Heimilið er griðastaðurinn okkar, staðurinn þar sem við hlúum að okkur, verjum tíma með fjölskyldunni og gæludýrum, sinnum áhugamálum okkar, hvílumst og nærumst. Ef heimilið er á hvolfi alla daga, yfirfullt af hlutum sem stela frá okkur orku í stað þess að færa okkur gleði og ró, er heimilið ekki sá griðastaður sem hann ætti að vera. Þá er gott að setja sér þá áskorun að taka heimilið í gegn á 30 dögum. Hér eru nokkur einföld atriði sem ættu að hjálpa við að ná því markmiði. Í Vikunni segir:
Á öllum heimilum, sérstaklega þar sem börn búa, er eðlilegt að hlutir séu í óreiðu hluta dagsins, jafnvel alla daga. Fjölskyldan sinnir verkefnum og áhugamálum, börnin leika sér, þvotturinn er ósamanbrotinn. Hér er ekki átt við „hversdagslegt heimilislegt drasl“ heldur frekar óreiðu sem aldrei virðist nást að koma í lag. Draslið sem stelur frá okkur orku og plássi og við ætlum alltaf að ráðast í en frestum að fara í.
Sérfræðingar segja að þetta sé auðvelt, fyrst og fremst snúist þetta um að flokka hlutina saman og að hver og einn hlutur eigi sinn stað. Byrjaðu á því að fara yfir heimilið með penna og skrifblokk í hönd, skrifaðu niður hvernig þig langar að hvert herbergi líti út og hvað er ekki í samræmi við þær hugmyndir þínar. Skrifaðu niður í mesta lagi 30 atriði sem þú ætlar að breyta. Forgangsraðaðu síðan eftir hvaða atriði eða herbergi hafa mest áhrif á þitt daglega líf.
„Fjölskyldan sinnir verkefnum og áhugamálum,
börnin leika sér, þvotturinn er ósamanbrotinn.“
Ef allt heimilið er í óreiðu skaltu byrja á svefnherbergjunum, af því að svefn er undirstaða fyrir allt í okkar lífi. Spurningarnar sem þú þarft að spyrja þig eru: Elskar þú hlutinn? Þarftu á honum að halda? Hefur hann einhvern tilgang? Mælt er með að taka 15 mínútur daglega í þessa tiltektaráskorun. Líkurnar eru á að þú munir taka lengri tíma, en 15 mínútur eru tími sem er auðvelt að ná og þegar við höfum náð þeim tíma finnst okkur við hafa náð árangri og fáum hvatningu til að gera meira. Þú þarft að vera í stuði til að ganga í verkið. Ef ríkir kvíði eða þér finnst verkefnið óyfirstíganlegt er gott að byrja á einhverju minna, eins og til dæmis að taka til í hnífaparaskúffunni.+
Á mörgum heimilum eru föt og leikföng aðalvandamálið, einfaldlega af því að við eigum allt of mikið af hvoru tveggja. Fylgstu með hvaða leikföngum börnin þín leika sér með og reyndu að skipta út leikföngunum þannig að það sé ekki allt of mikið af dóti í herbergjunum þeirra. Pakka má hluta þeirra í kassa og setja í geymsluna og skipta svo um reglulega þar til þau hætta alfarið að leika sér með viðkomandi leikföng. Kenndu börnunum þínum að gefa þau leikföng áfram sem þau eru hætt að nota, eins og í Góða hirðinn eða annað. Börn munu gefa hlutina sína áfram ef þau vita að þeir geta hjálpað öðrum eða fært þeim gleði. Það væri jafnvel skemmtilegt ef fjölskyldan ákveður að vera árlega með bás á næsta loppumarkaði og innkoman færi í eitthvað skemmtilegt, til dæmis gjaldeyri í sumarfríið.
Eldhús eru líka oft hlaðin af hlutum, við eigum til að kaupa of mikið af mat, sérstaklega mat sem geymist eins og dósa- og pakkamatur. Reyndu að hafa þá reglu að nota aðeins eina hillu eða eina skúffu fyrir slíkan mat. Það er hætt við að óreiðan verði mikil ef geymslurýmið er mikið. Raðaðu hlutunum saman í skúffum og hillum, hafðu til dæmis lokin á geymsluílátum, pottum og slíku. Það er bæði snyrtilegra og sparar sífellda leit að lokum á viðkomandi hlut. Hættu að kaupa endalaus ílát eins og vatnsflöskur, kaffimál, fjölnota poka. Slíkir hlutir eiga til að fjölga sér hratt án þess að vera notaðir. Besta lausnin til að halda heimilinu snyrtilegu og öllu á sínum stað er einfaldlega að eiga minna af öllu.