Lífsreynslusaga úr Vikunni
Það er gott að passa vel upp á fjármálin og eyða ekki um efni um fram. Hins vegar getur það þó gengið út í öfgar og hagsýnin orðið hrein og bein níska. Fyrrverandi maðurinn minn var og er ákaflega sparsamur, nískur einfaldlega þótt hann lifi í vellystingum. En margur verður af aurum api, eins og sagt er.
Ég kynntist Jóhanni þegar ég var rúmlega tvítug. Hann var gjaldkeri í banka og ég man að þegar hann sagði mér það fyrst spurði ég hvort hann væri þá ekki rosa ríkur. Ég spurði bara í gríni en honum fannst þetta frekar kjánalegt og sagði að það væri alveg merkilegt að allir héldu að maður yrði svo ríkur af því að vinna í banka. Sú væri nú aldeilis ekki raunin. Þrátt fyrir að við Jóhann hefðum ekki alveg sama húmorinn, eins og sýndi sig þarna, var ég yfir mig ástfangin af honum.
Klippti kreditkortið í sundur
Við byrjuðum fljótlega að búa og leigðum okkur sæta kjallaraíbúð til að byrja með. Við vorum þó strax ákveðin í að vera dugleg að safna okkur fyrir íbúð. Við vorum svo heppin að fá þessa íbúð sem
við leigðum fyrir þrjátíu þúsund krónur á mánuði, sem í dag er auðvitað hlægilegt. Leigan þótti lág á þessum tíma, en gömlu hjónin sem áttu íbúðina vildu ekki rukka okkur um meira því þau kunnu svo vel við okkur og voru ekki að leigja hana út nema til að hafa einhvern í íbúðinni. Þau voru mjög vel stæð og reyndust okkur unga fólkinu alltaf ofboðslega vel. Ég man til dæmis eftir því þegar við lögðumst bæði í skæða flensu, og gátum okkur varla hreyft, að gamla konan kom niður með mat handa okkur, hún hafði eldað ríflega og gat ekki hugsað sér að vita af okkur svona veikum, og kannski matarlausum líka.
Við Jóhann þurftum nú samt að sýna útsjónarsemi og leyfðum okkur til dæmis ekki neinn svakalegan lúxus, eins og að fara til útlanda eða neitt þvíumlíkt, á meðan við vorum að safna okkur fyrir fyrstu íbúðinni. Hann lauk námi í viðskiptafræði og ég lauk námi í skrifstofu- og tölvunámi og allt gekk bara frekar vel hjá okkur unga parinu. Fjármálin voru í toppmálum, enda sá Jóhann alveg um þau og gerði það með glæsibrag. Ég var alveg sátt við það og fannst í rauninni bara þægilegt að þurfa ekki að skipta mér af því, tölur höfðu aldrei verið mín sterka hlið og ég gat alveg dottið í að vera eyðslukló ef ég passaði mig ekki. Eða, það fannst Jóhanni að minnsta kosti.
Ég man sérstaklega vel eftir einu slíku atviki. Þetta var rétt fyrir jólin og ég hafði farið í bæinn með vinkonu minni að kaupa jólagjafir. Við kíktum auk þess í nokkrar fatabúðir og skoðuðum föt fyrir okkur og ég keypti mér kápu í versluninni Benetton sem þá var og hét. Kápan var í sjálfu sér ekki dýr en það kostaði samt vesen þegar ég kom heim og sýndi Jóhanni kápuna. Hann var ekki sáttur við það að ég skyldi hafa verið að „eyða í sjálfa mig“ svona rétt fyrir jólin, bað um að fá kreditkortið mitt og klippti það síðan í sundur. Mér var greinilega „ekki treystandi“ til að hafa kreditkort. Ég fékk svo reyndar nýtt kreditkort nokkrum vikum síðar þegar hann var farinn að treysta mér aftur og ég gerði mitt besta til að valda honum ekki vonbrigðum.
Kápan var í sjálfu sér ekki dýr en það kostaði samt vesen þegar ég kom heim og sýndi Jóhanni kápuna. Hann var ekki sáttur við það að
ég skyldi hafa verið að „eyða í sjálfa mig“ svona rétt fyrir jólin, bað um að fá kreditkortið mitt og klippti það síðan í sundur.
Fylgdist grannt með færslunum og fjármálunum
Að því kom að við vorum búin að safna okkur nægilegum pening til að kaupa íbúð. Við gátum meira að segja keypt okkur fína fjögurra herbergja íbúð, við vildum ekki þurfa að hugsa um að stækka við okkur þegar við myndum eignast börn. Við vildum geta búið þarna í dálítinn tíma, og jú safnað okkur fyrir sérbýli á meðan. Ég hafði verið í viðskiptum við annan banka en þann sem Jóhann vann hjá þegar við kynntumst en þegar við byrjuðum að vera saman fannst Jóhanni það alveg ómögulegt. Auðvitað ætti ég að færa mig yfir í bankann hans! Og það gerði ég.
Jóhann hafði staðið sig vel í viðskiptafræðináminu og var kominn í flotta stöðu í bankanum en fín laun og alls konar fríðindi komu þó ekki í veg fyrir að hann passaði gríðarlega vel upp á að fjármálin okkar „færu ekki í einhverja vitleysu,“ eins og hann sagði svo gjarnan. Hann passaði svo vel upp á þau að hann gætti þess að ég ætti aldrei neinn pening inni á mínum eigin reikningi, heldur vildi hann að ég notaði bara kreditkort svo hægt væri að fylgjast betur með neyslunni og í hvað peningarnir væru að fara.
Þegar launin mín voru lögð inn, millifærði hann þau yfir á sinn reikning og sá um að greiða alla reikninga. Þægilegt fyrir mig? Jú, vissulega en ég vildi samt óska þess að ég hefði verið nógu sterk til að láta þetta ekki viðgangast. Þegar VISA-reikningurinn kom svo var farið nákvæmlega yfir hann og ég spurð út í hinar og þessar færslur sem á honum voru, því Jóhann vildi vita hvað ég hefði verið að kaupa og hvort það hefði verið nauðsynlegt. Ástandið, eða eftirlitið ætti ég frekar að segja, versnaði sífellt meir og Jóhann var jafnvel farinn að skoða færslurnar á reikningnum mínum daglega og yfirheyra mig um þær.
Þurfti að réttlæta allt sem ég keypti
Innst inni vissi ég að þetta var ekki eðlilegt en ég skammaðist mín fyrir að vera svona „ósjálfstæð“ og vildi þess vegna ekki ræða þetta við neinn. Vinkonur mínar komu til dæmis af fjöllum þegar ég sagði þeim frá þessu eftir að við Jóhann skildum. Verst fannst mér þó þegar við Jóhann vorum einhvers staðar í búð, til dæmis á kassanum í Bónus, hann sá um að tína upp úr innkaupakerrunni og ég setti í pokana, að ef ég hafði sett eitthvað í kerruna sem hann hafði ekki tekið eftir fyrr en þarna við kassann spurði hann hátt og snjallt: „Til hvers ertu að kaupa þetta? Er þetta eitthvað sem vantar?“ og hélt uppi t.d. poka af bómullarskífum. Þá þurfti ég að gjöra svo vel að útskýra að bómullarskífurnar heima væru búnar og ég þyrfti að kaupa þær til að geta þrifið af mér farðann að kvöldi eða hvað sem er. Ég varð alla vega að standa fyrir máli mínu og verja þessi kaup. Oft fussaði hann og sveiaði þarna við kassann og ég man hvað ég skammaðist mín í hvert sinn sem þetta gerðist og þetta gerðist mjög oft.
Stundum er sagt að þeir sem eru efnaðir, séu það af því að þeir eru svo sparsamir. Eða nískir. Ég tek undir það því ég þekki svo marga í þeirri stöðu að geta leyft sér allt en samt horfa þeir í hverja krónu, reyna að verða sér úti um afsláttarkjör hjá einhverjum sem þeir þekkja þegar verið er að gera einhver stærri innkaup og vilja alltaf spara meira og græða meira. Þannig var það með Jóhann. Þegar við til dæmis ætluðum að kaupa okkur sófasett, þegar gamla settið okkar var gjörsamlega úr sér gengið, ætluðum við aldrei að geta klárað málið þar sem Jóhann var alltaf að bíða eftir því að heyra í einhverjum sem þekkti mann sem átti húsgagnaverslun og sá gæti pottþétt gefið okkur afslátt. Þetta var að gera mig brjálaða.
Fór í uppreisn án þess að átta mig á því
Auðvitað var líka leiðinlegt að vera fullorðin manneskja og geta ekki ráðstafað laununum sínum sjálf en þeir sem ekki hafa búið undir mikilli stjórnsemi af hálfu maka vita ekki hversu brotinn maður getur orðið og tilbúinn að gera ýmislegt til að halda friðinn. Þess vegna var ég aldrei að æsa mig þótt Jóhann tæki launin mín af reikningnum mínum og legði þau inn á sinn reikning þótt ég sjái í dag að ég hefði ekki átt að láta þetta yfir mig ganga. Undir lok hjónabandsins var ég þó farin að gera dálitla uppreisn, þótt ég áttaði mig kannski ekki endilega á því þá að ég væri að því.
Mamma og pabbi gaukuðu stundum að mér pening og sögðu mér að kaupa mér eitthvað fallegt. „Eitthvað fyrir sjálfa þig,“ hvísluðu þau og laumuðu til mín umslagi svo lítið bæri á. Ég notaði þennan pening oftast bara til að kaupa í matinn eða eitthvað á börnin. Rúmu ári áður en hjónabandinu lauk fór ég í banka, annan banka en þann sem ég var í viðskiptum hjá, og stofnaði nýjan reikning. Ég veit ekki hvað þjónustufulltrúinn í bankanum hefur haldið þegar ég margspurði hvort það væri nokkur leið fyrir manninn minn að fá veður af því að ég hefði verið að stofna þennan reikning, ég yrði að vita það með 100% vissu því hann ynni í banka. Konan hefur líklega lagt saman tvo og tvo því hún var einstaklega elskuleg. Ég fékk svo debetkort sem ég geymdi á góðum stað, þar sem ég var fullviss um að Jóhann gæti ekki fundið það.
„Meðlagið dekkar þetta“
Inn á reikninginn MINN lagði ég svo aurinn sem mamma og pabbi gáfu mér af og til. Þangað fór líka peningur sem ég fékk á afmælinu mínu og um jólin og peningur se ég safnaði með því að fara með flöskur og dósir í endurvinnslu. Ég átti ekki neina stórkostlega upphæð inni á þessum reikningi en þetta var þó alla vega peningur sem ég átti og gat ráðstafað að vild. Einn daginn, þegar ég hafði farið eina ferð í Endurvinnsluna, kom Jóhann heim úr vinnunni. Hann kallaði á mig úr eldhúsinu og var greinilega ekki kátur, enda hafði hann fundið nýja debetkortið mitt. Þetta var dropinn sem fyllti mælinn hjá mér og þennan dag ákvað ég að ég vildi ekki vera í þessu hjónabandi mínútunni lengur. Ég held jafnvel að ég hafi viljað láta kortið liggja svona á glámbekk, kannski var það einhver innri rödd sem sagði mér að nú væri nóg komið.
Það eru nokkur ár síðan við Jóhann skildum. Enn er hann sami nískupúkinn. Hann greiðir mér tvöfalt meðlag með börnunum og grenjar líklega yfir því um hver mánaðamót. Hann er með margfalt hærri laun en ég en lætur eins og hann lepji dauðann úr skel og lætur mig jafnvel endurgreiða það sem hann „neyðist“ til að kaupa handa börnunum þegar þau eru hjá pabba sínum, eins og vettlinga ef hinir hafa týnst, því „meðlagið dekkar þetta“ eins og hann segir. En sama er mér, ég borga þetta allt með glöðu geði því ég er svo fegin að vera laus við hann. Ég er frjáls.