Gríshildur er afskaplega kátt svín sem býr á Hrafntóftum í Rangárþingi-Ytra. Gríshildur er fimm mánaða og var brúðkaupsgjöf til Sigurbjargar Björgúlfsdóttur og Þóris Ófeigssonar í sumar. Sigurbjörg, sem er oftast kölluð Sigga, segir að hún sé eins og alkóhólistarnir, „tekur bara einn dag í einu“ þar sem hún veit ekki alveg hvernig framtíðin verður hvað Gríshildi varðar. Eitt er þó á hreinu: „Við ætlum ekki að borða hana. Það er bara eins og að borða hundinn sinn,“ segir Sigga.
Stjúpsonur Siggu er mikill grallari og gaf henni folald í fertugsafmælisgjöf og svo svín í brúðkaupsgjöf: „Hann er bara þannig! Ég vissi að hann myndi gera eitthvað brjálæðislegt og beið bara eftir því. Þannig Gríshildur er nú orðin ein af fjölskyldunni í dag.“
Sigurbjörg býr á Hrafntóftum sem er sveitabær með eiginmanni sínum Þóri og börnum. Móðir hennar var ráðskona á bænum þegar Sigga var lítil og heillaðist hún mjög af staðnum, enda stórkostlegur. Nú býr Sigga þar og foreldrar hennar hinu megin við götuna. Þau eiga 17 hesta, hundinn Samma (Samúel L. Jakason fullu nafni) og köttinn Gretti.
Sigurbjörg fer oft í göngutúra með hundinn, svínið og köttinn og eru þau öll afskaplega ánægð með samveruna. Gríshildur er auðvitað fyrirferðamest í hópnum. Hún er mikill karakter, alger brussa og líka ljúf og góð. Sigga segir: „Svo er hún kannski búin að eyðileggja eitthvað sem hún gerir iðulega, hún er bara fimm mánaða og er svolítill smákrakki. Svo þegar ég er orðin reið út í hana gerir hún eitthvað krúttlegt þannig fyrirgef henni alltaf fyrir rest!“
Gríshildur býr ekki í húsinu með mannfólkinu heldur á sína stíu í hesthúsinu. Kötturinn gistir hjá henni á nóttunni, en sefur þó ekki upp við hana…ekki enn allavega. Gríshildur verður stundum afbrýðisöm út í Samma sem fær að sofa inni í húsinu. Hann verður þó stundum afbrýðisamur út í hana þegar hún fær of mikið knús þá treður hann sér á milli eða þegar hún fær ýmislegt góðgæti að éta, enda er það ekkert smáræði sem hún innbyrðir á hverjum degi.
Uppáhaldið hennar er mjólk og brauð, mjólkina fær hún frá nágrannabænum Bjóluhjáleigu og stundum Bjólu. Hún er ekki spennt fyrir lauk, ávöxtum og furðu lítið hrifin af grænmeti að Siggu mati. Sammi fær þó það sem hún fær ekki – beikon og kjöt sem fellur til og Grettir fisk. Gríshildur er alæta og Sigga segir þau mjög heppin að fá allan afgangs mat frá Kanslaranum, sem er veitingastaður á Hellu: „Ég er þeim afskaplega þakklát af því að hún var hreinlega að éta okkur út á gaddinn!,“ segir hún og gefur Gríshildi úr fötu það sem afgangs varð, í þetta skiptið franskar og pizza.
Gríshildur eltir bílinn!
„Gríshildur Svínk Skink Oink Skoink Doink” segir Sigga og hlær: „Hún er algert tröllabarn, eins og einhver sagði. Ég kalla hana bara hitt og þetta.“ Sigga klappar henni og segir: „Hún er svo hlý,“ en hefur samt áhyggjur af því að henni verði kalt. Hún segir hana þó bara vera inni og er líka að fara að mæla hana því hún ætlar að prjóna á hana peysu. Gríshildur setur þó ekki kuldann fyrir sig trítlar ánægð í göngutúr með mannfólkinu og Samma og Gretti. Hún hnusar þó af öllu, rýtir og treður trýinu ofan í jarðveginn. Ef hún finnur rætur étur hún þær. „Hún er kannski ekki sérlega umhverfisvæn“ segir Sigga og bendir á jarðvegsvinnu í kringum húsið þar sem Gríshildur hefur verið á ferð:
Aðspurð hvort það sé mýta að svín séu í raun mjög hreinleg segir Sigga að Gríshildur þverneiti að gera þarfir sínar í stíunni sinni, það sé bara ógeðslegt: „Hún finnur sér einhvern stað, helst vill hún pissa og kúka í ána, þannig það er bara í raun eins og klósettið hjá okkur mannfólkinu.” Gríshildur kynntist klakanum í fyrsta sinn í þessum göngutúr og fannst bara mjög gott að bryðja hann:
Hún er alger frekja og gefur frá sér hljóð sem þýða hitt og þetta. Hér að ofan er Sigga að stríða Gríshildi sem er ekki ánægð með það.
Gríshildur er ekkert hrædd við hestana þeirra þó þeir stundum láti hana vita að hún sé ekki velkomin!
Gríshildur á að sjálfsögðu Facebooksíðu eins og sannri samfélagsstjörnu sæmir, en Sigurbjörg stofnaði hana til að vera ekki að „spamma” vini sína endalaust á Snapchat með svínamyndum, eins og hún orðar það: „Það vita kannski fáir mikið um svín, enda eru þau ekki auðveldustu gæludýrin,” segir Sigga og hlær.