Hann er kallaður kraftaverkabarn, enda er það í raun réttnefni. Oscar Bedford fæddist blár og án lífsmarka. Foreldrarnir voru búin að ákveða kveðjustund með hvítvoðunginum þegar kraftaverkið gerðist og hann opnaði augun.
Fæddist Oscar á fæðingardeild Leicester Royal í Bretlandi. Hann kom í heiminn við mjög tvísýnar aðstæður. Þrátt fyrir að læknar á fæðingardeildinni reyndu sitt besta var eins og hann sýndi engin lífsmörk og var hann meðvitundarlaus. Eftir tímabil í nýburakassa var Oscar lagður í hendur foreldra hans sem tóku hann í sérstakt herbergi þar sem foreldrar kveðja börn sem hafa ekki haft það af.
Chelsea og Greg voru í afskaplega miklu uppnámi en gerðu eins og þeim var sagt: „Þau sögðu að eftir að hann færi úr hitakassanum gæti hann lifað af í einhverjar mínútur eða bara sekúndur,“ sagði Chelsea (26).
Hún óttaðist að móðir hennar, Sally-Ann myndi aldrei hitta barnabarnið sitt þannig hún hringdi í hana á Facetime og beindi myndavélinni að Oscar þar sem hann lá á bringu hennar.
Í miðju símtali gerðist það óvænta.
„Hún var úti að versla þegar hún fékk símtalið og þar sem við vorum að spjalla sá hún að Oscar opnaði augun og hún bara öskraði,“ segir Chelsea. „Augun hans opin í fyrsta skipti, þetta var súrrealískt – eins og draumur. Ég sat á rúminu og hristi höfuðið. Þetta var besta tilfinning í heimi, en ég þurfti að klípa sjálfa mig til að fullvissa mig um að þetta væri alvöru.“
Móðirin gaf Oscari að drekka sem gaf honum orku. Þrátt fyrir að hann væri vakandi var hún vöruð við að vera of vongóð. Hann var fluttur á annan spítala, en var á þeim forsendum að hann yrði ekki endurlífgaður. Eftir þrjá daga var það ekki lengur í gildi.
Síðan þá hefur Oscar fengið að fara heim með foreldrum sínum.
Hann er ekki laus við heilsufarserfiðleika en getur tjáð sig, hlegið og brosað: „Hann er núna 18 mánaða en er eins og þriggja mánaða barn. Hann er að hluta blindur en hann elskar að brosa og hlæja,“ segir Chelsea.
„Hann elskar að fara á sjúkrahúsið – heyra nýjar raddir og hlusta á tónlist. Honum finnst gott að láta halda á sér og babblar mikið.“
Oscar er flogaveikur og er óvíst hversu lengi hann mun lifa.
Foreldrar hans njóta því hverrar mínúru með honum: „Hann var á bráðamóttökunni fyrir mánuði síðan og við héldum við myndum missa hann. Við vitum ekki hversu lengi hann verður með okkur en meðan hann er hér finnst mér að hann eigi að fá allt – sérstaklega eftir það sem hann hefur gengið í gegnum.“
Þar sem foreldrarnir reyna að safna fyrir sérstakri sjúkraþjálfun fyrir Oscar eru þau einnig að bíða eftir litlu systur Oscars: „Hann á eftir að elska að eignast litla systur. Hann er samt dálítill sadisti og hlær þegar önnur börn gráta! Ég kvíði því svolítið að þurfa að hugsa um þau bæði, en ég veit hann á eftir að njóta þess.“
Heimild: Mirror