Elva Christina er ung þriggja barna móðir, fædd árið 1995. Þann 10. september 2019 fæddist gullfalleg dóttir hennar en gleði hennar er skammvinn þar sem Barnavernd hyggst taka hana eftir þrjá daga og senda til föður stúlkunnar í Noregi. Að sögn Elvu hefur barnsfaðir hennar ekki áhuga á að taka barnið og er hann með son þeirra, tveggja ára fyrir og eldri dóttur sína einnig: „Þau ætla bara að skella frímerki á rassinn á henni og senda hana í burtu frá mér, í algera óvissu.“
Elva segist vera refsað fyrir að vera með sjúkdóm – alkóhólisma, og sé að gera allt hvað hún getur til að vera edrú og hefur verið mjög hreinskilin við Barnavernd, beðið um hjálp og sýnt mikinn samstarfsvilja. Þegar Elva grætur núna sængurkvennagráti á spítalanum, en hún fær að hafa dóttur sína þar á kvennadeild í 12 tíma á dag, segir Barnavernd að hún eigi að hætta þessu væli, annars taki þau dóttur hennar strax eða skerði tímann sem hún fær að vera með henni.
Elva er ráðþrota. Dóttir hennar er tveggja daga gömul og verður tekin af henni og sett á barnaheimili án móður sinnar þar til hún má fljúga og þá verður hún send til Noregs, til einstæðs föður sem einnig er alkóhólisti, en Elva veit ekki til að aðstæður hans hafi nokkuð verið kannaðar, né hvort norsk barnaverndaryfirvöld séu í samráði við þau íslensku.
Æska og erfiðleikar
Elva Christina kemur frá brotnu heimili. Þær voru sjö systurnar og mikil drykkja, ofbeldi og afskiptaleysi í æsku: „Ég var týnda barnið,“ segir hún. „Ég reyndi að láta sem minnst fyrir mér fara og fannst einhvernveginn aðrir mega vera til, en ekki ég. Ég var frábrugðin öðrum fannst mér alltaf. Mér fannst ég aldrei eiga neitt gott skilið, og það er auðvitað sem maður fer með út í lífið, þessa innri rödd.“
Móðir hennar er óvirkur alkóhólisti og faðirinn var mjög fjarverandi vegna vinnu.
Systurnar héldu þó hópinn og pössuðu vel upp á hvor aðra, en Elva er næstyngst.
Elva prófaði fyrst að reykja tóbak þegar hún var í þriðja bekk, en drakk fyrst þegar hún var 11 ára: „Þá fannst mér ég loksins tilheyra, mega vera til. Ég reyndi alltaf að „fitta“ inn í hópinn, fannst mér aldrei ég „vera ég“ einhvernveginn. Alltaf með grímu og aðrir máttu ekki sjá mig eins og ég var.“
Í fyrsta sinn sem hún drakk var eins og eitthvað opnaðist fyrir henni. Þrátt fyrir að hún hafi fundið fyrir ógleði og kastað upp á gólfið var þetta eitthvað sem hún fann frelsi við að gera.
Eftir þetta fór hún að reykja, drekka og „fékk mér gat í naflann og tunguna og allt það,“ segir Elva og hlær. „Ég var bara þessi manneskja.“
Elva flutti úr Breiðholtinu til Keflavíkur þar sem hún kynntist kannabisi. Hún vildi mest flýja heimilið þar sem endalaust var um rifrildi og hún fékk ekkert skjól. Hún áttaði sig einnig á að heimilislíf hennar var öðruvísi en hinna krakkanna. Lífið þarna úti var spennandi og fólki fannst gaman að henni. Hún lét áfengi í friði eftir að hafa kynnst kannabisi.
Meðganga og neysla
Elva fór 14 ára, að verða 15 inn á Vog í fyrsta sinn. Nokkrum dögum seinna, þá að verða 15 ára, kemst hún að því að hún er ólétt. Á meðgöngunni var henni nauðgað af fjölskylduvini, manni sem hún treysti: „Hann sá að ég grét á meðan.“ Einnig var henni nauðgað af öðrum manni þegar hún var 13 ára.
Elva var með fyrri barnsföður sínum í þrjú ár og var Elva í efirliti hjá Barnavernd vegna ungs aldurs á meðgöngu. Þegar fyrsti drengurinn hennar fæddist var hann í mánuð á vökudeild. Hún skildi svo við barnsföður sinn mánuði seinna.
Elva þjáðist af miklu meðgönguþunglyndi í kjölfar fæðingarinnar og tengdist syni sínum ekki: „Ég gat ekki horft á hann, gat ekki séð hann.“ Hún djammaði um helgar á þessum tíma, en drengurinn var í pössun. Hún var í miklu þunglyndi og leið mjög illa vegna þess. Segist hún ekki hafa verið til staðar fyrr en hún flutti til Noregs.
Þegar hún flutti til Noregs var hún edrú í heilt ár og náði að tengjast drengnum sínum. „Ég vaknaði ánægð á morgnana og naut þess að vera til.“
Elva fór þó að drekka og á stuttum tíma var hún farin að vera með fólki sem ekki hafði góð áhrif á hana. Hún fór þarna að nota harðari efni og sambandið við son hennar minnkaði.
Tekin var sú ákvörðun að sonur Elvu flytti til föður síns í Danmörku þar sem hann býr enn.
Seinni barnsföður sínum kynntist hún í langtímameðferð í Noregi og fóru þau fljótlega að búa saman. Hún varð ástfangin í fyrsta skipti: „Hann var fyndinn, skemmtilegur og ég var bara gyðja fyrir honum. Ég kolféll fyrir honum.“
Þau fluttu saman til Íslands og þau féllu bæði. Elva varð ólétt stuttu seinna og sonur þeirra fæddist. Elva varð mjög þunglynd á meðgöngunni því kærastinn vildi hana ekki: „Hann sagði oft, þú ert svo feit, alltaf að kommenta á hvað ég var feit og sýndi mér engan áhuga. Ég var ólétt og tók þessu mjög nærri sér því ég var mjög ástfangin. Ég er með þessa rödd frá pabba mínum í hausnum: „Þú ert ekki neitt, einskis virði.“ Ég bara svo mölbrotin að innan að ég veit ekki hvar ég á að byrja að tína brotin upp. Eftir þessa meðgöngu varð ég þetta litla barn aftur. Litla Elva sem var fyrir og ég gerði allt sem mér var sagt og var ekki fyrir. Ég kaus alltaf neysluna því þar þekkti ég mig, þar er ég „safe.““
Barnsfaðir Elvu tók drenginn nú í apríl 2019, þá 16 mánaða gamlan og flutti aftur til Noregs. Barnavernd kom þar hvergi nærri heldur leyfði Elva honum að fara með honum. Barnavernd var með eftirlit þar sem þau þekktu þeirra sögu.
Elva segir nú í fyrsta sinn sé hún tilbúin að vera edrú og vilji gera allt til að halda dóttur sinni, sem er tveggja daga gömul. „Núna, í fyrsta skipti er ég að gera eitthvað í málunum. Ég tala frá mínum dýpstu hjartarótum,“ segir Elva með dóttur sína í fanginu. „Ég hef aldrei fundið sjálfa mig edrú, ég hef aldrei fundið mig. Nú hef ég AA, vinkonur mínar og er búin að vera algerlega hreinskilin varðandi allt sem er í gangi við Barnavernd. Ég finn með AA vinkonum mínum að ég get verið ég sjálf. Ég er ekki ennþá með þessa grímu, ég hef ekki þekkt þetta áður.“
Barnavernd hafði afskipti af Elvu þegar hún var komin lengra en 12 vikur á leið: „Þau buðu mér að fara í fóstureyðingu, en ég hugsaði: „Hún er komin með putta, komin þetta langt á leið og ég treysti mér ekki í það. Ég fór ekki. Og hérna er hún,“ segir Elva og horfir ástúðlega á dóttur sína.
Barnavernd vildi senda Elvu í fóstureyðingu
Barnavernd þrýsti á hana með fóstureyðinguna, en Elva sagði: „Ég sagði bara nei, ég ætla að standa mig, þetta er erfitt tímabil hjá mér. Félagsráðgjafarnir hvöttu hana einnig til að láta eyða fóstrinu. Ég náði ekki að halda mér edrú. Barnsfaðir minn og sonur voru fluttir til Noregs. Ég náði að halda mér edrú fyrst eftir að þeir fluttu, síðan bara fór það. Og ég var í neyslu í tvo mánuði og fór upp á geðdeild. Ég bað sjálf um hjálp. Ég sagði þeim hvað hafði gerst, ég fór í prufu og var mjög hreinskilin um ástand mitt. Ég er með sjúkdóm. Ég bað þau virkilega um að hjálpa mér því ég væri ólétt. Þau gerðu það, þannig séð, en þá var ég svipt sjálfræði.“
Elva fór á unglingaheimili í Breiðholti þar sem hún var með „fylgd“ eins og hún kallar það. Þar var fylgst með henni allan sólarhringinn, og þó hún væri 24 ára á unglingaheimili var henni alveg sama, hún vildi bara að fylgst yrði með henni: „Ég vildi sýna þeim að mér væri alvara.“
Elva segist ekki vita hvers vegna hún hafi fengið sér þegar hún var ólétt: „Ég veit ekki hvað gerðist. Ég er samt breytt núna, það sem hefur breytt mér er viðhorfið, AA, ég er að mæta á 90 fundi á 90 dögum. Breytti öllu, allri minni líðan. Ég er hér – núna. Með dóttur mína. Ég upplifi ákveðið æðruleysi. Ég næ ekki að taka fortíðina mína til baka. Ef ég hefði val hefði ég gert það allan tímann. Ég brýt sjálfa mig svo niður að vera með þennan sjúkdóm, en málið er að ég get ekki breytt fortíðinni, en ég get breytt því sem kemur næst, framtíðinni. Skapað nýja fortíð og nýja framtíð fyrir dóttur mína. Ég er að finna fyrir nýjum krafti og ég veit hvert ég á að leita núna. Ég vissi það ekki áður. En Barnavernd hefur ekki trú á mér, þau vilja taka hana af mér eftir þrjá daga.“
Fæðingin og eftirlit
Elva fékk að hafa dóttur sína í 12 tíma eftir fæðinguna. Hún fékk einungis að vera í hálftíma ein með henni eftir fæðinguna, svo kom eftirlitið. Elva tekur prufur tvisvar sinnum á dag, en það er ekki talið nóg. Hún er edrú en barnið má ekki vera hjá móður sinni. Elva er með hana í 12 tíma, starfsfólkið í 12 tíma.
„Þau sáu mig gráta, með ekka og bað um að fá að hafa hana yfir nótt. Þau sögðu mér að hætta að gráta, þau myndu refsa mér ef ég héldi þessu áfram. Þau myndu fækka samverustundunum frá 12 tímum niður í tvo tíma. Ef ég berst svona á móti. Ég er nýbökuð móðir. Ef ég græt og segi mína skoðun segja þau mér að passa mig. Ég get ekki hugsað til þess að þau eigi eftir að taka hana af mér. Ef þau taka hana af mér á ég ekkert nema vinkonur mínar. Ég bið til guðs á hverjum degi að ég fái einhverja lausn, að einhver möguleiki sé á að ég fái að hafa hana hjá mér. Ég segi við Barnavernd að ég geti komið með á þetta barnaheimili sem þau ætla að setja hana á. Má ég fara með henni? Ég er til í að vera undir eftirliti, hvað sem er. Ég geri hvað sem er. Er ekki réttur barnsins að vera hjá móður sinni?“
„Málið er að þetta er sjúkdómur. Banvænn sjúkdómur. Ég er að finna lausnina mína í fyrsta sinn. Ég er á leiðinni í rétta átt en Barnavernd er að draga mig til baka. Ég er nýbökuð móðir og hormónarnir á fullu. Ég stend sterk í þessum stormi. Ég er alkóhólisti, já. Ég vil alls ekki vera í neyslu. Ég vil fá að gera þetta upp. Mér finnst mér vera refsað fyrir að vera með sjúkdóm. Fordómarnir og allt. Mér er refsað fyrir að koma hreinskilnislega fram og segja hver staðan væri. Ég bað um hjálp. Refsað fyrir að biðja um hjálp. Hótað refsingum ef ég sýni tilfinningar gagnvart nýfæddu barni.“
Barnið með pósti til Noregs
Barnavernd vill senda dóttur Elvu til Noregs, til föður sem er alkóhólisti sjálfur og ekkert er vitað um aðstæður hans. Elva segir hann vera vinnualka sem hafi engan tíma fyrir börn og telur hann vera í neyslu þessa stundina: „Þau vita ekkert hvort hann sé edrú. Hver á að fylgjast með honum þarna? Hann er með einn tveggja ára og fær nú nýfætt barn í fangið? Hann ætlar ekki einu sinni að sækja hana til Íslands. Þau ætla bara að skella frímerki á rassinn á henni og senda hana í pósti til Noregs. Bara til að taka hana frá mér. Senda hana út í óvissuna. Hún á að fara á barnaheimilið til að vera ekki hjá mér. Þau hóta mér að fara fyrir dóm og taka hana af mér þar til dómur er fallinn, það getur tekið marga mánuði. Mér er sagt að gefa henni ekki brjóstið. Það er ekkert að mjólkinni minni, ég tek prufur tvisvar á dag. Þau vita það alveg. Ég var í neyslu, já. Ég er að gera eitthvað í málunum núna og er að reyna allt sem ég get og allt rétt.“
Elva nýtur hverrar einustu sekúndu með dóttur sinni. Hún telur að börn eigi að vera hjá mæðrum sínum, það sé réttur barna og efast um lagalegt gildi þess að Barnavernd megi taka nýfætt barn af móður sinni á þennan hátt: „Nú eru öll þessi átök í gangi – Á allra vörum og þessháttar. Til hvers eru þessi átök? Vekja athygli á hverju? Er verið að tala um einstaklinga sem hafa látið lífið vegna neyslu? Hvað með þá sem eru að taka sig á? Af hverju á dóttir mín að gjalda fyrir það? Ég er tilbúin að vera í eftirliti, þess vegna það sem eftir er. Ég vil bara fá að hafa dóttur mína hjá mér. Ekki senda hana úr landi, strax eftir fæðingu. Ég er tilbúin að gera allt.“
Við viljum vekja athygli á undirskriftarsöfnun fyrir Elvu þar sem reynt er að þrýsta á Barnavernd að snúa ákvörðun sinni við.