Sá morðingi sem hefur kannski haft hvað mest áhrif á sadískar kvikmyndapersónur í gegnum söguna var Ed Gein, einnig þekktur sem „Slátrarinn frá Plainfield” (e. Butcher of Plainfield).
Þrátt fyrir að Ed hafi ekki verið fjöldamorðingi, drap „einungis” tvo einstaklinga svo vitað sé, hefur aðferðafræði hans verið það sem tekið var eftir. Ed fæddist árið 1906, þann 27. ágúst í Plainfield, Wisconsinríki, Bandaríkjunum.
Kennarar og bekkjarfélagar Eds í grunnskóla minnast þess að hann hafi verið feiminn en hegðað sér á furðulegan máta. Skólinn kenndi móður Eds um, en hún refsaði honum þegar hann reyndi að eignast vini. Sökum þess var hann mikið einn sem barn.
Fyrir utan að hafa haldið félagslífi hans og bróður hans Henry í gíslingu lét hún þá helga sig bóndabýlinu þar sem þau bjuggu. Hún las mikið úr Biblíunni fyrir þá og predikaði að heimurinn væri afar slæmur, allar konur væru vændiskonur og drykkja og ósiðlegheit væru verkfæri djöfulsins.
Þegar Ed var 38 ára gamall voru hann og Henry að vinna á ökrunum. Þeir voru að brenna mýri en þegar eldurinn fór úr böndunum varð að kalla á slökkviliðið. Eftir að þeir höfðu komið og farið tilkynnti Ed að bróðir hans væri horfinn.
Lík Henrys fannst um kvöldið, andlitið á kafi í mýrinni, látinn vegna köfnunar. Í fyrstu var eldinum kennt um þrátt fyrir að yfirvöld áttuðu sig á að Henry hafi verið látinn áður en eldsvoðinn varð. Hann hafði sár á höfðinu og grunaði lögreglunni að Ed hefði myrt bróður sinn þrátt fyrir að engar sannanir væru þess efnis. Þeir voru því þvingaðir til að samþykkja að andlátið hafði verið slys. Síðar sögðu rannsakendur að enginn vafi léki á því að Ed hefði myrt bróður sinn.
Eftir dauða Henrys og móður hans nokkrum árum seinna gerði Ed upp sveitabýlið. Í stað þess að gera heimilið nýtilegra fyrir einn einstakling lokaði hann öllum þeim herbergjum sem móðir hans hafði notað og negldi fyrir dyrnar. Hann bjó svo í einu svefnherbergi út af eldhúsinu. Ed var ekki hrifinn af viðhaldi þannig þessi herbergi grotnuðu niður.
Á meðan Ed bjó einn á sveitabænum, í algerri einangrun, varð hann heillaður af trúarreglum sem dýrkuðu dauðann og keypti tímarit þess efnis. Einnig var hann hrifinn af ævintýrasögum um nasista sem voru mannætur. Þrátt fyrir að fjölskyldan væri látin var hann enn mjög einangraður og kaus einveru.
Í nóvember árið 1957 hvarf eigandi verkfærabúðarinnar á staðnum. Bernice Worden hafði sést kvöldið áður en þegar búðin var lokuð allan næsta dag var farið að leita að henni. Sonur hennar Frank var lögreglustjórinn á staðnum og fór hann inn í búðina. Þar fann hann búðarkassann opinn og blóðdropa á borðinu.
Frank komst að því að Ed hafði verið í búðinni kvöldið áður og hafði hann sagt Bernice að hann ætlaði að koma morguninn eftir að kaupa gallon (tæpa fjóra lítra) af frostlög. Nýjasta kvittun búðarkassans sagði hinsvegar að gallon af frostlegi hefði einmitt verið síðast seldur.
Rannsakendur héldu heim til Eds, handtóku hann og framkvæmdu húsleit.
Þeir höfðu verið því undirbúnir að finna lík Bernice á sveitabænum, en ekkert gat undirbúið þá fyrir það sem þeir fundu.
Það sem þeir fundu varð fóður hryllingsmynda á borð við Psycho, Silence of the Lambs og The Texas Chainsaw Massacre.
Heimili Eds var fullt af líkamshlutum.
Það voru óendanlega mörg mannabein í húsinu, bæði brotin og heil, hauskúpur voru á rúmgaflinum. Það sem var þó öllu óhugnanlegra var að finna húsgögn sem voru unnin úr mannshúð.
Stólar voru fóðraðir með húð, krukkur, leggings búnar til úr mannshúð, heilu líkamsgallarnir, grímur búnar til úr andlitum, belti búið til úr geirvörtum, varir voru notaðar í spotta til að draga gardínur frá, korsett var búið til úr kvenmannslíkama og lampaskermur úr mannsandliti.
Einnig fann lögreglan ýmsa líkamshluta, t.d. neglur, fjögur nef og kynfæri níu kvenna.
Þeir fundu jú lík Bernice, höfuðlaust. Höfuðið fundu þeir í strigapoka og hjartað fundu þeir í plastpoka nálægt eldavélinni. Líkami hennar hafði verið ristur og snúið á hvolf, þannig hún hékk eins og nýslátrað dádýr.
Lögreglan fann einnig leifar annarrar konu, Mary Hogan og hafði hún verið limlest á sama hátt. Við yfirheyrslur játaði Ed Gein allt. Hann sagði lögreglunni að hann hefði farið að minnsta kosti 40 sinnum í kirkjugarða til að grafa upp lík. Hann sagðist hafa gert það í einhverskonar leiðslu.
Að auki sagði Ed frá því hvað varð til að hann hóf þetta ferli. Sagði hann að skömmu eftir andlát móður hans hafi hann farið að búa til „kvenbúning” þannig hann gæti virkilega orðið að móður sinni, skriðið inn í húð hennar, svo að segja. Allar konurnar sem hann gróf upp og nýtti voru svipaðar móður hans að vaxtarlagi.
Þrátt fyrir alla líkamshlutana sem fundust á heimili hans var hann aðeins ákærður fyrir eitt morð: Á Bernice Worden.
Ed Gein bar við geðveiki og sagðist ekki sakhæfur. Það fór einnig svo fyrir rétti. Hann var skilgreindur með geðklofa. Reynt var að rétta aftur yfir honum eftir að læknar töldu að hann gæti verið við réttarhöld, en var aftur talinn ósakhæfur. Hann eyddi það sem eftir var lífsins á geðsjúkrahúsi og var talinn einn af svakalegustu morðingjum 20 aldarinnar.
Hann lést 77 ára þann 26. júlí 1984.