Myglaður matur, mannaskítur og tómar umbúðir voru það sem blasti við leigusala nokkrum í Birmingham á dögunum. Fékk hann áfall þegar hann braust inn í íbúðina sína, en einstæð móðir bjó þar áður með fjórum börnum sínum. Rusli var staflað í öllum herbergjum, rotnandi matarleifar og drasl út um allt var það sem mætti Shahin Miah, eiganda hússins.
Fjölskyldan hafði búið í íbúðinni í fimm ár, en síðastliðna mánuði hafði Shahin engan aðgang að íbúðinni.
Sagði hann við BirminghamLive að þessi fjögurra herbergja íbúð, sem hann leigði út fyrir 590 pund á mánuði (91.000 ISK) var full af myglu, rifnu veggfóðri, skít og drasli.
Lyktin var svo stæk að hann kastaði upp. Það var engin leið að komast inn í eldhúsið og baðherbergið því mannaskítur var um allt.
„Ég tók fyrir nefið og gubbaði á stéttina,“ segir hann og þarf hann að punga út 2000 pundum til að gera húsið íbúðarhæft á ný.
Shahin býr í sömu götu og sagði allt hafa verið í lagi milli hans og leigjandans sem hann lýsti sem „klárri konu.“ Vandræðin hófust þó fyrir um ári síðan. „Hún opnaði aldrei gluggana né dró frá gluggatjöldin. Hún setti ekki ruslið út á réttum dögum. Ég varð tortrygginn þegar ég fór í heimsókn og hún hleypti mér ekki inn, sagðist vera upptekin á leið út. Ég reyndi oft að hafa samband en hún svaraði aldrei,“ segir hann.
Lokað var fyrir gasið í einn dag og þá komst Shahin að ekkert gas hefði verið í húsinu í heilan mánuð. Þurftu viðgerðarmenn að komast inn til hennar en hún hleypti þeim ekki inn.
Í lok ágúst sagðist leigjandinn ætla að fara og sagði ekki hvert. Hann segir: „Hún skildi lyklana ekki eftir þannig ég varð að brjótast inn. Þegar ég sá ástandið á húsinu fékk ég áfall. Það var allt í viðbjóði, ég gat ekki stigið niður fæti.“
Þegar konan fékk húsið afhent var það með öllum húsgögnum og mjög snyrtilegt. „Það var bara eitt rúm sem var hreint, ekki með mannaskít eða skítugt. Hvað með börnin hennar?“ segir Shahin, sem hefur áhyggjur af þeim. „Ef hún væri mennsk hefði hún ekki gert þetta.“
Heimild: Mirror