstundu.“

Venjan er sú að ungfrú heimur sinni ýmsum skyldum það ár sem hún ber titilinn en Linda var beðin um að framlengja samning sinn um eitt ár, sem hún og gerði. Eftir að þeim tíma lauk hélt hún utan og starfaði sem fyrirsæta í Tókýó, Mílanó og London. Fyrirsætustarfið segir hún ekki hafa átt við sig, þótt sér hafi alltaf þótt gaman að sitja fyrir og taka þátt í flottum myndatökum. „Lífið í fyrirsætuheiminum hentaði mér ekki. Þetta var mjög ólíkt því að hafa verið ungfrú heimur þar sem ég var trítuð eins og drottning, ég kunni betur við það,“ segir hún og skellir upp úr, „heldur en að þvælast sveitt á milli áheyrnarprufa með fyrirsætumöppuna undir hendinni, bíða í röð með 200 öðrum stelpum og fá jafnvel höfnun eftir höfnun. Það var nefnilega ekkert endilega að vinna með mér að hafa verið ungfrú heimur, það gat vel spillt fyrir.“

„Þetta verður allt í lagi mamma mín“

Í september 2017 var Linda búsett í Kaliforníu ásamt Ísabellu og þáverandi kærasta sínum. Þau höfðu notið þessa sunnudags og meðal annars farið í messu um morguninn. Þau voru í bílnum þegar Linda kvartaði undan óeðlilegri þreytu og sagðist jafnvel þurfa að fá sér tvöfaldan espressó til að hressa sig við. „Til að gera langa sögu stutta vorum við komin inn í Whole Foods-verslun þegar ég missti allan mátt og kærastinn minn varð að styðja við mig. Hann vann í Landhelgisgæslu Kanada og áttaði sig á því að eitthvað alvarlegt væri í gangi svo hann keyrði mig í snatri upp á spítala. Þegar á spítalann var komið var ég orðin alveg lömuð, nema ég gat aðeins hreyft annan fótinn, og ég var búin að missa málið. Þetta var hræðileg upplifun en það óhugnanlegasta var að heyra allt sem fram fór í kringum mig en geta ekki tjáð mig. Ég var búin að vera þarna í marga klukkutíma án þess að læknarnir fyndu neitt út úr því hvað væri í gangi og mér var orðið svo mikið mál að pissa en gat auðvitað ekki sagt neitt. Ísabella, sem þarna var bara tólf ára, var inni á stofunni ásamt heilum hópi af læknum og hjúkrunarfólki og fylgdist með öllu. Við erum mjög nánar og náðum þarna augnsambandi þar sem ég lá í rúminu. Hún horfði á mig með sínum fallegu, stóru brúnu augum og spurði hvort eitthvað væri að og ég gat auðvitað engu svarað. Þá kom hún til mín og sagðist vita að eitthvað væri að, hún ætli að skanna yfir allan líkamann á mér og spyrja mig hvort ég finni til og ég eigi að blikka augunum ef svarið sé já. Svo bað hún alla um að færa sig frá rúminu og byrjaði á fótunum á mér og vann sig svo upp. „Finnurðu til hérna, mamma mín?“ spurði hún reglulega. Þegar hún kom að svæðinu yfir þvagblöðrunni spurði hún hvort ég fyndi til, ég blikkaði augunum og þá spurði hún hvort ég þyrfti kannski að pissa. Þá sagði þessi elska læknunum að mamma sín þyrfti að pissa. Læknarnir áttu ekki til orð yfir hana, höfðu aldrei séð neitt í líkingu við þetta og spurðu bara hvernig hún hefði vitað hvað hún ætti að gera. Ég var svo sem ekkert hissa því ég þekki dóttur mína og hún er auðvitað alveg einstök. Hún er svo gömul sál. Íslensk vinkona mín fór svo heim með Ísabellu yfir nóttina en þegar ég vaknaði daginn eftir var það fyrsta sem blasti við mér gulur post-it-miði frá dóttur minni sem á stóð: „Þetta verður allt í lagi mamma mín, ég elska þig.“ Ég mun aldrei gleyma þessu og á þennan miða innrammaðan heima. Sem betur fer fékk ég málið þegar ég vaknaði þennan dag og fór smám saman að fá máttinn aftur í líkamann. Þetta var vægt heilablóðfall sem mátti rekja til utanaðkomandi aðstæðna í lífi mínu og mikils álags. Allar æðar voru tandurhreinar, „eins og í unglingi“ sögðu læknarnir. En þetta ýtti auðvitað aðeins við mér að hægja á mér. Þessi reynsla kenndi mér að stress getur haft hrikalegar afleiðingar.“

Nú bjóstu um nokkra hríð bæði í Kanada og Bandaríkjunum. Langar þig aldrei að flytja aftur út?

„Jú, ég gæti vel hugsað mér að flytja aftur til Bresku Kólumbíu í Kanada. Það er fallegasti staður í heimi með stórbrotinni náttúru, fjöllum, sjó og svo er allt grænt árið um kring. Það rignir reyndar í 150 daga á ári en það er þó ekki skafrenningur og ofsaveður,“ segir Linda og hlær létt. „Draumurinn væri að búa bæði þar og hér. Ég á heimili á Álftanesi og hef aldrei búið jafnlengi á sama stað en ég hef átt heimili þar síðastliðin ellefu ár. Þar er akkerið mitt. Mér finnst ofboðslega gott að búa þar, það er svona sveit í borg. Ég bý alveg við sjóinn og fæ þarasletturnar stundum upp á glugga til mín en ég elska lyktina af sjónum og geng þarna um á hverjum einasta degi. Ég er auðvitað alin upp í sjávarþorpi og þetta fer alveg inn í kjarnann minn. Ég gæti auðvitað búið hvar sem er í heiminum starfs mín vegna, svo framarlega sem ég hafi netsamband.“

Vill halda einkalífinu fyrir sig

This image has an empty alt attribute; its file name is Linda-Petursdottir-683x1024.jpg

Blaðamaður stenst ekki mátið að spyrja Lindu aðeins út í strákamálin. Eins og frægt varð fyrir nokkrum mánuðum fór Linda í útvarpsviðtal hjá vini sínum Loga Bergmann sem spurði hana einmitt út í hvernig þau mál stæðu. Eftir viðtalið var því slegið upp í fjölmiðlum að Linda Pé hefði auglýst eftir kærasta. „Nei, ég var ekki að auglýsa eftir kærasta!“ segir Linda ákveðið og skellihlær. „Ég er orðin svo leið á því að það er alltaf verið að spyrja mig hvort ég eigi kærasta og hvort ég sé að deita. Logi er vinur minn og ég sat þarna fyrir framan hann og ákvað að stríða honum aðeins og segi að ég væri alveg til í kærasta sem myndi líta svona og svona út. Ég lýsti Loga sem draumamanninum og hann sat þarna á móti mér og roðnaði bara. Þetta var nú einfaldlega létt grín en svo sló einhver blaðamaður því upp að Linda Pé væri að leita að kærasta og ég hugsaði bara: Nei hættu nú alveg! En jæja, þetta var svo sem gott á mig. Ég var að stríða Loga og fékk það bara í andlitið. En nei, ég þarf ekkert að auglýsa eftir kærasta, ég er fullfær um að finna sjálf út úr því,“ segir Linda sposk á svip.

Blaðamaður hefur á orði að Linda hafi lítið talað um einkalífið sitt í viðtölum. Hún hafi til dæmis aldrei viljað gefa neitt uppi um barnsföður sinn. „Nei, og þér tekst ekkert að draga neitt upp úr mér um hann,“ segir hún og aftur hlæjum við. „Við vorum kærustupar í stuttan tíma og höldum góðu sambandi, það hefur okkur báðum fundist mikilvægast dóttur okkar vegna. Það hafa aldrei verið neinar pabbahelgar eða regluleg umgengni en þetta hefur gengið vel og það er fyrir öllu. Ég vil halda einkalífinu út af fyrir mig. Þótt ég sé svona almenningseign þá skiptir mitt einkalíf mig máli og við þurfum öll að fá að hafa okkar mörk.“

Mikilvægt að geta verið einn og sáttur við það

Spjall blaðamanns og Lindu snýst svo aðeins um líf hinnar einhleypu konu, sem þær eiga sameiginlegt þegar viðtalið fer fram, og liggur beinast við að spyrja hvort Linda Pé geti nokkuð deitað á litla Íslandi, verandi svona þekkt eins og hún sé. „Nei, ég geri það ekki enda fer ég ekki út á lífið og er ekki á neinum stefnumótasíðum eða neitt svoleiðis. En það hlýtur að vera einhver þarna úti fyrir mig. Og þig líka,“ segir hún glettin og nikkar til blaðamanns.

„En maður á ekkert að vera að flýta sér, þetta gerist bara á þeim hraða sem þetta á að gerast. Það er gaman að deita og upplifa rómans en það er líka mikilvægt að geta verið einn og verið sáttur við það. Ég hef mest verið ein og veistu, á tímabili upplifði ég skömm yfir því að vera ekki í einhverju langtímasambandi en núna er ég búin að læra það að gæði sambandsins fara ekki endilega eftir lengd þess. Það er fullt af löngum samböndum sem eru ekki endilega þau bestu. Lífið mitt er dásamlega gott en mig langar að kynnast góðum og traustum manni. En ef það gerist þá þarf það að vera þannig að það bæti líf mitt meira en ekki. Ég nenni þessu ekki nema það sé meira gott en slæmt. Það þarf að vera þess eðlis að það bæti líf mitt. Ég er komin á þann stað núna að vilja góðan félaga til að ferðast með og það þarf að vera gaman. Maður er með aðeins öðruvísi áherslur í dag en fyrir einhverjum árum síðan,“ segir Linda og hlær létt áður en hún gengur út í sólskinið.

 

Birtíngur er með stútfullt safn af íslensku efni, viðtölum og greinum.

Öll blöð Birtíngs eru á einum stað. Með áskrift að vefnum færðu aðgang að fjölbreyttum og áhugaverðum greinum og viðtölum.

Frá aðeins 1.890 kr á mánuði og engin skuldbinding.

www.birtingur.is

Hæ!

Takk fyrir heimsóknina á sykur.is. Okkur þætti það alls ekki leiðinlegt ef þú myndir fylgja okkur á Facebook. Við erum ekki óþolandi þar. Í alvöru!