„Ég skil það mjög vel að fólk eigi erfitt með að vera agað ef því leiðist það sem það er að gera eða það vantar alla ástríðu. Aginn er þannig ekki persónueinkenni.“
Þetta segir Nökkvi Fjalar Orrason, en hann er nýjasti gesturinn í þættinum Podcasti Sölva Tryggvasonar og ræðir þar umdeildar skoðanir fólks um sig, agaða rútínu, lífið í London ásamt fleiru.
Nökkvi, eða Nikki eins og hann er kallaður í Bretlandi, er með rúmlega tíu þúsund fylgjendur á Instagram og er þekktur fyrir að deila jákvæðum og hvetjandi myndböndum og frösum á ýmsum fleirum samfélagsmiðlum.
„Aginn kemur beinlínis frá ástríðunni. Ég á auðvelt með að aga mig af því að ég elska það sem ég er að gera og veit hvert ég er að fara.“
Nökkvi fékk mikið umtal á síðasta ári vegna umræðunnar um bólusetningar vegna Covid. Hann ákvað þá að svara fylgjanda sínum sannleikanum samkvæmt og sagðist vera óbólusettur. Í kjölfarið voru gerðar margar fréttir og hann varð hálfgert andlit óbólusettra á Íslandi:
„Ég hef tamið mér það að segja alltaf satt og það var það sem ég gerði þarna. Mér finnst allt í lagi að fólk hafi ólíkar skoðanir á þessu, en ég myndi endurtaka þetta ef ég gæti valið aftur. Það er bara satt um það að ég fór ekki í bólusetningu og ætla ekki að byrja að ljúga,“ segir hann í hlaðvarpinu ofannefnda og heldur áfram:
„Það var mitt val og ég tek ábyrgð á því. En þó að margir hafi verið brjálaðir út í mig á samfélagsmiðlum kom mikill fjöldi fólks upp að mér og hrósaði mér fyrir að þora að segja satt og standa með sjálfum mér. Líka fólk sem sjálft er bólusett og það fannst mér fallegt.“