Aldís Arna Tryggvadóttir er vottaður markþjálfi frá ICF, International Coaching Federation enauk þess með próf í viðskiptafræði, verðbréfamiðlun, frönsku, heilsueflingu og líkamsrækt. Í starfi sínu sem markþjálfi og streituráðgjafi starfar Aldís með einstaklingum, hópum og teymum og er vinsæll fyrirlesari um árangursríka streitu- og vellíðunarstjórnun, markmiðasetningu, heilbrigði, hamingju og sátt. Leið Aldísar að þessu öllu saman hefur ekki verið bein og greið og hún hefur fengið sinn skerf af áföllum í gegnum tíðina.
„Ég hef upplifað mörg áföll,“ segir Aldís, „en þrátt fyrir alls konar verkefni sem ég hef fengið í lífinu er ég þakklát og lít á mig sem sannkallaða gæfukonu í raun. Ég sæki dálítið í bernskuna; að vera glöð, hreinskilin, spennt og forvitin, hafa gaman og láta vaða og vera ég sjálf, því ég bar ekki gæfu til þess sem barn að vera barn. Ég segi að ég hafi hætt að vera barn þegar ég var ellefu ára.“
Aðfangadagskvöldið sem Aldís var ellefu ára var haldið hátíðlegt heima hjá fjölskyldunni á Arnarnesinu. Næsta morgun var allt breytt. „Þegar ég vaknaði á jóladag, grunlaus, var mömmu hvergi að finna. Það breyttist auðvitað allt á augabragði, heimur minn hrundi og þetta var rosalega erfiður tími. Ég upplifði öryggisleysi og vissi ekki hverju og hverjum ég tilheyrði þar sem fallega fjölskyldan mín var brotin.
Mamma flutti út og ég varð eftir hjá pabba því mér fannst ég þurfa að vera til staðar fyrir hann. Ég var mikil mömmustelpa og saknaði mömmu alla daga en samskiptin milli hennar og pabba urðu erfið í kjölfarið þótt þau séu sátt við hvort annað í dag og ég lenti þarna á milli. Mamma var alltaf til staðar fyrir mig en ég gat ekki hitt hana mikið og enn þann dag í dag finnst mér ég eiga inni tíma hjá mömmu minni. Hugsa sér, ég er orðin fullorðin en dett samt í að verða þessi ellefu ára stelpa sem vantar mömmu sína,“ segir Aldís hugsi.
„Pabba leið skiljanlega ekki vel og ég tók mikla ábyrgð á mig. Ég tók til og þreif og gætti þess að létta undir með honum eins og ég gat og valda honum ekki óþarfa álagi eða vansæld. Með mér ræktaðist mikil ábyrgðartilfinning og fullkomnunarárátta. Ég var í raun bara lítil ráðskona en hafði auðvitað hvorki aldur né þroska til að axla þá ábyrgð sem aðstæðurnar kölluðu á. Það var ekki fyrr en mörgum árum síðar eftir mikla sjálfsvinnu sem ég áttaði mig á því að þetta hefði ekki verið heilbrigt mynstur.“
Þessa grein ásamt öllu öðru efni sem birtist í tímaritum Birtíngs getur þú lesið með því að gerast áskrifandi – Prófaðu frítt í 7 daga
Aldís ítrekar að sér þyki ákaflega vænt um foreldra sína, þau séu yndislegt fólk og hún kenni engum um það hvernig hlutirnir voru. „Allir voru að reyna að gera sitt besta en ég viðurkenni samt að þetta var ekki auðvelt. Mamma var mýktin og pabbi var harkan, ég meina þetta ekki illa þótt það kunni að hljóma þannig. Pabbi átti ekki auðvelda æsku, ólst eiginlega upp hjá vandalausum og lærði snemma að treysta á sjálfan sig í einu og öllu. Við getum sagt sem svo að ég hafi alist upp í þannig húsi að fólk hafi gert ráð fyrir því að ég væri ofdekruð pabbastelpa sem fengi allt upp í hendurnar en þannig var það alls ekki.
Ég hef alltaf unnið sjálf fyrir öllu mínu. Að því sögðu er ég ekki að vorkenna mér, þannig var bara mitt uppeldi. Pabbi minn byrjaði með tvær hendur tómar og hans heimspeki er sú að maður bara bjargar sér. Hann byggði þetta stóra hús, sem oft hefur verið kallað „Hvíta húsið“ á Arnarnesinu. Fyrir mér var þetta bara heimili mitt og ég vandist því fljótt að það var stöðug umferð af fólki fyrir utan sem gerði sér ferð til að keyra fram hjá og skoða það, stundum komu heilu rúturnar.“