Skoskur maður var handtekinn á dögunum fyrir að hafa kannabisefni undir höndum. Þegar framkvæmd var líkamsleit á manninum beygði hann sig fram og fretaði þrisvar viljandi framan í lögregluþjóna og sagði: „Hvernig líkar þér þetta?“ (e. „How do you like that?). Lögreglunni varð ekki skemmt og var hann ákærður í kjölfarið.
Málavextir eru þeir að Stuart Cook (28) var handtekinn í Aberdeen, Skotlandi á vettvangi bílslyss. Stóð hann fyrir framan bílinn sem lenti í slysinu og var að tala við annan ökumann. Lögregluþjónar fundu kannabislykt af honum og í kjölfarið var leitað í bíl hans þar sem smáræði af kannabisefnum fundust. Þá var hann handtekinn og mjög ósáttur varð hann foxillur og hóf að öskra á laganna verði. Hann var fluttur í lögreglubíl á stöðina.
Í bílnum öskraði Stuart fúkyrði og þandi kassann af reiði. Þegar á stöðina var komið var framkvæmd líkamsleit á honum. Hann var látinn afklæðast og þegar honum var sagt að beygja sig niður rembdist hann greinilega og fretaði í átt að lögregluþjónunum. Svo sagði hann: „Hvernig líkar þér þetta?“
Stuart var leiddur fyrir rétt þar sem hann játaði að hafa notað hótandi orðbragð, notað ógnandi líkamsbeitingu og viljandi leyst vind í átt að lögreglunni.
Verjandi hans Laura Gracie sagði að skjólstæðingur hennar hefði einungis lent í smávægilegum árekstri sem endaði með þessum ósköpum. „Hann varð mjög reiður við lögregluna því hann hafði verið að reykja jónu. Honum fannst lögreglan gera of mikið mál úr hlutunum.“
Dómari dæmdi Stuart í 75 tíma samfélagsþjónustu og fékk hann viðvörun fyrir að hafa kannabis undir höndum.