Heimabakað morgunkorn er dásamleg viðbót út á jógúrtblöndu með ferskum ávöxtum í upphafi dags. Það skemmtilega við þessa uppskrift er að þú ræður fyllilega hvað þú setur út í blönduna, þú velur öll hráefnin og hefur fullt vald á því hvort um lífrænt ræktuð innihaldsefni er að ræða.
Þess utan er morgunkornið ekki jafn dýrt og pakkinn sem þú kaupir úti í verslun, geymsluþolið getur verið allt að nokkrar vikur ef þú geymir blönduna í loftþéttum umbúðum og vel er hægt að bæta þurrkuðum ávöxtum út í blönduna þegar morgunkornið hefur verið ristað inni í ofni.
Prófaðu að bæta rúsínum, þurrkuðum bláberjum, kirsuberjum, söxuðum apríkósum, þurrkuðum bananasneiðum, niðursneiddum og þurrkuðum eplabitum eða hverjum öðrum þurrkuðum ávöxtum sem þér dettur í hug. Þurrkuðu ávextina setur þú út í morgunkornið þegar blandan hefur kólnað algerlega eftir að hafa verið tekin út úr ofninum, en viðbótin er dásamleg og afar heilnæm leið til að auka á náttúrulegt sætubragð án þess að setja óhollar viðbætur út í heimalagað morgunkornið.
I N N I H A L D S E F N I:
3 bollar gróft haframjöl
1 ½ bolli hnetur og fræ að eigin vali (möndlur, pekanhnetur, graskersfræ, hörfræ o.fl)
½ bolli ferskkreistur eplasafi
½ bolli hlynsýróp (eða hunang)
¼ bolli matarolía
1 msk hreint vanilluþykkni
½ tsk malaður kanel
¼ tsk malaður negull
1 tsk fínmalað sjávarsalt
L E I Ð B E I N I N G A R:
#1 – Forhitið bökunarofninn í 160 gráður.
#2 – Blandið saman höfrunum, hnetunum og fræjum í stórri skál.
#3 – Blandið nú saman eplasafanum, hunanginu, olíunni, vanilluþykkni og kryddi í lítinn pott. Kveikið á eldavélinni og hitið varlega við lágan hita, eða þar til hunangið er orðið mjúkt og allt er vel blandað saman. Takið af hellunni og hellið blöndunni yfir hafrana og hneturnar í skálinni. Hrærið öllu vel saman þar til allt er orðið vel blandað.
#4 – Leggið bökunarpappír á ofnplötu og dreifið blöndunni jafnt yfir alla ofnplötuna. Gætið þess að leyfa blöndunni að fá rými – ekki hrúga um of – þar sem morgunkornið þarf rými til að ristast í ofninum. Mögulegt er að þú þurfir tvær ofnplötur til að rista blönduna, en það fer eftir stærð á bökunarpappír, ofnplötu og ofninum sjálfum.
#5 – Bakið í ca. 30 – 40 mínútur inni í ofni en hrærið varlega í morgunblöndunni á ca. 12 – 14 mínútna fresti til að tryggja að morgunblandan hitni jafnt og bakist fallega í ofninum. Þegar morgunblandan er orðin fallega gylltbrún eftir umræddan tíma, er hún tekin út úr ofninum og látin kólna alveg á ofnplötunni.
Uppskrift // MNN