Helga Sigurbjarnardóttir, innanhússarkitekt FHI tók saman nokkur góð ráð fyrir stofurýmin og sagði okkur einnig frá sínum eftirlætis húsgögnum og ljósum.
Menntun: Meistaragráða frá Istituto Europeo Di Design, Mílanó
Vefsíða: helgasig.com
Eru einhver ákveðin trend í gangi um þessar mundir þegar kemur að stofum og borðstofum?„Mjúk form og mjúkir litir, náttúruleg efni eins og viður, bast og hör. Svo er Travertine-steinninn að verða vinsæll aftur og er skemmtileg viðbót við marmarann sem búinn er að vera inni þó nokkuð lengi.“
Eru einhverjir tilteknir litir sem þér finnst koma vel út í þessum rýmum? „Hlýir gráir, grábrúnir og sandlitaðir litir koma alltaf vel út og ganga með flestum litum. Þeir gefa hlýja og notalega stemningu og ég mæli alveg með því að mála loftið í sama lit og veggina.“
Hvað með lýsingu – getur þú gefið lesendum nokkur ráð við val á ljósgjöfum í stofunni annars vegar og borðstofunni hins vegar? „Varðandi lýsingu í stofunni þá er ég mjög hrifin af því að vera ekki með of mikla loftlýsingu heldur notast meira við gólf- og borðlampa. Það er t.d. sniðugt að hafa þessa stóru gólflampa sem koma yfir sófa og sófaborð í staðinn fyrir að vera með hangandi ljós. Þá er auðvelt að færa ef uppröðun í stofu er breytt.
Í borðstofu mæli ég með að hafa hangandi ljós yfir borðinu og passa að hafa möguleika á nægri birtu. Ef borðið er t.d. langt og breitt er oft gott að hafa tvö ljós hlið við hlið. Dimmanlegt er alltaf málið.“
Góð ráð til að fá sem mest út úr þessum rýmum? „Gott skipulag, stærð og fjöldi húsgagna skiptir miklu máli. Stærri rými þola stærri og meiri húsgögn á meðan minni rými koma yfirleitt betur út með léttum og einföldum húsgögnum. Húsgögnin þurfa líka að vera þægileg svo fólk njóti þess að nota rýmin. Stækkanleg borðstofuborð eru alltaf málið að mínu mati.“
Þetta er brot úr lengri grein en hana má finna hér á vefnum Birtingur.is.