Leikarinn Keanu Reeves er uppáhald margra enda örlátur og virðist kærleiksríkur. Hví hefur þessi myndarlegi maður ekki fest ráð sitt? Það eru nokkrar ástæður fyrir því, en að sjálfsögðu kýs fólk oft að vera einhleypt og ekkert er að því.
Keanu var eitt sinn afskaplega ástfanginn af Jennifer Syme, sem var aðstoðarkona leikstjórans David Lynch. Þau hittust árið 1998 í teiti fyrir hljómsveit Keanu sem kallast Dogstar.
Þau urðu ákaflega ástfangin og hún varð síðar ólétt. Þau ætluðu að nefna litlu stúlkuna Ava. Mánuði áður en hún átti að fæðast, seint á árinu 1999 fæddist hún andvana. Parið átti erfitt með tilfinningar sínar og þau hættu í sambandi en voru góðir vinir. Í aprílmánuði árið 2000 lést svo Jennifer í bílslysi.
Jennifer hafði verið á leið úr teiti hjá Marilyn Manson. People sagði svo frá: „Hún straujaði þrjá kyrrstæða bíla, bíllinn valt og hún þeyttist út úr bílnum. Í bílnum fann lögreglan pakkningar utan af þunglyndislyfjum og upprúllaða dollaraseðla með hvítu dufti.“
Keanu átti mjög erfitt með að sætta sig við sviplegt fráfall hennar. Keanu viðurkenndi árið 2006 í viðtali við Parade: „Sorgin breytir um form, en hún endar aldrei. Fólk á erfitt með að skilja þetta og heldur að maður geti dílað við þetta og sagt: „Þetta er farið, mér líður betur.“ Það er bara ekki rétt. Þegar fólk sem þú elskar hverfur, ertu einn.“