„Ég var orðin svo hrædd við hann og endaði í geðrofi, efnin löngu búin að svíkja mig og líkaminn að gefa sig,“ segir Þórey Aðalsteinsdóttir, 27 ára Reykvíkingur, um neyslu sína og kynferðisofbeldið sem hún varð fyrir í sambandinu.
Þórey ræðir erfiðleika sína í hlaðvarpsþættinum Sterk saman. Hún segir frá því að hún hafi verið reiður unglingur og hafi fljótlega leiðst út í félagsskap krakka sem drukku. „Ég byrjaði að drekka hverja helgi tólf ára gömul. Ég varð mjög erfið og var hótað með Stuðlum, fóstri og öðru en var fljót að sjá að það voru innantómar hótanir,“ segir Þórey.
Tíminn leið, Þórey flosnaði upp úr námi og var komin í daglega neyslu fíkniefna þegar foreldrar hennar settu henni úrslitakosti. Þórey skyldi fara í meðferð ella yfirgefa æskuheimilið. Um tvítugt byrjaði hún samband við strák sem var að losna úr fangelsi.
„Þetta fannst mér rosalega spennandi og eitthvað mjög heillandi við hans persónuleika. Hann kom edrú heim úr fangelsinu og ég laug að honum að ég væri edrú, ég var hvort sem er að ljúga að öllum,“ segir Þórey en það tekur augljóslega á hana að segja frá sambandinu og ofbeldinu sem hún þurfti þar að þola. „Ég var ekki bara fangi efnanna heldur líka fangi þessa sambands.“
Í dag hefur Þórey verið án allra vímuefna í tæp fjögur ár og aldrei liðið betur.