KVENNABLAÐIÐ

Hildur Eir um #metoo-byltinguna: „Ég veit að ég verð ekki vinsæl fyrir að segja þetta“

Hildur Eir Bolladóttir prestur blandar sér í umræðuna um #metoo-byltinguna og þá aðferðarfræði sem notuð er í byltingunni. Hún segist hafa hugsað þetta lengi og er meðvituð um að hún verði ekki vinsæl fyrir að segja þetta.
Aðferðarfræðin sem hún gagnrýnir fyrst og fremst er sú að verið sé að birta samskipti úr nánum samböndum á samfélagsmiðlum og í fjölmiðlum. Með því séu allir aðilar máls á svo miklum berangri að þeir séu í raun naktir á sviði samfélagsins. Þegar athygli samfélagsins er síðan komin annað stendur fólkið eftir nakið.
Til að skýra betur út gagnrýnina á aðferðarfræðinga skulum við gefa Hildi Eir orðið:
„Ég veit að ég verð ekki vinsæl fyrir að segja þetta en ég hef hugsað þetta lengi. Ég er svo efins um þessa aðferðarfræði að birta samskipti úr nánum samböndum í fjölmiðlum, að gera upp sársauka úr ástarsamböndum þar sem já andlegt ofbeldi hefur viðgengist. Það er ekki vegna þess að mér þyki svo leiðinlegt að einhverjir menn missi vinnu eða stöðu í samfélaginu enda er það aukaatriði þegar sálarheill og almenn heilsa er annars vegar, nei ég er efins vegna þess að mér finnst allir aðilar máls vera á svo miklum berangri, nakið fólk á sviði samfélagsins og svo stendur það eftir nakið þegar næsta mál er komið á dagskrá, samfélagið er komið með athyglina annað og afhjúpunin á málinu sem er aðeins eitt skref af fjölmörgum sem aðilar málsins eiga eftir að taka, bara toppurinn á ísjaka þjáningar og úrvinnslu er það eina sem fjölmiðlar og samfélagsmiðlar bjóða fram sem aðstoð.
Sem starfandi sálgæsluaðili hugsa ég alltaf: „Guð minn góður hvað það er mikil vinna framundan hjá þessu fólki“ rétt eins og þegar ég heyri af banaslysum þá veit ég hvað það er löng vegferð framundan. Þegar fólk missir til dæmis barn er maður jafnvel í mörg ár í samfylgd með fólkinu að vinna úr sorginni á meðan almenningur heyrir af andlátinu í fjölmiðlum og hugsar „en hræðilegt.
Umræðan um kynbundið ofbeldi er óendanlega mikilvæg og hefur reynst öflug vakning og bylting síðustu ár sem komandi kynslóðir munu búa að sem einstaklingar í öruggara og réttlátara samfélagi. Ég er bara efins um ákveðna þætti í aðferðunum, ekki vegna þess að ég hafi áhyggjur af því að það verði engir skemmtikraftar eftir á sviðinu heldur vegna þess að ég óttast að það eigi svo margir eftir að standa skjálfandi naktir á sviðinu og enginn í áhorfendahópnum hafi hugsun á því að fara upp á svið með teppi vegna að þá er ný sýning að hefjast.“

Hæ!

Takk fyrir heimsóknina á sykur.is. Okkur þætti það alls ekki leiðinlegt ef þú myndir fylgja okkur á Facebook. Við erum ekki óþolandi þar. Í alvöru!