Ragnar Grímur Bjarnason, yfirlæknir barnalækninga á Landspítala, segir inflúensuna vera orðið stærra vandamál en Covid-19 hér á landi. Fjöldi barna hefur lagst inn á Barnaspítala hringsins undanfarið og innlögnum vegna inflúensunnar fjölgar nú hratt.
Enn liggja þó mörg börn á Landspítalanum vegna Covid-19 og hafa komið upp nokkur tilfelli þar sem börn með veiruna hafa þurft að leggjast á gjörgæslu. Þá lést tveggja ára stúlka, sýkt af Covid, á Þórshöfn fyrr í mánuðnum.
Ragnar Grímur segir það sem betur fer heyra til undantekninga að börn veikist alvarlega vegna kórónuveirunnar. „Flest börn eru ekki alvarlega veik og þetta er bara eins og hver önnur flensa hjá flestum. En það er ekki hægt að líta fram hjá því að þarna varð dauðsfall og það er bara mjög sorglegt og hugur okkar er með aðstandendum,“ sagði Ragnar í samtali við Morgunblaðið.
Á Landspítalanum segir Ragnar að inflúensan sé stærsta verkefnið núna. Hann segir þó „aðalveiruna“ í dag vera inflúensuna og að jafnvel hærra hlutfall barna þurfi nú á innlögn að halda vegna hennar, samanborið við Covid-19. „Það eru ansi margir að leggjast inn út af einhverju öðru. Það er okkar aðalvinna núna, það er inflúensan.“