Mæðgurnar Embla Wigum og Margrét Kristín Sigurðardóttir eru báðar einstaklega hæfileikaríkar á sínu sviði. Embla er 23 ára förðunarfræðingur, sem nú er búsett í London í Bretlandi. Embla hefur vakið mikla athygli á samfélagsmiðlum fyrir förðunarmyndbönd sín og er í fullu starfi sem samfélagsmiðlastjarna, aðallega á TikTok. Þar er hún með stærsta fylgjendahóp sinn um 1,7 milljón manns og er líklega vinsælasti Íslendingurinn á þeim samfélagsmiðli.
Myndbönd hennar fá mörg hver yfir fimm milljóna áhorf og 20 milljóna áhorf eru á vinsælasta myndbandinu hennar þar. Nýlega birti hún myndband innblásið af sýningu móður hennar DAY 3578 sem er nýtt ævintýranlegt tónleikhúsverk byggt á tónlist Fabúlu. Um er að ræða tónlist frá öllum hennar ferli, allt frá fyrstu plötu sem gefin var út 1996 til óútgefinna nýrra verka.
Margrét Kristín er 59 ára, hún tók sér listamannsnafnið Fabúla og gaf út plötuna Cut My Strings 1996. Margrét lærði á píanó og einnig trommur hjá Gunnlaugi Briem, lærði leiklist í Noregi, hljómfræði í Bretlandi og jassöng og píanóleik við FÍH. Margrét hefur verið tilnefnd til tónlistarverðlauna, tekið þátt í Söngvakeppninni og fleira.
Í viðtali við Mbl sagði Embla um samband þeirra mæðgna: „Við höfum alltaf verið rosalega nánar og góðar vinkonur, erum mjög svipaðar á marga vegu en líka ólíkar á sumum stöðum. En það er alltaf mjög gaman hjá okkur og mikið hlegið, eins og í allri fjölskyldunni líka. Við erum með rosa mikinn mæðgna og fjölskyldu einkahúmor sem mér þykir mjög vænt um.“