Heppinn miðaeigandi vann 25 milljónir króna í Happdrætti Háskóla Íslands en dregið var í kvöld. Miðaeigandinn fékk hæsta vinning í aðalútdrætti happdrættisins, sem er fimm milljónir króna, en þar sem hann er með trompmiða fimmfaldast vinningur og hreppti hann því 25 milljónir. Annar miðaeigandi átti einnig einfaldan miða með sama númeri og fær sá hinn sami fimm milljónir króna í vinning.
Fjöldi annarra miðaeigenda höfðu ástæðu til að gleðjast og má þar nefna átta sem fengu eina milljón króna hver og tólf sem fengu hálfa milljón króna hver.
Í heildina skiptu vinningshafar í október með sér rúmum 133 milljónum í skattfrjálsa vinninga.
Milljónaveltan svokallaða gekk ekki út í október og verður potturinn því tífaldur í nóvember eða 100 milljónir króna sem einn heppinn miðaeigandi gæti fengið í jólabónus þetta árið.
„Happdrætti Háskóla Íslands óskar vinningshöfum innilega til hamingju með vinninga sína og gleðst yfir því að halda áfram að fjölga heppnum Íslendingum,“ segir í tilkynningu.