„Það var ekki því um að kenna að við vorum í fjarbúð. Það getur alveg verið þægilegt að vera í fjarbúð, eða 50/50 eins og þetta hefur verið hjá mér, sérstaklega þar sem ég er mjög sjálfstæð og á erfitt með að hafa einhvern hangandi yfir mér alla daga. Eða kannski er það það að ég hef alltaf verið í samböndum sem einkennast af ferðalögum beggja aðila.
Ég veit ekki hvort ég gæti annað, en það er samt aldrei að vita því nú er ég farin að eldast og róast,“ segir ísdrottningin Ásdís Rán Gunnarsdóttir aðspurð um sambandsstöðuna í forsíðuviðtali nýjasta tölublaðs Vikunnar.
Ásdís Rán sem er fyrirsæta, þyrluflugmaður og einkaþjálfari stendur á ákveðnum tímamótum þessa dagana þar sem hún er að koma sér fyrir í Kópavogi en hún hefur verið búsett í Búlgaríu um árabil. Næstu tvö árin ætlar Ásdís að vera meira á Íslandi en áður þar sem dóttir hennar ætlar að klára grunnskólann hér. Ásdís er alltaf með marga bolta á lofti og það er nóg
að gera hjá henni. Hún veit ekki hvað framtíðin ber í skauti sér en er ákveðin í því að einbeita sér að því sem henni finnst gaman að gera og gefur henni hamingju. Hún sé komin á þann aldur.
Hægt er að lesa viðtalið við Ásdísi Rán og nýjasta tölublað Vikunnar á áskriftarvef Birtíngs.