KVENNABLAÐIÐ

Guðlaug Pétursdóttir: „Við erum ekki að predika neina glansmynd“

Guðlaug hefur komið víða við í sínu lífi, var lengi aðstoðarframleiðandi í Los Angeles, stofnaði veitingastaðinn Gló á Íslandi og er helsta stuðningskona eiginmanns síns, Guðna Gunnarssonar. En hver er Guðlaug? 

Það má með sanni segja að framleiðandinn hafi aldrei farið úr Guðlaugu, enda er augljóst að hún er innsti koppur í búri þegar kemur að velgengni og velferð GlóMotion og ferils Guðna. „Þú sérð ekki mikið af mér í fjölmiðlum, ég vil hafa allt svo einfalt. Mér finnst mjög óþægilegt að vera frammi. Ég fann það þegar ég var með Gló að ég átti mjög erfitt með að vera í fjölmiðlum. Ég á mjög erfitt með samfélagsmiðla því kerfið mitt er viðkvæmt fyrir miklu áreiti og ég uni mér best á bak við tjöldin,” segir Guðlaug. Aðspurð segir hún líf þeirra Guðna ekki vera frábrugðið lífi annarra hjóna þó þau aðhyllist ákveðinn lífsstíl.

„Við erum búin að vera saman í þrjátíu ár, búin að þroskast saman og taka kollhnísa eins og öll önnur pör. Mér finnst hann bara verða betri og magnaðari með hverju árinu en ég myndi ekki búa með honum ef hann væri ekki sannur, sannur sjálfum sér og heiðarlegur,” segir Guðlaug. „Við erum mannleg og við erum óhrædd að deila lífi okkar eins og það er með fólki, við erum ekki að predika neina glansmynd. Við förum í gegnum alls konar tímabil en við erum bara dugleg að spyrja hvort annað – ætlum við að verða samferða í gegnum þetta?” segir Guðlaug.

Hún segist vera tilbúin að Guðni fari að ræða sambönd meira, ræða það hvernig tveir einstaklingar fara í gegnum alls konar tímabil og vaxtaverki og hvernig það að mæta öllu af heiðarleika og ást getur haft áhrif á sambönd fólks, eitthvað sem reyndi mikið á í gegnum heimsfaraldurinn. „Við ögrum hvort öðru, við getum alveg farið stál í stál og þó við séum um margt mjög lík þá liggja styrkleikar okkar í ólíkar áttir en við sýnum hvort öðru mikla virðingu, umburðarlyndi og veitum hvoru öðru rými til þess að vera eins og við erum,” segir Guðlaug og vill meina að langmikilvægast í öllum samböndum sé ást og trygglyndi og að yfirfæra ekki eigin vanmátt eða ótta yfir á makann eða á annað fólk.

„Allt sem þú veitir athygli vex og dafnar og spurninginn er – ertu tilbúinn að mæta þér? Ertu tilbúinn að vilja þig, velja þig alveg sama hvað, alveg sama þótt það sé einhver áskorun í gangi? Ertu tilbúinn að elska þig skilyrðislaust?”

„Við Guðni veljum hvort annað á hverjum einasta degi, við erum að velja að vera saman og ef það er ekki lengur að þjóna fólki að vera saman þá á fólk að hafa hugrekki til þess að slíta samvistum. Það er eitthvað sem við verðum að læra, hugrekkið að kveðja eitthvað sem þjónar okkur ekki lengur þó það sé kannski ógnvænlegt,” segir Guðlaug. „Guðni er besti vinur minn, ég er besti vinur hans. Við leitum til hvors annars með áskoranir og hugmyndir, ég les yfir hjá honum og við notum hvort annað sem spegil. Það er alveg augljóst að við Guðni höfum ferðast víða í öðrum lífum, við kunnum illa við kurteisishjal og dembum okkur alltaf beint í djúpu laugina sem kemur kannski svolítið illa við fólk,” segir Guðlaug og hlær.

„Fólki finnst við örugglega pínu skrítin en mér finnst þetta ekkert skrítið, mér finnst þetta allt bara svo eðlilegt því ef hjartað er opið þá opnast alls konar dyr,” bætir hún við og brosir.

 

Viðtalið má lesa í heild sinni inn á vef Birtíngs. www.birtingur.is

Hæ!

Takk fyrir heimsóknina á sykur.is. Okkur þætti það alls ekki leiðinlegt ef þú myndir fylgja okkur á Facebook. Við erum ekki óþolandi þar. Í alvöru!