Börn í Naustmerkinu eru fædd undir stjörnu Venusar frá 20 apríl til 20 maí: Barn í Nautsmerkinu vill hafa frið og þægindi i kringum sig, fallega hluti og notarlega ró. Litlu Nautin þrífast best í kunnuglegu umhverfi þar sem þau þekkja hvern krók og kima; kringum fólk sem þau hafa þekkt bróðurpart ævinnar. Þess vegna er foreldrum barna í Nautsmerkinu svo mikilvægt að umvefja litla Nautið kunnugleika og öryggi, ef litla Nautið fer í næturpössun er því eins gott að gleyma ekki uppáhaldsbangsanum og bestu náttfötunum – svo litla og jarðbundna Nautið hafi kunnuglega hluti meðferðis!
Skyndilegar breytingar á högum geta reynst litla Nautinu erfiðar, þess vegna er best að undirbúa litla Nautið með örlitlum fyrirvara – ef því verður komið við. Þó litlu Nautin séu oft ekki gefin fyrir að sýna sterkar tilfinningar, eru börn fædd undir stjörnu Nautsins þó viðkvæmir og ástríkir einstaklingar sem kunna vel við reglu og öryggi í umhverfi sínu.
Besta leiðin til að búa litla Nautið undir yfirvofandi breytingar er að gefa þeim tíma og svigrúm til að melta hlutina í einrúmi. Samtímis er mikilvægt að leyfa litla Nautinu að bera upp spurningar og hafa svörin á reiðum höndum. Þessi nálgun getur reynst litla Nautinu heillarík – þá fær litla Nautsbarnið tíma til að undirbúa sig í hjarta sínu og huga og breytingarnar verða þá ánægjulegri þegar upp er staðið.
Einstaklingar í Nautsmerkinu eru tryggir í eðli sínu og jarðbundir, þeir taka ábyrgðarhlutverk sitt alvarlega og þessi persónueinkenni koma strax í ljós á barnsaldri. Það er erfitt að telja Nautinu hughvarf, þegar það hefur á annað borð tekið ákvörðun og litla Nautið getur þannig ríghaldið í áhugamál sín og þverneitað að prófa íþrótt sem því er ekki kunnug. En ef litla Nautið fæst til að prófa á annað borð, gefur það sig allt í leikinn og er líklegt til árangurs. Þetta gerir að verkum að litlu Nautin eru harðdugleg, fylgin sér og afar samviskusöm í leik og námi.
Sömu eiginleikar og lýst er hér að ofan gera litlu Nautin að tryggum vinum, traustum fjölskyldumeðlimum og afar elskandi einstaklingum sem öllum þykir skemmtilegt að vera nærri. Barn í Nautsmerkinu elskar foreldra sína yfirleitt með hverri taug og frumu og sýnir ást sína umhugsunarlaust, en samtímis getur litla Nautið verið varkárt og hlédrægt í samskiptum við vini og leikfélaga. Litla Nautið getur verið fyllilega ánægt með tvo eða þrjá ágæta leikfélaga og leggur meiri orku í að rækta vináttuna við fáa en góða vini – öfugt við Tvíburabarnið sem elskar samskipti og eignast nýja kunningja á nær hverjum degi.
Litla Nautið getur verið kröfuhart á elsku ástvina sinna og vinum litla Nautsins getur þótt umhyggjan keyra um þverbak, þar sem litla Nautið vill vera elskað af sömu ástríðu og umhyggju og það veitir þeim sem því standa næst, en því er enn mikilvægara að faðma litla Nautið daglega, nudda mjúku tásurnar og fullvissa litla Nautið um að ást og kærleikur ríki í umhverfi þess.
Fólk fætt undir stjörnu Nautsins er rómað fyrir þrjósku, úthald og ákveðni og þar er litla Nautsbarnið ekki undanskilið. Litla Nautið getur haft mótaðar hugmyndir um leik og tómstundir; til að telja litla Nautinu hughvarf þurfa ágæt rök að liggja að baki. Sem svo aftur örvar rökhugsun litla Nautsins – sbr. ástæðu þess að himininn er blár og árstíðirnar eru fjórar talsins. Litla Nautið býr yfir aðdáunarverðu úthaldi og elskar af öllu hjarta.