Rapparinn 50 cent lenti í hálfgerðum samfélagsmiðla stormi eftir að hann birti mynd á Instagram og hvatti fylgjendur sína, sem eru 26,2 milljón talsins, til að kjósa Donald Trump í komandi forsetakosningum.
Hann birti skjáskot úr sjónvarpsútsendingu þáttarins Power Lunch, á CNBC stöðinni, sem sýndi hversu mikla skattahækkun forsetaframbjóðandinn Joe Biden boðar, ef hann nær kjöri.
„Mér er sama þótt Trump líki ekki við svart fólk, 62 prósent ert þú alveg ruglaður?,“ skrifar rapparinn.
Hann fékk misjöfn viðbrögð frá fylgjendum sínum og var meðal annars kallaður heimskur. Fyrrverandi kærasta hans, grínistinn Chelsea Handler, skrifaði:„Þú varst einu sinni uppáhalds fyrrverandi kærastinn minn.“
Rapparinn hafði áður greint frá því, þegar hann kom fram í The Late Late Show with James Corden, að honum hafi verið boðin hálf milljón dollara fyrir að mæta á kosningaviðburð Trump árið 2017. Hann hafi neitað því vegna áhrifanna sem það gæti haft á feril hans.