Þetta hljómar kannski eins og söguþráður í sakamálasögu Agöthu Christie, en svo er víst ekki. Áströlsk kona deildi sögu sinni á ABC.net.au þar sem hún lýsti ótrúlegum svikum af hálfu þáverandi kærasta sem hún elskaði. Hann lést (eða svo hélt hún) og hún fór í gegnum langt og strangt sorgarferli. Nokkrum árum seinna hitti hún hann, sprellifandi, vinnandi á veitingastað í borginni þar sem þau bjuggu.
Konan, sem aðeins er þekkt undir nafninu Rachel, segir að hún hafi verið 18 ára gömul þegar hún hóf samband við kokkinn á kránni þar sem þau unnu. Virtist sambandið vera eins og hvert annað samband ungs fólks og hún lýsir honum sem „mjög almennilegum.“
Samt sem áður breyttist sambandið þegar kærastinn, sem ekki má nefna á nafn sökum lagalegra mála, missti vinnunna og bað hana um hundruðir dala til að lifa af. Hann borgaði eitthvað af fénu til baka, en þegar þau hættu saman nokkrum mánuðum seinna segir hún að hann hafi neitað að borga afganginn og hætti að svara skilaboðum hennar.
Ástandið varð þó enn furðulegra þegar vinir hans upplýstu hana um að húsgögnin sem hann hafði verið með að láni frá henni hefðu horfið úr íbúðinni þar sem hann bjó með þeim: „Húsgögnin voru horfin, rúmið var horfið, allt bara,“ segir Rachel. „Upprunalega sagan var sú að hann hefði farið í meðferð í Queensland.“
Hún var þó ekki sannfærð en áður en hún hafði tíma til að rannsaka þetta betur fékk hún skilaboð frá móður hans sem sagði að hann væri látinn: „Þetta hljómar kannski furðulega svona eftir á, en þú ferð ekki að efast um svona huti. Ef ég hringdi í þig og segði að mamma mín hefði dáið myndir þú ekki bara: „Sýndu mér dánarvottorðið.““
Móðir hans sagði víst vinum hans að hann hefði verið myrtur af mótorhjólagengi.
Rachel syrgði „andlátið“ á hennar eigin hátt og hélt svo áfram með líf sitt.
Tveimur árum síðar kom svo sannleikurinn í ljós. Rachel var að vinna í sínum gamla heimabæ þegar hún kom við á veitingastað og sá þar fyrrverandi kærastann, afar lifandi og í vinnu: „Ég fór bara í algert sjokk,“ segir hún. Áður en hún hafði tækifæri til að tala við hann var hún beðin um að yfirgefa staðinn.
Óviss um framhaldið ákvað hún að tala við lögregluna. Hún gat ekkert hjálpað henni, sagði að það væri bara orð gegn orði.
Seinna sama kvöld hafði móðir hans samband við hana að nýju, í þetta sinn til að kvarta yfir því að Rachel hefði hleypt öllu í uppnám á veitingastaðnum og sonur hennar hefði verið rekinn í framhaldinu.
Allt þetta gerði Rachel algerlega örmagna og í dag skilur hún ekki einu sinni allt. Hún óskar þess heitast að hún hefði haft tækifæri á að setjast niður með honum og tala við hann almennilega: „Ég hefði haft einhverjar spurningar sem ég hefði viljað fá svör við. Eina eða tvær.“