KVENNABLAÐIÐ

Skrítið að upplifa lofið og hatrið

Erna Kristín Stefánsdóttir guðfræðingur er með þekktustu áhrifavöldum landsins. Hún er talsmaður jákvæðrar líkamsímyndar og hefur byggt upp stóran hóp fylgjenda á samfélagsmiðlum undir nafninu Ernuland. Erna eignaðist tvíburasyni í lok apríl og var opinská um erfiðleika meðgöngunnar. Það var ekki aðeins meðgangan sem var Ernu erfið, örfáum dögum fyrir áætlaða keisarafæðingu missti hún tengdamóður sína og segist Erna enn eiga eftir að vinna úr sorginni að missa eina af sínum bestu vinkonum.

„Þetta byrjaði þannig að ég fékk nóg af þessum feluleik og stöðugri angist að vera í þessu fangelsi sem neikvæð líkamsímynd er. Maður festist í sjálfshatri og fer að hafna eigin hamingju og ég nennti þessu ekki lengur,“ segir Erna aðspurð um hvenær og hvers vegna hún fór að tala fyrir jákvæðri líkamsímynd. „Ég var búin að vera í nokkurn tíma á samfélagsmiðlum og var sjálf að upplifa þennan feluleik. Ég var til dæmis að auglýsa fitufrystingu, hvers fjarstæðukennt er það í dag? Ég vildi ekki vera þessi týpa, var ekki að tengja við hana og hún veitti mér enga hamingju.“

Erna hafði barist við átröskun frá unglingsaldri og ákvað að opna sig með þá reynslu á samfélagsmiðlum. Hún segist hafa verið meðvituð um líkama sinn frá barnsaldri, sem rænt hafi hana æskunni. „Ég lenti í áföllum sem barn sem varð til þess að ég varð mjög meðvituð um mig og mína tilvist, það var skrýtið að átta sig svona snemma á sjálfri sér. Þetta rændi mig þessum barnsárum sem maður á að vera bara svolítið sjálfhverfur að leika sér, ég hefði viljað fá lengri tíma í sjálfhverfunni sem barn þar sem heimurinn snýst um mig. Ég fór að pæla í líkama mínum og útliti og hafna sjálfri mér,“ segir Erna. Hún segir átröskunina líklega hafa verið byrjaða að þróast hjá sér á unglingsaldri, en það var ekki fyrr en hún flutti að heiman að veikindin urðu alvarleg. „Þá fékk ég allt annað rými til að ganga lengra.

Ég var 19 ára þegar ég flutti inn til Bassa og þá var ég mjög slæm. Ég faldi ástandið fyrir öllum og enginn gerði sér grein fyrir þessu. Það var ekki fyrr en Bassi fór að sjá að ég léttist mjög hratt,“ segir Erna og segir að hana hafi langað að sjá hvernig fólk tæki umræðu um átröskun sem var mikil skömm á bak við. „Mér fannst vandræðalegt að vera fullorðin með átröskun, mér fannst þetta frekar vera unglingavandamál. Það sem gerðist var að það opnaðist heimur, ég fékk óteljandi skilaboð frá fólki á öllum aldri sem var að glíma við sjálfshatur og neikvæða líkamsímynd og ég fór að hugsa hvað ég gæti gert til að aðstoða sjálfa mig og aðra. Ég fór í mikla sjálfsvinnu og skrifaði bókina Fullkomlega ófullkomin út frá því.“

Boltinn fór síðan að rúlla og fór Erna að halda bæði fyrirlestra og námskeið, og stuttu síðar gaf hún út aðra bók fyrir börn, Ég vel mig. „Þessi umræða var akkúrat það sem þurfti og ég myndi segja að ég sjálf hafi vaknað á sama tíma og samfélagið þurfti að vakna. Ég var með sterkar fyrirmyndir eins og Töru Margréti Vilhjálmsdóttur og fleiri, en það er eins og áður hefur verið rætt öðruvísi mótbyr þegar grönn kona byrjar að tala um jákvæða líkamsímynd. Þess vegna hef ég alltaf í mínum fyrirlestrum tekið inn líkamsvirðinguna líka því mér finnst mikilvægt að fólk átti sig á að við getum ekki bara sæst við okkur sjálf og skilið einhvern hóp eftir og verið með fordóma fyrir öðrum. Það finnst mér mjög röng hugsun.

Mér fannst líka skrítið að upplifa lofið sem ég fékk og hatrið sem Tara fékk á sama tíma,“ segir Erna og bætir við að slíkar hatursraddir geti verið mjög háværar.

„Þessi umræða stuðar marga svo mikið, einstaklinga sem eru aldir upp við ákveðin gildi. Svo komum við og tölum gegn þessum gildum og veröldinni sem viðkomandi hefur byggt upp, hans sjónarmiðum og um hamingjuna sem hann er jafnvel búinn að hafna út af holdafari. Það er einhver að rífa það í sig og það ógnar veruleika viðkomandi. Sumir þurfa að fara í gegnum afneitun og varnartilfinningu áður en þeir geta sleppt tökunum og áttað sig á að þeir geti fundið hamingjuna hjá sjálfum sér án þess að breyta sér eða samfélaginu.“

Þetta er brot úr lengra viðtali sem finna má í heild sinni á vef Birtings. 

Texti: Ragna Gestsdóttir
Myndir: Bassi Ólafsson

Hæ!

Takk fyrir heimsóknina á sykur.is. Okkur þætti það alls ekki leiðinlegt ef þú myndir fylgja okkur á Facebook. Við erum ekki óþolandi þar. Í alvöru!