KVENNABLAÐIÐ

„Þetta hjálpaði mér oft í gegnum erfið skref“

Dans- og kvikmyndagerðarkonan Helena Jónsdóttir hefur verið brautryðjandi í dansmyndagerð á Íslandi og eftir hana liggja fjölmargar dansmyndir. Hún hefur getið sér góðan orðstír sem danshöfundur og kvikmyndagerðarkona, bæði hérlendis og erlendis, og margsinnis verið verðlaunuð fyrir list sína. Helena missti eiginmann sinn, Þorvald Þorsteinsson, árið 2013 og sorgarferlið hefur verið langt og strangt.

Hún segir listina hafa verið sína besta sáluhjálp og hvetur fólk til að temja sér skapandi hugsun. Ástin kom óvænt inn í líf Helenu á ný eftir andlát Þorvaldar þegar hún kynntist Marcel, belgískum vídeólistamanni, sem hún segir gera sér grein fyrir að sé í sambandi bæði með henni og Þorvaldi. Enda hafi Marcel verið hennar hægri hönd í að halda arfleifð Þorvaldar á lofti.

„Við Þorvaldur fluttum til Antwerpen árið 2011 og hér hef ég verið síðan,“ segir Helena brosandi. Hún situr við borðstofuborðið heima hjá sér í Antwerpen í Belgíu en blaðamaður við borðstofuborðið heima í Kópavogi. Þökk sé tækninni þá er lítið mál að spjalla saman heimshorna á milli. „Þegar við Þorvaldur vorum að velta því fyrir okkur að flytja utan stakk hann upp á Antwerpen. Hann hafði verið í námi í Maastricht í Hollandi og kynntist þar þekktum listamanni frá Antwerpen sem býr hér enn. Það er yndislegt að búa hér í þessari dásamlegu borg. Það er gott að vera á meginlandinu, ekki bara styttra í vinnuna heldur einnig hagstæðara fyrir budduna fyrir listafólk eins og mig.“

Helena er lærður dansari og segist hafa verið sex ára þegar hún hóf dansnám. Hún segist muna eftir því að hafa dansað inni í herbergi fyrir einn áhorfanda á þeim tíma, Ellu ömmu, þegar hún bjó á Patreksfirði fjögurra ára gömul. „Það var ekki eins og hvatinn hafi komið eftir að hafa séð danssýningu á Patreksfirði, enda var ekki mikið um listviðburði á þessum tíma. Þetta var bara í mér. Þegar við fluttum í Mosfellssveitina setti ég upp frumsamdar leiksýningar í bílskúrnum sem ég skrifaði og leikstýrði. Aðgangur kostaði eina krónu,“ segir hún og hlær. „Mamma sá auðvitað að ég hafði yndi af þessu og skráði mig í Ballettskóla Eddu Scheving um leið og við fluttum til Reykjavíkur. Hún hefði getað skráð mig í leiklistarnám eða myndlist, þá hefði það verið minn grunnur í dag.“

Sjáanlegur leikhúsdraugur í litlum búk

Helena segist vera mjög fegin að hafa haft dansgrunninn, ballettinn, en hún byrjaði í Listdansskóla Þjóðleikhússins tólf ára gömul. „Foreldrar mínir skildu þegar ég var á áttunda ári og eftir það vann mamma oft langar vaktir á spítalanum, þannig að ég var svokallað lyklabarn eins og tíðkaðist oft á þessum tíma, og maður bara bjargaði sér. En í Ballettskóla Þjóðleikhússins, sem síðar varð Listdansskóli Íslands, lærði ég meðal annars góðan aga og svokallaðan „strúktúr“ sem nýttist mér vel í lífinu. Maður varð að vera duglegur að halda utan um skólann og æfa á nær hverjum degi, vakna á morgnana og hlaða í tvær töskur fyrir daginn, þar sem oft var ekki komið heim fyrr en seint um kvöldið. Eftir á að hyggja er ég mjög fegin því að hafa verið í dansnámi í Þjóðleikhúsinu sem var eiginlega mitt annað heimili.

Ég ber mikla væntumþykju til Þjóðleikhússins og þaðan á ég margar mínar dýrmætustu minningar úr æsku. Við fjölskyldan fluttum mörgum sinnum þegar ég var barn þannig að það var ákveðið öryggi að vita að Þjóðleikhúsið var alltaf á sínum stað. Og þegar ég vissi að mamma yrði að vinna fram eftir var ég ekki að flýta mér heim eftir dansæfinguna og dundaði mér innan veggja Þjóðleikhússins þar sem ég kíkti yfir handriðið uppi á svölum þegar æfingar voru í gangi á sviðinu eða æfði mig í Kristalssalnum fyrir næsta tíma en þar eru svo góðir speglar. Síðar komst ég svo að því að einn af hausunum sem eru í Kristalssalnum er af frænda mínum Guðmundi Kamban. En það var annar Guðmundur sem ég gerði samning við, hann var þá húsvörður baksviðs í Þjóðleikhúsinu, það fór enginn fram hjá honum, hvorki út né inn um baksviðsdyrnar. Hann passaði upp á að ég næði síðasta strætó heim. Svo stundum þegar var vont veður splæsti hann í leigubíl fyrir mig,“ segir Helena og brosir að minningunni.

„Ég hélt að enginn hefði tekið eftir mér þar sem ég sat stóreygð uppi á svölum og drakk í mig það sem var að gerast á sviðinu en mörgum árum seinna vorum við Guðrún Ásmundsdóttir leikkona að vinna saman og þá sagði hún mér frá litlu stelpunni sem þau sáu sitja uppi á svölum að upplifa töfra leikhússins, sjáanlegur leikhúsdraugur í litlum búk, en ég var mjög lágvaxin miðað við aldur.“

Helena var ein af okkar bestu og vinsælustu dönsurum og kom víða við í dansinum. Hún dansaði í fjölmörgum sýningum og söngleikjum og kom þar að auki að leikstjórn og danshönnun. Meðal þeirra verkefna sem hún tók að sér voru söngvakeppnir, hún fór t.d. fjórum sinnum út með flytjendum Íslands í Eurovision. „Með þessu vann maður fyrir salti í grautinn og ég safnaði fyrir mínum eigin verkum,“ segir Helena kímin.

Í lok níunda áratugarins kom svo Þorvaldur inn í líf hennar.

Dáðist að henni í listinni löngu áður en þau kynntust

Helena segir að þau Þorvaldur hafi vitað hvort af öðru, hann hafi meðal annars sagt henni að hann hafi dáðst að henni í listinni löngu áður en þau kynntust. „Ég gerði mitt eigið verk, söng- og gamanleikinn Dag sem var frumsýndur í Borgarleikhúsinu árið 1995. Þorvaldur sá verkið og var það í fyrsta skipti sem hann sá mig í eigin persónu, ekki bara nafnið. Svo hittumst við síðar í verkefni sem við unnum bæði að og Þorvaldur skrifaði en ég var að sviðsetja.“

Blaðamaður spyr hvort það hafi verið ást við fyrstu sýn. „Já, sagði hann,“ segir Helena og hlær létt. Hún segir þau hafa verið mjög náin, helst saman öllum stundum og deilt ástríðu sinni fyrir listinni á hverjum degi.

„Hann var minn besti vinur og vinnufélagi, og þá um leið mentor að svo mörgu leyti. Til dæmis fór hann að draga fram í mér skrifin, sem ég hafði alltaf haft í mér en hafði lokað á. Ég hafði alltaf samið mikið af ljóðum og sögum þegar ég var ung en þegar ég var komin í menntaskóla tókst íslenskukennaranum að slökkva algjörlega á því. Ég vissi það ekki þá en það kom seinna í ljós að ég var lesblind og skrifaði orðin bara eins og ég heyrði þau, rétt eins og Laxness var mér sagt síðar. Ég upplifði íslenskutímana sem kvöð og ég fékk eiginlega hatur á íslenskunni fyrir vikið. Þorvaldi tókst að draga ástríðu mína fyrir íslenskunni fram og hvatti mig aftur til skrifta. Þegar við vorum að byrja okkar samband skrifaði ég oft örljóð til hans og setti svo miðann í töskuna hans þar sem hann fann miðann síðar um daginn og las. Hann gaf mér hugrekki til að nota meira texta í mínum verkum. Ég gerði síðar dansleikhúsverkið Open Source árið 2003 og texti var stór hluti af verkinu. Þarna skrifaði ég handrit og Þorvaldur var minn prófarkalesari,“ segir Helena og brosir.

„Ég hafði verið að hringja í hann þetta laugardagskvöld, 23. febrúar, en hann ekki svarað sem var mjög skrýtið.“

„Þannig byrjaði martröðin“

Helena og Þorvaldur bjuggu bæði yfir mikilli reynslu úr listaheiminum og kenndu bæði í listaháskólum í Bandaríkjunum þar sem þau bjuggu um tíma og svo víða í Evrópu, þar sem Helena kennir enn í dag. Þá settu þau á laggirnar námskeiðs- og fræðslumiðstöðina www.kennsla.is á Íslandi, þar sem Þorvaldur kenndi meðal annars gríðarvinsælt námskeið sem hét Skapandi skrif og Helena kenndi námskeið sitt sem kallast Physical Cinema.

Helena og Þorvaldur fluttu til Antwerpen árið 2011 og höfðu búið þar í um það bil eitt og hálft ár þegar Þorvaldur lést í febrúar 2013. Helena var við vinnu á Íslandi þegar kallið kom. „Einhvern veginn gerðist ekkert hjá okkur fyrr en við vorum búin að deila því með hvort öðru,“ segir hún. „Ef við vorum ekki í sama landi þá nýttum við okkur símalínuna, oft mörgum sinnum á dag.

Ég hafði verið að hringja í hann þetta laugardagskvöld, 23. febrúar, en hann ekki svarað sem var mjög skrýtið. Ég hringdi í góðan vin okkar, Arthur, sem var að vinna á kaffihúsi sem er á torginu við húsið okkar í Antwerpen, og bað hann um að athuga hvort hann sæi kveikt ljós í íbúðinni okkar. Hann kíkti og sagði að það væri ljós í stofunni, þannig að ég vissi að Þorvaldur væri heima. Vinur okkar hringdi dyrabjöllunni en Þorvaldur kom ekki til dyra. Ég hringdi þá í vinkonu okkar sem geymdi fyrir okkur varalykil og bað hana og Arthur um að fara og athuga hvort það væri ekki örugglega allt í lagi. Það leið og beið og mig grunaði að eitthvað væri að. Svo hringdi Arthur og spurði hvort ég væri ein eða með einhverjum sem ég treysti … Þannig byrjaði martröðin.“

Listin besta sáluhjálpin

Sjálf segist Helena eiga listaheiminum mikið að þakka í sínu sorgarferli. „Ég fékk ómetanlegar gjafir frá vinum mínum í listageiranum, bækur, tónlist og ýmsar uppákomur. Það var svo yndislegt að fá svona góðar gjafir.Ég þurfti sannarlega á næringu að halda og þetta hjálpaði mér oft í gegnum erfið skref. Listin heldur vel utan um okkur ef við kunnum að nýta hana.“

Hún segist bjartsýn á framtíðina og minnir á sköpunargleðina. „Framköllum saman, græðum saman, styrkjumst saman, skrifaðu sjálfri þér bréf, spilaðu ólíka tónlist til að hreyfa við sálarlífinu, dansaðu þegar þú vaknar á morgnana, syngdu í bílnum. Ég vil gera listina aðgengilega öllum en of oft er hún álitin fyrir útvalinn hóp. Temjum okkur skapandi hugsun, listin er góð vinkona, hún hefur verið mín besta sáluhjálp.“

Þetta var brot úr lengra viðtali Vikunnar, sem finna má í heild sinni hér á vef Birtings.

Texti: Guðrún Óla Jónsdóttir
Myndir: Sarah Blee
og Grímur Bjarnason

Hæ!

Takk fyrir heimsóknina á sykur.is. Okkur þætti það alls ekki leiðinlegt ef þú myndir fylgja okkur á Facebook. Við erum ekki óþolandi þar. Í alvöru!