En hvernig hefur kvikmyndasagan fjallað um eða talað til hinsegin hópa?
Hvaða gullmolar standa upp úr, hvaða titlar hafa hitt í hjartastað og hvers vegna?
Vefurinn Kvikmyndir.is tók saman léttan lista um nokkrar frábærar hinsegin kvikmyndir og hvetur fólk eindregið til þess að setja óséðu myndirnar á radarinn sinn, ekki síst um þessar mundir í þágu góðs þema.
The Bitter Tears of Petra von Kant (1972)
Eitt af stórverkum þýska meistarans R.W. Fassbinder og byggir jafnframt á leikriti eftir hann sjálfan. Hér fara einungis konur með hlutverkin og gerist kvikmyndin alfarið í húsi tískuhönnuðarins Petru, sem er hrokafull og harðsnúin eftir tvö hjónabönd. Petra nýtur þess að fara illa með aðstoðarkonu sína. Lífið tekur óvænta stefnu þegar módelið Karin gengur inn í líf hönnuðarins og hefst ástarsamband þeirra á milli. Kvikmyndin spilast að miklu leyti í löngum tökum og fer sérstakt hrós til sviðsmyndar og þemun um valdaspil í kynlífi og ást. Frábær mynd.
The Rocky Horror Picture Show (1975)
The Rocky Horror Picture Show kom út árið 1975 við dræma aðsókn og er í dag talin einhver merkasta „költmynd“ allra tíma. Aðdáendur hafa í gegnum árin sótt sýningar á henni og þá margir hverjir klæddir í gervi söguhetjanna, Frank-N-Furter, Rocky og félaga. Sýningin hófst á sviði árið 1973 og var upphaflega sköpuð sem óður til losta, kynvera, frelsis og ýktra B-hryllingsmynda. Það þreytist seint að taka eitt tíðhnitið enn.
Philadelphia (1993)
Philadelphia er algjör klassíker og Tom Hanks hefur sjaldan verið áhrifaríkari. Þeir Denzel Washington eiga ógleymanlegan samleik (og ekki leiðinlegt heldur að sjá þarna ungan Antonio Banderas í hlutverki ástmanns Hanks) í mynd sem sýnir klærnar þegar kemur að mismunun og fordóma. Þetta var ein af fyrstu Hollywood-myndunum til þess að fjalla um HIV-faraldurinn og er enn í dag erfitt að horfa á myndina með augun þurr.
The Adventures of Priscilla, Queen of the Desert (1994)
Vegamyndir kvikmyndasögunnar eru jafn margar og þær eru mismunandi, en fáar eiga séns í stuðið sem prýðir ferðalag þeirra Bernadette (Terrence Stamp), Mitzi (Hugo Weaving) og Feliciu (Guy Pearce) um eyðimerkurlandslag Ástralíu. Tilgangur ferðalagsins er að sýna hvað í þeim býr með sturlaðri dragsýningu. Priscilla er einfaldlega allt sem hún þarf að vera; fyndin, skemmtileg og þríeykið er alveg í essinu sínu.
Heavenly Creatures (1994)
Ástin unga er erfið, þá ekki síður þegar foreldrarnir úr báðum áttum mótmæla þínum tilfinningum og þér sem þinni eigin kynveru yfir höfuð. Heavenly Creatures er byggð á sönnum atburðum og segir frá tveimur unglingsstúlkum sem tengjast og lifa í sínum eigin heimi. Þegar blákaldur raunveruleikinn fer að skella á og ýmsar hraðahindranir standa í vegi þeirra fer allt á annan endann. Myndinni er leikstýrt af Peter Jackson (Lord of the Rings, The Hobbit, Braindead) og sýnir hann hér hvað virkilega í honum býr, með bæði fallegum hætti og hreint út sagt ógeðslega grimmum. Lokasenurnar skilja ýmislegt eftir sig, segjum það, en hið sama má segja um alla myndina. Búið ykkur undir högg.
The Birdcage (1996)
Gleði, drag, vandræðalegheit, gamanleikarar í góðu stuði og einhver hressasti tengdó-hittingur sem sögur bera af. The Birdcage býr yfir hjartahlýjum móral og tekur fyrir umburðarlyndi, skilning og hreinlega syndir í æðislegri dýnamík leikhópsins. Um er að ræða endurgerð á frönsku myndinni La Cage aux Folles og um leið sjaldgæfan fjársjóð þar sem endurgerðin er betri en frummyndin.
Bound (1996)
Eflaust er flestum kunnugt hverjar Wachowski-systurnar eru (áður bræður). Tvíeykið malaði gull með Matrix-þríleiknum en skömmu áður en þær vinsældir komu, útbjó það lítinn en þrælspennandi trylli þar sem kemistrían lak af þeim Ginu Gershon og Jennifer Tilly. Bland af ástarsögu, svikamillu og spennumynd í sígildum Hitchcock-stíl, Bound ætti að halda þér í heljargreipum.
Happy Together (1997)
Tímamótaverk eftir afkastamikla kvikmyndagerðarmanninn Wong kar-wai. Myndin var tilnefnd til Gullpálmans á kvikmyndahátíðinni Cannes árið 1997 og hlaut kar-wai verðlaun fyrir bestu leikstjórn, en hér er sagt frá átökum og ástarsambandi þeirra Ho Po-wing og Lai Yin-fai. Við upphaf sögu halda þeir frá Hong Kong til Argentínu til að byrja eina ferðina enn á sambandi sínu. Þeir hætta fljótt saman, Yin-fai fer að vinna sem dyravörður og leigir sér íbúð, en Po-wing tekur upp á því að selja sig. Þegar Po-wing mætir sundurbarinn til Yin-fai tekur hann við honum og hjúkrar honum. Leikararnir eru gífurlega sterkir saman og hrái stíll leikstjórann innsiglar söguna svo úr verður bitastætt og öflugt verk sem kvikmyndaáhugafólk ætti helst ekki að láta framhjá sér fara.
Fucking Åmal (1998)
Fyrsta mynd sænska leikstjórans Lukas Moodyson er á meðal hans bestu. Fucking Åmal fangar þá tilfinningu ótrúlega vel hvernig það er að vera félagslega útskúfaður á unglingsárunum… fyrir það eitt að vera öðruvísi en vinsælu krakkarnir. Á sama tíma fylgir hér hjartnæm og yndisleg ástarsaga unglingsstúlknanna Agnesar og Elínar sem væri sóun að líta ekki aftur á við tækifæri.
But I’m a Cheerleader (1999)
Af hverju er aldrei oftar talað um þessa mynd? Vel skrifuð og einlæg dramedía sem skoðar sjálfsuppgötvun hinnar sautján ára Megan, en um leið eru kynjamyndir, samfélagsleg „norm“ og skaðandi úrræði skoðuð með áhrifaríkum og meinfyndinum árangri. Ásamt hinni álíka vanmetnu Slums of Beverly Hills sýnir But I’m a Cheerleader í hvað Natöshu Lyonne býr.
Hedwig and the Angry Inch (2001)
Rocky Horror er svo sannarlega ekki eini „költ-rokksöngleikurinn“ um leitina að hinu sanna sjálfi. Hedwig and the Angry Inch inniheldur skemmtilega tónlist með enn betri textum og fer John Michael Cameron – leikstjóri, handritshöfundur og aðalleikari myndarinnar – svívirðilega á kostum. Cameron gæðir Hedwig dýpt, reisn, húmor og kynþokka og er mælt með að gefa þessari séns, í fyrsta sinn sem á ný.
Mysterious Skin (2004)
Frá hinum umdeilda Gregg Araki er hér á ferðinni hreinskilin, grimm og minnisstæð lítil dramamynd. Í henni er fjallað um tvo stráka sem alast upp saman í Hutschinson í Kansas í Bandaríkjunum, Neil (Joseph Gordon-Levitt) sem er tilgerðarlegur og hégómlegur bragðarefur, og Brian (Brady Corbett) sem er feiminn góður strákur, sem hefur áhuga á geimverum og fólki sem hefur verið numið brott af geimverum. Saman komast þeir að skelfilegum, en frelsandi sannleika.
Brokeback Mountain (2005)
Söknuður getur bæði verið gullfallegt fyrirbæri og ömurlegt. Þetta kemst til skila í hinni dásamlega mannlegu og hæglátu Brokeback Mountain, þar sem Heath Ledger heitinn og Jake Gyllenhaal sýna sínar allra bestu hliðar. Í gegnum árin hefur þessi mynd verið oft fljótfærnislega stimpluð sem „kúrekahommamyndin,” en við nánari skoðun kemur í ljós að hún er svo miklu, miklu, MIKLU meira en það. Þessi rífur í hjartaræturnar.
Milk (2008)
Myndin Milk er byggð á sannri sögu stjórnmálamannsins og mannréttindafrömuðarins Harvey Milk. Hann braut blað í sögu Bandaríkjanna þegar hann var fyrsti opinberlega samkynhneigði maðurinn sem kosinn var til opinbers embættis í landinu. Myndin kemur frá leikstjóra Good Will Hunting og stillir upp sögunni faglega og án bæði sykurs og predikunar, auk þess að skarta góðum leikurum við hvert horn. Sean Penn kemur fantavel út sem Harvey þó megi deila um það hvort hann hafi stolið Óskarsstyttunni frá Mickey Rourke á sínum tíma. En spáum ekki í það.
I Love You, Phillip Morris (2009)
Gúmmíkarlinn Jim Carrey hefur farið um víðan völl, bæði í drama og gamanhlutverkum. Hins vegar hefur hann aldrei sýnt hlið á sér eins og hér, þar sem hann leikur ósvífinn svikahrapp, Steven Russell að nafni, sem kolfellur fyrir ljúflambinu Phillip Morris (frábærlega leikinn af Ewan McGregor). Russell lifir miklu kóngalífi og nýtir þekkingu sína sem fyrrum lögregluþjónn til að svindla á kerfinu. Aftur á móti kemst alltaf upp um gjörðir hans og er hann settur í steininn… ítrekað. Það stöðvar þó ekki Steven frá því að gera allt sem hann getur fyrir hann Phillip sinn og frelsið. Framvinda myndarinnar er dásamlega léttgeggjuð og langsótt en eins og fram kemur í myndinni er þetta dagsatt, svona að mestu.
Órói (2010)
Íslensk kvikmynd sem má alls ekki vanmeta. Einlæg, sönn, kómísk en samt svo bítandi. Órói í leikstjórn Baldvins Z er unglingamynd sem skilur unglinga; tilfinningaflækjurnar og óvissuna sem því stigi tilheyrir. Atli Óskar Fjalarsson fer hispurslaust með aðalhlutverkið sem Gabríel, sem stendur á miklum tímamótum í sínu lífi. Hann er umkringdur góðum vinum en á sama tíma lokaður og áttavilltur. Framvinda sögunnar er brött, leikhópurinn er almennt flottur og trúverðugur og þrátt fyrir þunga í dramanu skilur myndin áhorfandann eftir á jákvæðum og hressum nótum. Lokaskotið er þar sérstaklega frábært.
Weekend (2011)
Raunsæ og ótrúlega hrífandi saga um samband tveggja ungra Breta. Leikurinn í myndinni er nánast eins og hann sé spunninn á staðnum en gefur það myndinni hversdagslegan og öflugan keim. Weekend fjallar einnig almennt um upplifun og sambönd samkynhneigðra manna af miklu innsæi og einlægni ofan á það. Einföld en gríðarlega marglaga kvikmynd.
Blue is the Warmest Color (2013)
Ást. Uppgötvun. Þroski. Mistök. Sundrun. Minningar.
Það er fjári margt sem Blue is the Warmest Color tekst á við úr hinum súrsæta hversdagsleika og þó hundlöng sé (þrír tímar eða svo…) breytir hún áhorfandanum í flugu á vegg í lífi þeirra Adéle og Emmu. Firnasterk frammistaða skjáparsins, persónuleikar þeirra og viðtengjanlegar tilfinningar beggja halda öllu gangandi.
Pride (2014)
Þau Immelda Staunton, Paddy Considine, Dominic West og Bill Nighy eru á meðal leikenda í þessari kröftugu og fyndnu bresku verðlaunamynd. Pride segir frá atburðum sem áttu sér stað á meðan verkfalli námuverkamanna stóð á árunum 1984–1985. Á þessum tíma voru samkynhneigðir í Bretlandi að berjast fyrir samfélagslegri viðurkenningu og fjallar sagan um samstöðu og samkennd þessara tveggja hópa.
Carol (2015)
Það er erfitt að sogast ekki inn í þessa vönduðu og fallegu kvikmynd, sem byggir á skáldsögunni The Price of Salt eftir Patriciu Highsmith frá 1952. Titilpersónan er leikin af kjarnaleikkonunni Cate Blanchett og unga konan sem hún hrífst af, Therese, er leikin af Rooney Mara – og báðar eru hreint út sagt gallalausar í hlutverkum sínum. Myndin er bæði dáleiðandi ástarsaga og í senn merkileg hugleiðing um stöðu samkynhneigðra kvenna sem voru nær ósýnilegar í samfélaginu á þessum tíma.
Tangerine (2015)
Rafmögnuð, lifandi og frumleg. Tangerine fjallar um trans-vændiskonuna Sin-Dee sem hefur leit um alla Los Angeles að dólgnum Chester sem hélt framhjá henni á meðan mánaðarlangri fangelsisdvöl hennar stóð. Myndin er öll tekin upp með iPhone 5 snjallsímanum en það sést ekki að fyrra bragði. Andrúmsloftið angar af fallegri litadýrð og má dást að orku leikstjórans Sean Baker (en Baker gerði seinna meir hina þrumugóðu The Florida Project) og ekki síður persónanna sem prýða söguna.
Moonlight (2016)
Litla Óskarsmyndin sem komst alla leið. Moonlight væri trúlega yfirborðskennt eymdarklám ef úrvinnslan væri ekki svona lágstemmd, lúmskt eyðileggjandi en jafnvel meiriháttar heillandi á sama tíma. Efniviðurinn sýnir af mikilli einlægni og nærgætni hvernig erfiðir atburðir eiga það til að móta okkur, sem og fólkið í kringum okkur og ekki síður umhverfið. Persónurnar eru allar þrívíðar og trúverðugar manneskjur; flóknar, gallaðar og slær enginn feilnótu á skjánum í hlutverki sínu.
Hjartasteinn (2017)
Hjartasteinn segir frá sterkri vináttu tveggja táningsdrengja, Þórs og Kristjáns. Sagan gerist yfir sumar í litlu sjávarþorpi og fylgjumst við með þessum strákum mótast og uppgötva eigin sjálfsmyndir saman, ásamt samfélagi þeirra og samskiptum við hitt kynið. Annar drengjanna sækir ólmur í draumastúlkuna á meðan hinn uppgötvar nýjar tilfinningar í garð vinar síns. Þessi mynd er ekki að sækjast eftir því að finna upp nein hjól, en hún skipar sér þó í ákveðna sérstöðu, þrátt fyrir að vera enn eitt íslenska eymdardramað þar sem einblínt er á fjölskylduerjur og drykkju í smábæ. Styrkur hennar liggur í trúverðugu handriti, flottri kvikmyndatöku og öflugum leikurum. Það er eiginlega hálfgert kraftaverk hvað unga fólkið er traust og að heildarmyndin skuli vera svona tilgerðarlaus, áreynslulaus, manneskjuleg og heillandi.
God’s Own Country (2017)
Þessi var valin besta kvikmyndin á Berlinale á útgáfuári sínu og segir frá hinum unga Johnny, en hann rekur bóndabæ föður síns á Yorkshire í Englandi. Til að flýja ömurlegan hversdagsleika sinn stundar Johnny einnar nætur gaman eða drekkur sig fullan á bæjarkránni. Þegar kemur fram á vor er hinn rúmanski Gheorge ráðin til sveitabæjarins og brátt myndast lostafullt samband milli mannanna tveggja. Framvindan og þær áherslur á tilfinningar og smáatriði gefa frá sér gullfallega, áhrifaríka og á tíðum einstaka mynd.
Love, Simon (2018)
Love, Simon fjallar um menntaskólanemann Nick, sem heldur samkynhneigð sinni leyndri. Fyrir tilstilli samfélagsmiðla kemst hann að því að það er annar samkynhneigður í skólanum. Þeir byrja að spjalla saman og deila leyndarmálum og Simon verður ástfanginn af hinum nafnlausa og andlitslausa skólabróður sínum. Skemmtileg og falleg saga um fyrstu ástina með Nick Robinson í aðalhlutverkinu, sem hann skilar af sér með glæsibrag