KVENNABLAÐIÐ

Svona getur þú fækkað hitaeiningum í hrísgrjónum um helming

Hrísgrjón eru vinsæll matur og borðuð víðast um heiminn. Margir telja þó neikvætt við hrísgrjón að þau eru hitaeiningarík og innihalda töluvert af kolvetnum. Vísindamenn hafa þó fundið einfalda leið til að fækka hitaeiningunum í hrísgrjónum um helming. Kemur þetta meðal annars fram á vef Heilsutorgs.

Sögur herma að vísindamenn frá Sri Lanka fundu leið til að fækka hitaeiningunum um helming og nú vinna þeir að rannsóknum á hvort þeir geti gert það sama við fleiri fæðutegundir. Fyrst var sagt frá þessari uppgötvun á síðasta ári en nú hefur fréttin um þetta fengið byr undir báða vængi á nýjan leik í mörgum erlendum fjölmiðlum.

The Independent hefur eftir Sudhair James, einum vísindamannanna, að þeir hafi soðið hrísgrjón á hefðbundinn hátt nema hvað þegar vatnið fór að sjóða, áður en hrísgrjónunum var bætt út í, settu þeir kókosolíu út í vatnið. Magnið af kókosolíu var þrjú prósent af þyngd hrísgrjónanna sem á að sjóða.

Að suðu lokinni eru grjónin látin standa í kæli í 12 klukkustundir.

Vísindamennirnir kynntu niðurstöðurnar á ársþingi American Chemical Society og þar kom fram að með þessu hafi þeim tekist að fækka hitaeiningum í grjónunum um helming. Þeir vinna nú að frekari rannsóknum og yfirferð gagna vegna þessa.

Ástæðan fyrir því að hitaeiningunum fækkar þegar þessi aðferð er notuð er að sterkja, sem er í grjónunum, er þannig að það er hægt að hafa áhrif á hana. Sumar tegundir sterkju eru þannig að það tekur líkamann skamman tíma að melta þær og þær breytast því hratt í glúkósa.

Aðrar tegundir sterkju eru þannig að líkaminn er lengi að melta þær og þær verða ekki að glúkósa og eru því hitaeiningasnauðari. Með því að nota mismunandi eldunaraðferðir er hægt að breyta sterkjunni eins og vísindamennirnir gerðu við hrísgrjónin.

Þeir vonast til að í framtíðinni verði hægt að nota aðferðina við fleiri matartegundir, eins og brauð, og gera þær hollari.

Hæ!

Takk fyrir heimsóknina á sykur.is. Okkur þætti það alls ekki leiðinlegt ef þú myndir fylgja okkur á Facebook. Við erum ekki óþolandi þar. Í alvöru!