Ketógenískt mataræði (lágkolvetna) er eitthvað sem ótrúlega margir virðast vera á þessa dagana. Þess vegna er ekki úr vegi að birta eins og eina grein, en tveir eða þrír grillpinnarinnihalda aðeins þrjú grömm af kolvetni!
Þessi er einföld og er innblásin af tælenskri matargerð. Kjúklingurinn er baðaður í kókosmjólkurmarineringu áður en pinnarnir eru grillaðir eða bakaðir.
Undirbúningur 15 mínútur – eldunartími 15 mínútur – marinering 6 klukkustundir.
4 skammtar í þessari uppskrift. 330 hitaeiningar í hverjum skammti
Það sem þú þarft:
500 gr kjúklingabringur án skinns
10 grillpinnar sem eru látnir liggja í vatni í hálftíma fyrir notkun
Vorlaukur smátt skorinn
Marinering:
1/2 bolli kókosmjólk
Þrír hvítlauksgeirar
1/2 teskeið karrí
1/2 tsk salt
1/2 tsk svartur malaður pipar
1/4 tsk cayenne pipar
Hnetusósa:
1/4 bolli sykurlaust hnetusmjör án bita
Þrír hvítlauksgeirar
Tvær matskeiðar sesamolía
1 msk ólívuolía
1 msk soyasósa
1 msk límónusafi
Svona gerir þú:
Marinering: Settu öll innihaldsefni í stóra skál og blandaðu vel. Skerðu kjúklinginn í þriggja sentimetra bita og settu þá í blönduna. Settu plast yfir skálina og settu í ísskáp í að minnsta kosti sex tíma.
Eldun: Þræddu kjúklinginn á grillpinnana og settu á stóra bökunarplötu. Grillaðu við 180°C í 10 mínútur, snúðu þeim og settu inn aftur í fimm mínútur. Þú getur líka hent þeim á grillið!
Á meðan þú bíður eftir kjúllanum skaltu setja öll innihaldsefnin í sósuna í lítinn pott. Hrærðu í pottinum og hafðu hann á meðalhita í nokkrar mínútur. Hafðu sósuna á lágum hita, hrærðu af og til.
Settu kjúklingapinnana á disk. Penslaðu sósuna á kjúklinginn. Klipptu vorlauk yfir og svartan pipar ef þið óskið. Snæðið heitt!