Vivian „Millie“ Bailey, 102, er fyrrverandi hermaður sem barðist í seinni heimstyrjöldinni.
Hún kom nýlega fram í þættinum Honor Flight Heroes þar sem framleiðendur þáttanna spurðu hana hvort það væri eitthvað sem hana hafi alltaf langað að gera í lífinu en aldrei gert.
Vivian sagði þá að hún hafi hugsað lengi um það að fara í fallhlífarstökk. Hún hafi fengið innblásturinn af því þegar George H.W. Bush, fyrrverandi forseti Bandaríkjanna, fór í fallhlífarstökk þegar hann var 90 ára. Hún sagði einnig að fallhlífarstökk hefði hingað til aðeins verið fjarlægur draumur þar sem að það kosti rúmar 40 þúsund krónur og hún hafi einfaldlega ekki efni á því. Framleiðendur þáttana voru snöggir að kippa því í liðinn og splæstu á Vivian í fallhlífarstökk og mynduðu atburðinn.